Að takast á við áhyggjur
Við höfum öll áhyggjur og mörgum finnst hjálplegt að skrifa þær niður. Stundum er gagnlegt að koma hugsunum úr höfðinu og á blað. Sumum finnst þetta leiða til þess að hugsunin verður skýrari og að auðveldara verður að finna lausnir á vandamálum og leysa úr áhyggjum.
Ef þér finnst að áhyggjur þínar séu að taka yfir daginn getur verið hjálplegt að skipuleggja áhyggjutíma. Í hvert sinn sem þú tekur eftir því að þú ert að hafa áhyggjur af einhverju þá skaltu setja þá hugsun til hliðar og í áhyggjutímann þinn. Þetta leyfir þér að beina athyglinni aftur að því sem er að gerast hér og nú frekar en að áhyggjunum.
Þegar áhyggjutíminn þinn byrjar (t.d. kl. 16:00) þá skaltu setjast niður og nota sérstaka aðferð sem við köllum áhyggjutré. Þessi aðferð hjálpar okkur við að hugsa um lausnir frekar en að dragast inn í neikvæðar hugsanir. Taktu eftir áhyggjuhugsun. Spyrðu þig: „Hvað er það sem ég er að hafa áhyggjur af?“.
Prófaðu að taka eftir hugsuninni og svo skoða hana til að sjá hvort þú hafir kannað alla vinkla. Spyrðu þig svo: „Er eitthvað sem ég get gert til að takast á við það sem ég er að hafa áhyggjur af?“
Ef það er til einhver lausn þá skaltu skrifa niður lausnina og búðu til áætlun um hvernig þú ætlar að takast á við vandann (Hvað get ég gert? Hvernig get ég gert það? Hvenær ætla ég að gera það?). Ef það er eitthvað sem þú getur gert einmitt núna þá skaltu gera það.
Ef að sömu áhyggjur koma aftur upp í hugann þá skaltu minna þig á að þú ert búin/n að finna lausn á vandanum og reyndu að beina athyglinni að einhverju öðru. Ef þú getur ekki gert neitt til að takast á við vandann núna þá skaltu skipuleggja hvenær þú getur tekist á við vandann.
Ef áhyggjuhugsunin kemur aftur upp í hugann skaltu minna þig á að þú ert með áætlun um hvenær og hvernig þú ætlar að leysa vandann og reyndu að beina athyglinni að einhverju öðru.
Ef að þú tekur eftir áhyggjuhugsun sem tengist einhverjum vanda sem þú getur ekki leyst eða tekist á við þá skaltu viðurkenna það og meðtaka.
Áhyggjur eru hluti af lífinu og við getum ekki losnað alveg við þær eða stjórnað öllu. Reyndu að eyða ekki of miklum tíma í einhverja eina áhyggjuhugsun. Ef kvíði læðist að þér skaltu dreifa athyglinni eða prófa öndunaræfingu til að beina athyglinni aftur að því sem er að gerast hér og nú frekar en að áhyggjunum.
Í byrjun er erfitt að nota þessar aðferðir og þú þarft að æfa þig en þær geta virkilega leitt til þess að þú hafir meiri stjórn á hugsunum þínum og tilfinningum.
Ef þú vilt aðstoð við að nýta þessar aðferðir þá eru verkfæri á vefsíðu everymindmatters.co.uk. Með því að vera meðvitaðri um það sem þú ert að hugsa og hafa áhyggjur af getur þú skoðað aðstæður þínar frá ólíkum hliðum og haft meiri stjórn.