Hjúkrunarfræðingur á Brjóstamiðstöð
Hjúkrunarfræðingur óskast til starfa á göngudeild Brjóstamiðstöðvar Landspítala.
Brjóstamiðstöðin sér um skimun fyrir brjóstakrabbameini á landsvísu og veitir heildræna þjónustu fyrir einstaklinga með sjúkdóma í brjóstum og einstaklinga með auknar líkur á brjóstakrabbameini. Starfsemin byggir á öflugri, þverfaglegri teymisvinnu lækna, hjúkrunarfræðinga, geislafræðinga og fleiri starfsstétta. Starfsemin er mjög fjölbreytt en þar fer meðal annars fram brjóstaskimun og sérskoðanir, greining sjúkdóma og ákvörðun meðferða, undirbúningur og eftirlit eftir skurðaðgerðir, krabbameinslyfjameðferðir og geislameðferðir. Einnig er þar starfandi erfðamóttaka fyrir einstaklinga með genabreytingu sem felur í sér auknar líkur á brjóstakrabbameini auk eftirlits og mats með tilliti til áhættuminnkandi aðgerða. Ráðgjöf, fræðsla og stuðningur skipar stóran sess í starfsemi Brjóstamiðstöðvar.
Á göngudeild Brjóstamiðstöðvar starfar öflugt teymi reyndra hjúkrunarfræðinga sem gegna lykilhlutverki í þjónustunni sem tengiliðir við skjólstæðinga deildarinnar. Hjúkrunarteymið leggur metnað í að veita faglega og örugga þjónustu í samstarfi við aðrar starfsstéttir og taka virkan þátt í stöðugum umbótum og þróun þjónustu fyrir skjólstæðingahópinn. Mikil tækifæri gefast því til starfsþróunar og þátttöku í þróun þjónustu.
Í boði er einstaklingshæfð aðlögun með reyndum hjúkrunarfræðingum. Viðkomandi þarf að búa yfir samskiptahæfni, hafa áhuga á þróun þjónustu, bættum ferlum og eiga auðvelt með að starfa í teymi.
Vinnuvika starfsfólks í fullri dagvinnu er nú 36 stundir. Markmiðið er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta betur vinnu og einkalíf.
Starfshlutfall er 80-100%, unnið er í dagvinnu og er upphaf starfs samkomulagsatriði.
Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við Kristrúnu deildarstjóra.
- Greina hjúkrunarþarfir, veita hjúkrunarmeðferð og bera ábyrgð á meðferð skv. starfslýsingu
- Skráning hjúkrunar í samræmi við reglur spítalans
- Veita markvissa fræðslu til sjúklinga og aðstandenda
- Einkennameðferð og stuðningur við sjúklinga og aðstandendur
- Þátttaka í þverfaglegri teymisvinnu þeirra sem sinna meðferð og stuðningi við sjúklinga brjóstamiðstöðvar
- Þátttaka í þróun og innleiðingu nýjunga innan hjúkrunar á deildinni
- Íslenskt hjúkrunarleyfi
- Faglegur metnaður og sjálfstæði í vinnubrögðum
- Jákvætt viðhorf, frumkvæði og góðir samskiptahæfileikar
- Hæfni og geta til að vinna í teymi
- Góð íslenskukunnátta er áskilin
Frekari upplýsingar um starfið
Allar umsóknir þurfa að fara rafrænt í gegnum ráðningarkerfi ríkisins. Umsókn fylgi náms- og starfsferilskrá ásamt kynningarbréfi og afriti af prófskírteinum og starfsleyfi. Fylgiskjöl skulu vera á pdf formi.
Tekið er mið af jafnréttisstefnu Landspítala við ráðningar á spítalanum. Öllum umsóknum verður svarað.
Landspítali er lifandi og fjölbreyttur vinnustaður þar sem um 7000 einstaklingar starfa í þverfaglegum teymum og samstarfi ólíkra fagstétta. Framtíðarsýn Landspítala er að þar sé veitt framúrskarandi heilbrigðisþjónusta byggð á vísindum, fagmennsku og umhyggju, öflugu fagfólki og studd með umgjörð og aðbúnaði sem sómi er að.
Landspítali hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST85:2012, úttekt framkvæmd af Versa vottun ehf.
Umsóknir geta gilt í 6 mánuði frá birtingu auglýsingar, sbr. 3. tl. 2. mgr. 2. gr. reglna nr. 1000/2019 um auglýsingar lausra starfa með síðari breytingum.
Starfsmerkingar: Heilbrigðisþjónusta, hjúkrunarfræðingur, hjúkrun, teymisvinna
Tungumálahæfni: íslenska 4/5