Ágætu samstarfsmenn!
Inflúensa herjar mjög á landsmenn núna og spítalinn hefur fundið mikið fyrir því, sérstaklega síðustu viku. Og einnig hefur það truflað að ein bráðadeild er enn lokuð vegna sýkingar eins og ég hefur áður sagt ykkur frá. Þetta hefur gert okkur erfitt fyrir og þá einna helst mikill skortur á einbýlum. Þessi skortur truflar mjög starfsemina og minnkar öryggi sjúklinga. Þetta er eitt af því helsta sem fæst bætt við endurnýjun húsnæðis okkar á næstu árum með nýjum Landspítala.
Nokkur umræða hefur verið um nýjan Landspítala upp á síðkastið. Hún hefur sjaldnast verið byggð á tölum eða rökum en á móti höfum við reynt að svara með umræðu og útskýra hvers vegna við þurfum nýja byggingu. Nokkrir hlutir standa þó út af í þessari umræðu. Meðal annars er það staðarvalið sem margoft hefur verið útskýrt og farið í gegnum. Einfaldast er þó að segja: Það er langódýrast að byggja við Hringbraut (mest af nýtanlegu húsnæði sem hægt er að endurnýja og nýta til lengri tíma). Annað sem hefur verið nefnt er umferðarvandamál eða jafnvel umferðaröngþveiti. Þetta hefur verið margskoðað af sérfræðingum og hefur komið í ljós að ekki þarf að gera neinar sérstakar umferðarráðstafanir þegar spítalinn verður opnaður.
Að síðustu er oft nefnt að ef ekki eru til peningar til að reka heilbrigðiskerfið, af hverju þá að setja peninga í að byggja og endurnýja húsnæðið. Því er fyrst til að svara að í dag eru til peningar til að reka heilbrigðiskerfið og það er rekið með ágætum árangri þótt það hafi orðið fyrir töluvert miklum niðurskurði sem hefur breytt því átakanlega á síðustu árum. Stutta svarið við þessu er einnig að það verður dýrara að halda áfram að lappa upp á það margskipta húsnæði sem við erum í núna en að byggja nýtt. Fyrir utan að nýtt húsnæði mun styrkja faglega spítalastarfsemi og auka öryggi sjúklinga.
Það er dýrast að gera ekki neitt!
Baráttukveðjur, látið í ykkur heyra.
Björn
bjornz@landspitali.is
UMHYGGJA, FAGMENNSKA, ÖRYGGI, FRAMÞRÓUN