Fjárhagsleg streita
Mörg okkar standa frammi fyrir fjárhagslegum áhyggjum og streitu vegna efnahagslegra áfalla sem tengjast Covid. Atvinnumissir, lokun fyrirtækja og áhyggjur af lánum eru raunveruleiki sem margir glíma við í fjölskyldum. Erfiðar minningar um fyrri fjárhagsleg áföll geta líka rifjast upp. Óvissan er mikil og enginn veit hvað framtíðin ber með sér. Í slíkum aðstæðum upplifa margir tilfinningar eins og kvíða, reiði, ótta, sorg, depurð og skömm. Það er mikilvægt að muna að um allan heim standa hundruð milljóna manna frammi fyrir erfiðum efnahagsaðstæðum. Að missa vinnuna eða eiga ekki fyrir helstu nauðsynjum eða afborgunum lána er ekki til að skammast sín fyrir.
Gott er t.d. að reyna að dreifa huganum með því að prófa nokkrar ánægjulegar athafnir ef fjárhagsáhyggjur sækja fast að svo að fólk festist ekki í vaxandi kvíða og áhyggjum. Að finna til ánægju hjálpar til við lausnamiðaða hugsun og að takast á við vandamálum. Það skiptir miklu máli að gera það sem maður getur til að bregðast við aðstæðum t.d. með því að nýta aðgerðir stjórnvalda og annað sem í boði er. Það að leita eftir hjálp sem í boði er í þessum aðstæðum er gott skref og enginn ætti að finna til skammar yfir því.
Ef þú starfar á Landspítalanum og hefur áhyggjur þá getur þú leitað til stjórnanda þíns eða fengið samtal hjá starfsmannastudningur@landspítali.is. Fyrsta skrefið til að leysa vanda er alltaf að viðurkenna hann, tala um hann og fá hjálp til að hugsa um lausnir.
Stjórnvöld hafa þegar brugðist við á margvíslegan máta, bæði til að styðja við tekjur einstaklinga, hag fyrirtækja og lausnir vegna afborgana lána.
Fjármálafyrirtækin hafa einnig sett saman upplýsingasíður.
Hér er að finna samantekt um sumt af því sem í boði er:
- Lausnir og gögn á creditinfo.is
- Tökumst á við þetta saman á arionbanki.is
- Við erum þar sem þú ert á islandsbanki.is
- Finnum lausnir fyrir þig á landsbankinn.is
Ef fólk á ekki rétt á tekjustuðningi samkvæmt aðgerðapakka stjórnvalda er hægt að leita annað:
Sveitafélögum er skilt að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Hægt er að sækja um fjárhagsaðstoð á vef Reykjavíkurborgar. Fjárhagsaðstoð á vegum Reykjavíkurborgar
Hjálparstarf kirkjunnar veitir fólki efnislega aðstoð í samvinnu við presta, djákna, félags- og námsráðgjafa um land allt. Aðstoðinni er ætlað að svara skyndilegri neyð. Hjálparstarfkirkjunnar.is
Mæðrastyrksrnefnd styrkir einstæðar mæður og karlmenn, bæði einstæða og með forsjá barna, en einnig öryrkja og eldri borgara.