Ársreikningur 2007

Ársfundur LSH 2008
Kynning á ársreikningi 2007
Anna Lilja Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri fjárreiðna og upplýsinga

Ársreikningur Landspítala 2007 (bls. 65-79 í Ársskýrslu LSH 2007)
Skýringarmyndir með kynningu á ársreikningi


Heilbrigðisráðherra og aðrir fundargestir!

OECD hefur nýlega gefið út tvær skýrslur sem fjalla um gæði og kostnað heilbrigðisþjónustu, m.a. á Íslandi. Heilbrigðisútgjöld á Íslandi eru einnig rædd í nýjasta hefti Hagtíðinda frá Hagstofu Íslands. Þá hefur heilbrigðisráðuneytið, í samvinnu við sænska heilbrigðisráðuneytið, LSH og norræna DRG setrið í Svíþjóð, gert samanburð á kostnaði þjónustu á Landspítala annars vegar og á sænskum sjúkrahúsum hins vegar. Því liggur nú fyrir mikill og góður efniviður um íslenska heilbrigðisþjónustu. Það er verkefni okkar sem störfum við heilbrigðismál hér á landi að greina og vinna umbætur þar sem þörf er á.
Í þessu erindi mun ég tæpa á nokkrum atriðum úr ofangreindum úttektum ásamt því að kynna niðurstöður ársreiknings LSH og helstu lykiltölur í rekstri spítalans. Ársreikningurinn er endurskoðaður og staðfestur af Ríkisendurskoðun.

Fjárheimildir og sértekjur ársins námu tæpum 35,4 milljörðum og heildargjöld námu rúmum 35,8 milljörðum og höfðu gjöldin hækkað um 11,3% á milli ára. Þar af eru launagjöld stærsti kostnaðarliðurinn, eða um tveir þriðju útgjaldanna. Rekstrargjöld, að meðtöldum S-merktum lyfjum, voru rúm 30% af heildargjöldum og eignakaup, viðhald og stofnkostnaður rúm 2%. Fjármagnsgjöld námu 145 milljónum sem sýnir glöggt hina erfiðu greiðslustöðu sem spítalinn hefur glímt við á árinu og hefur þ.a.l. lent í talverðum dráttavaxtagreiðslum vegna vanskila við birgja spítalans. Gjöld umfram tekjur voru 436 milljónir eða 1,2% af veltu. Skv. reikningsskilavenju ríkisins eru öll framlög ársins talin til tekna ársins í rekstrarreikningi. Í fjáraukalögum voru veittar 777 m.kr. til að greiða uppsafnaðan rekstrarhalla í efnahagsreikningi og er því niðurstaðan sú að tekjur eru 341 milljón umfram gjöld. Sértekjur jukust um rúm 23% sem aðallega er vegna aukinnar þjónustu á rannsóknardeildum og á göngudeildum.

Launagjöld hækkuðu um 10,5% á milli ára. Dagvinnulaun, álagsgreiðslur og önnur laun jukust um 10,5% en yfirvinna um 12,3%. Aukin launagjöld skýrast m.a. af fjölgun starfsmanna um tæpt 1% ásamt umtalsverðum yfirvinnukostnaði sem orsakast af aukinni starfsemi, þenslu í efnahagsumhverfi spítalans og skorti á starfsfólki.

Rekstrargjöld jukust um 9,6%. Samanlagður kostnaðarauki vegna lyfja, lækninga- hjúkrunar- og rannsóknarvara eru rúm 12% og hafa þessir kostnaðarliðir hækkað umfram hækkun neysluverðsvísitölu á undanförnum árum. Áhugavert væri að LSH, í samvinnu við Hagstofu Íslands, gæfi út sérstaka spítalavísitölu sem endurspeglaði áhrif klínískra tækniframfara á kostnað þessara aðfanga. Kostnaðarauki vegna lögbundinnar hækkunar fasteignagjalda á sjúkrahús kemur fram í öðrum rekstrarkostnaði.

845 milljónum var varið til eignakaupa, stofnkostnaðar og viðhalds á árinu. Þar af var 226 milljónum varið til meiriháttar tækjakaupa, rúmar 160 milljónir fóru til endurnýjunar á legudeildum spítalans, rúmar 140 til bættrar aðstöðu slysa- og bráðamóttöku í Fossvogi, rúmar 130 vegna blóðbanka við Snorrabraut og rúmar 100 til nýbyggingar við barna- og unglingageðdeild.

Neikvæður höfuðstóll skv. efnahagsreikningi er 436 m.kr. og hafði lækkað frá því að vera 777 milljónir í lok 2006. Skammtímakröfur voru 1.123 milljónir og hafa þær hækkað umtalsvert á milli ára m.a. vegna mikillar skuldasöfnunar annarra heilbrigðisstofnana. Skammtímaskuldir voru 1.902 milljónir og hafa þær heldur lækkað á milli ára.

