Leit
Loka

Ávarp Páls Matthíassonar forstjóra 

 

Yfirskrift ársfundar Landspítala að þessu sinni er „Sjúkrahús allra landsmanna“. Það er Landspítali sannarlega enda þjóðarsjúkrahúsið. Af því erum við afskaplega stolt og leggjum mikla áherslu á hlutverk okkar sem meginstoð í neti heilbrigðisstofnana og annarra veitenda heilbrigðisþjónustu í landinu. Undanfarið höfum við forstöðumenn opinberra stofnana eflt mjög samstarf okkar og stefnum enn lengra í þá átt. Fyrir landsmenn alla er áríðandi að geta treyst á grunnþjónustu í heimabyggð og Landspítali sinnir vissulega almennri sjúkrahúsþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt er meginverkefni Landspítala það að geta veitt stuðning við flóknari þjónustuþætti og tekið við sjúklingum sem þurfa þá sérhæfðu meðferð sem aðeins Landspítali veitir. Það er okkur kappsmál að sjá systurstofnanir okkar eflast enda Landspítala einnig mikilvægt að eiga hauk í hverju landshorni þegar kemur að útskriftum og eftirmeðferð. Við fögnum áherslu stjórnvalda á eflingu heilsugæslu og uppbyggingu hjúkrunarheimila enda er forsenda þess að Landspítali geti sinnt sínu kjarnahlutverki – sem er að veita mikið veiku fólki flókna þjónustu – að önnur verkefni séu á höndum þeirra sem best eru til þess fallnir að sinna þeim.

 

Árið 2018 var enn eitt öflugt ár í starfsemi Landspítala og þrátt fyrir miklar annir átti sér sömuleiðis stað uppbyggingarstarf á öllum vígstöðvum og víða stigin framfaraskref. Í breyttum heimi þar sem loftlagsmálin eru sífellt meiri áskorun er  mikilvægt að stofnanir eins og Landspítali sé fyrirmynd í umhverfisstefnu sinni. Á árinu gáfum við út metnaðarfulla starfsáætlun í umhverfismálum til tveggja ára og í þeim anda er nú ársskýrslan okkar einungis gefin út á rafrænu formi, sem hér birtist.

Framkvæmdir vegna nýs meðferðarkjarna við Hringbraut hófust af krafti og hafa starfsmenn, sjúklingar og aðstandendur ekki farið varhluta af því. Mesta raskið er einmitt um þessar mundir en framtíðin er sannarlega bjartari hvað húsakost spítalans varðar.

Fjölmargir sýna stuðning sinn við þjóðarsjúkrahúsið í verki og gjafirnar eru stórar og smáar, allar þegnar með þökkum og koma starfseminni vel. Þar má þar meðal annars nefna nemendur í  Álftanesskóla sem í kjölfar kærleiksviku í skólanum sínum styrktu BUGL með fjárframlagi. Þá var mikið ánægjuefni að taka þátt í vígslu nýja jáeindaskannans sem Íslensk erfðagreining færði íslensku þjóðinni að gjöf.

Að vanda studdi spítalinn við vísindastarf sem fram fer á spítalanum og í samstarfi við háskólana og fátt er skemmtilegra en að fylgjast með öflugu vísindafólki spítalans sem er í fararbroddi á Íslandi í birtingu alþjóðlegra vísindagreina. 

Allt leiðir þetta að einu – þjónustu við sjúklinginn sem ávallt verður að vera í öndvegi. Landspítali er gríðarlega öflug stofnun enda starfsfólkið á heimsmælikvarða og það er lítilli þjóð lán að eiga slíkt fjöregg og ábyrgð okkar sem störfum á spítalanum er mikil. Undir þeirri ábyrgð stöndum við og það munum við gera áfram.

Páll Matthíasson

Forstjórapistlar 2018

Allar eldri fréttir
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?