Aðstoðardeildarstjóri í geðrofs- og samfélagsgeðteymi
Starf aðstoðardeildarstjóra í geðrofs- og samfélagsgeðteymi er laust til umsóknar. Við leitum eftir öflugum og framsæknum hjúkrunarfræðing sem hefur á áhuga á stjórnun, gæða- og umbótastarfi. Starfsumhverfið er spennandi, krefjandi og skemmtilegt, og fjölmörg tækifæri eru til faglegrar þróunar og frumkvöðlastarfs.
Geðrofs- og samfélagsgeðteymi er staðsett á Göngudeild Klepps. Meginverkefni teymis er að veita fólki sem greinst hefur með alvarlega geðsjúkdóma og aðstandendum þeirra þverfaglega og einstaklingsmiðaða þjónustu. Þjónustan byggir á batamiðaðri hugmyndafræði og skaðaminnkandi nálgun. Markmið meðferðarinnar er að stuðla að bata, rjúfa félagslega einangrun og auka virkni og lífsgæði í daglegu lífi. Þjónusta fer fram á göngudeildinni, en einnig er farið í heimavitjanir til þjónustuþega. Í teyminu starfa auk hjúkrunarfræðinga; læknar, sálfræðingar, félagsráðgjafar, þroskaþjálfi, jafningjar, atvinnuráðgjafar og aðrir sérhæfðir starfsmenn.
Verkefni aðstoðardeildarstjóra eru fjölbreytt, en auk þess að vera hluti af stjórnendateymi, sinnir hann teymisstjórn og málastjórn fyrir þjónustuþega teymis. Leitað er eftir einstaklingi með framúrskarandi leiðtoga- og samskiptahæfni sem býr yfir frumkvæði, skipulagsfærni, eldmóði og brennandi áhuga á að veita góða þjónustu og vera hluti af öflugri liðsheild.
Starfshlutfall er 100% og um dagvinnu er að ræða. Starfsumhverfið er fjölskylduvænt. Staðan er laus frá 1/2/25.
- Vinnur í samráði við deildarstjóra hjúkrunar að skipulagningu á starfsemi deildar
- Ber ábyrgð á verkefnum sem hjúkrunardeildarstjóri felur honum samkvæmt sérstakri verkefnalýsingu
- Sinnir teymisstjórn, og er leiðandi í klínísku starfi, öryggis- og gæðastarfi og öðru umbótastarfi sem stuðlar að bættri þjónustu og framþróun í hjúkrun
- Virk þátttaka í þverfaglegri þjónustu og meðferð þjónustuþega teymis og aðstandenda sem og málastjórn fyrir þjónustuþega teymis
- Samskipti, hvatning, fræðsla, leiðbeiningar og heildrænn stuðningur
- Ber ábyrgð á starfsemi, mönnun og rekstri deildar í fjarveru og í samráði við deildarstjóra hjúkrunar
- Íslenskt hjúkrunarleyfi
- Starfsreynsla sem hjúkrunarfræðingur, reynsla af geðhjúkrun er kostur
- Framhaldsmenntun í hjúkrun og/eða önnur framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi er kostur
- Leiðtogahæfni og færni til að hafa yfirsýn, skipuleggja og forgangsraða verkefnum
- Mjög góð hæfni í samskiptum og jákvætt viðmót
- Hæfni til að leiða teymi, og áhugi og vilji til að leiða breytingar og umbætur
- Þekking á þjónustu Landspítala er kostur
- Stundvísi og áreiðanleiki
- Góð íslensku- og enskukunnátta og færni til að tjá sig í mæltu og rituðu máli
- Ökuréttindi B
- Góð almenn tölvukunnátta, þekking á tölvukerfum Landspítala er kostur
- Hreint sakavottorð
Frekari upplýsingar um starfið
Allar umsóknir þurfa að fara rafrænt í gegnum ráðningarkerfi ríkisins. Í umsóknarform skal skrá inn upplýsingar um fyrri störf, menntun og hæfni, félagsstörf og umsagnaraðila.
Nauðsynleg fylgiskjöl:
- Ferilskrá ásamt kynningarbréfi
- Vottað afrit af prófskírteinum og starfsleyfi
Fylgiskjöl skulu vera á PDF formi
Ákvörðun um ráðningu í starfið byggist á innsendum gögnum og viðtölum. Öllum umsóknum verður svarað. Tekið er mið af jafnréttisstefnu Landspítala við ráðningar á spítalanum.
Landspítali er lifandi og fjölbreyttur vinnustaður þar sem um 7000 einstaklingar starfa í þverfaglegum teymum og samstarfi ólíkra fagstétta. Framtíðarsýn Landspítala er að þar sé veitt framúrskarandi heilbrigðisþjónusta byggð á vísindum, fagmennsku og umhyggju, öflugu fagfólki og studd með umgjörð og aðbúnaði sem sómi er að.
Landspítali hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST85:2012, úttekt framkvæmd af Versa vottun ehf.
Umsóknir geta gilt í 6 mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út, sbr. 2. gr. reglna nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum með síðari breytingum.
Starfsmerkingar: Heilbrigðisþjónusta, hjúkrunarfræðingur, hjúkrun, aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar, stjórnunarstarf
Tungumálahæfni: íslenska 4/5