Starfsemi Landspítala er margþætt og umfangsmikil og mun ég sýna nokkrar lykiltölur í starfsemi spítalans auk þess að vekja athygli á nokkrum athyglisverðum upplýsingum úr áðurnefndum skýrslum. Ég vil auk þess benda á nýútkomna ársskýrslu og hinar mánaðarlegu Starfsemisupplýsingar sem eru aðgengilegar á vef spítalans.

Fyrst er athyglisvert að skoða þróun kostnaðar síðustu átta árin eða frá sameiningu spítalanna. Í Hagtíðindum Hagstofu Íslands kemur fram þróun opinberra heilbrigðisútgjalda á mann og sést sú þróun á þessari mynd og hafa útgjöld LSH verið tekin þar út. Til samanburðar er þróun opinberra útgjalda til LSH skv. Ríkisreikningi. Þessar tölur sýna að opinber heilbrigðisútgjöld og útgjöld til LSH héldust nokkurn veginn í hendur til og með 2003 en hafa þarf í huga að á árunum 2001 og 2002 var greiðsla fyrir S-merkt lyf flutt til spítalans sem skýrir að hluta hina miklu aukningu útgjalda á LSH þau ár. Eftir 2003 lækkar opinber kostnaður vegna LSH en ríkisframlög til heilbrigðisþjónustunnar án LSH aukast.

Í ljósi fyrrgreindra fjárhagsupplýsinga er athyglisvert að líta næst á fjölgun íbúa. Eins og fram kemur á þessari mynd þá hefur orðið umtalsverð fjölgun íbúa og þá sérstaklega í röðum eldri borgara. Frá árinu 2000 hefur íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgað um 12% en þeim sem eru 80 ára og eldri hefur fjölgað um 35%. Hlutfallsleg fjölgun eldri borgara umfram yngri aldurshópa mun halda áfram eins og bent er á í skýrslu OECD því Íslendingar eru frekar ung þjóð. Fjölgun Íslendinga og hækkandi meðalaldur hefur mikil áhrif á starfsemi spítalans því aldraðir þurfa jú mest á þjónustu LSH að halda.

Eins og önnur vestræn háskólasjúkrahús hefur LSH markað sér þá stefnu að byggja upp öfluga þjónustu utan legudeilda og jafnvel í heimahúsum og er æ flóknari meðferð veitt með slíkum hætti. Fækkun innlagna verður þó að skoða í samhengi við fjölgun eldri borgara í þjóðfélaginu. Eldra fólk þarf lengri legutíma og þar með fleiri legudaga. Fækkun legudaga og stytting meðallegutíma helst því ekki endilega í hendur við fækkun innlagna og sést það glögglega á myndinni. Hlutfall bráðra innlagna hefur aukist. Sjúklingar sem leggjast inn brátt eru mun veikari en þeir sem leggjast inn af biðlistum og endurspeglast það í hækkun á bráðleika sem er mælikvarði á veikindi sjúklinga og lýsir því hve mikla hjúkrun þeir þurfa og kallar því aukinn bráðleiki á aukna mönnun. Komum á dag- og göngudeildir hefur fjölgað mjög, t.d. hefur komum á göngudeildir fjölgað um 65% frá árinu 2000. Sömu sögu er að segja um slysa- og bráðamóttökur spítalans en komum þangað hefur fjölgað um tæp 29% frá árinu 2000.

Fjöldi fæðinga eykst jafnt og þétt í takt við fjölgun íbúa og hefur skurðaðgerðum einnig fjölgað nokkuð. Fjöldi hjartaþræðinga eykst umtalsvert en blóðskilunum fækkar í tengslum við fjölgun nýrnaflutninga. Þá hefur rannsóknum á rannsóknarsviði fjölgað mikið svo og myndgreiningarrannsóknum. Í takt við stefnu spítalans um aukna þjónustu utan legudeilda sést mikil aukning í sjúkrahústengdum heimavitjunum, þ.e. þjónustan færist frá legudeildum inn á heimili sjúklinga. Frá árinu 2000 hefur þessum vitjunum fjölgað um meira en 200%.

Tíðni margra sjúkdóma eykst jafnt og þétt, ekki síst vegna vaxandi fjölda aldraðra og hefur það áhrif á starfsemi spítalans nú og mun ekki síður hafa áhrif á næstu árum. Má þar nefna sem dæmi umtalsverða fjölgun liðskiptaaðgerða og æðaskurðaðgerða, fjölgun sjúklinga með krabbamein, ýmsa öndunarfærasjúkdóma og gigtsjúkdóma auk vaxandi eftirspurnar eftir endurhæfingu og þjónustu öldrunarlækningadeilda. Einnig má nefna aðra áhrifaþætti eins og tíðni offitu.