Eftirlitsmyndavélar á LSH - reglur

Eftirlitsmyndavélakerfi - reglur um rafræna vöktun í húsnæði og á lóðum Landspítala (LSH)


Ábyrgðaraðili – Tilgangur – Staðsetning


Vegna öryggis- og eignavörslu starfrækir Landspítali rafræna vöktun með myndavélum og upptökubúnaði í almenningsrýmum og á lóðum LSH. Staðsetning myndavéla skal vera þannig að ekki sjáist inn í vistunar eða meðferðarrými sjúklinga eða einkarými starfsmanna. Óheimilt er að nota upplýsingar sem safnað er með rafrænni vöktun í verkstjórnarskyni, til að fylgjast með mætingum eða vinnuskilum starfsfólks. Vöktun með leynd í húsnæði eða á lóðum LSH er með öllu óheimil.


Tækjabúnaður - Vinnsla – Afhending - Eyðing upplýsinga


Stafrænn búnaður er notaður við rafræna vöktun á LSH. Myndavélar tengjast um tölvunet Landspítala. Upptökur fara eingöngu fram þegar hreyfing er á hinu vaktaða svæði.  Heilbrigðis- og upplýsingatæknideild (HUT) og öryggisstjóri Landspítala hafa umsjón með vinnslu og eyðingu upplýsinga sem aflað er með rafrænni vöktun.

HUT, í samráði við öryggisstjóra, stýrir aðgangi að eftirlitsmyndavélum með sama hætti og að tölvukerfum Landspítala. Deildarstjóri HUT og/eða öryggisstjóri fela tilteknum starfsmönnum takmarkaðan og tímabundinn aðgang til vinnslu upplýsinga sem aflað er með rafrænni vöktun.

Upplýsingar sem verða til með rafrænni vöktun skal ekki varðveita lengur en málefnaleg ástæða er til og aldrei lengur en í 30 daga.
Öryggisstjóri tekur ákvörðun um afhendingu gagna sem aflað er með rafrænni vöktun samkvæmt skriflegri beiðni lögreglu um slys eða meintan refsiverðan verknað. Að öðru leyti er efni sem verður til við rafræna vöktun ekki unnið frekar eða afhent öðrum nema samkvæmt dómsúrskurði. Halda skal skrá um afhent efni úr eftirlitskerfinu.