Leit
Loka


Mikilvæg atriði sem þarf að hafa í huga við sjúklingafræðslu erlendra skjólstæðinga

Það krefst ákveðinnar sjálfsskoðunar að geta sinnt fólki frá ólíkum menningarheimum.

Grundvöllur þess að vera menningarhæfur er að þekkja eigin gildi og eigin fordóma og að skilja og sjá muninn á milli einstaklinga í sínu eigin menningar umhverfi en líka hvað við eigum sameiginlegt. Það er svo aftur grundvöllur þess að við getum síðan skilið og virt menningu annarra.

Heilbrigðisstarfsmenn sem sýna mismunandi menningu og samskiptaháttum skilning og áhuga munu eiga betri og árangursríkari samskipti við sína skjólstæðinga og aðstandendur þeirra.

Eitt af því mikilvægasta sem við gerum í heilbrigðisþjónustu er að vinna traust sjúklinganna okkar. Ef við tökum ekki tillit til menningar sjúklings gæti hann talið að við værum dónar, okkur væri sama um hann eða að við værum ekki starfi okkar vaxin.

Þættir sem tengjast veikindum eins og hræðsla, kvíði og hvernig sjúklingurinn bregst við sársauka eða erfiðum fréttum ákvarðast að miklu leiti af menningu viðkomandi. Menning hefur áhrif á heilsufar einstaklings, viðhorf hans og hegðun og hvernig hann á í samskiptum við annað fólk.

Veikindi eru menningarbundið fyrirbæri og það er alls ekki eins hvernig einstaklingar upplifa veikindi eða hreinlega hvort þeim finnst þeir vera veikir eða ekki. Fólk frá mismunandi menningarheimum tjáir sammannleg einkenni á mismunandi hátt. Dæmi um þetta eru verkir og sorgarviðbrögð.

Menningar- og trúartengd áhrif móta viðhorf einstaklingins ekki síst á erfiðum stundum, við greiningu sjúkdóma, fyrir stór inngrip eins og skurðaðgerðir eða lyfjameðferðir og við lífslok.

Hér skiptir máli að sýna menningarheimi sjúklings áhuga. „Hvernig ert þú vanur að gera þetta“? er ágætis ísbrjótur í samskiptum. Um leið og fólk finnur að þið hafið áhuga er komið ákveðið traust í sambandi skjólstæðings og heilbrigðisstarfsmanns.


Hvaða tungumál á að nota þegar kemur að samskiptum skiptir höfuðmáli en það þarf líka að hafa í huga að samskiptareglur í sumum hópum gætu verið allt aðrar en við erum vön.

Tungumál og hvernig við tjáum okkur er mjög menningarbundið. Það er ekki bara mismunandi á milli heimshluta hvort við tjáum okkur með orðum eða með látbragði / svipbrigðum heldur er líka munur á því hvað eitthvað visst látbragð þýðir.

Í sumum samfélögum eru svipbrigði og látbragð stór partur af samskiptum á meðan önnur samfélög reiða sig nær eingöngu á tungumálið (eins og Íslendingar).

Non-verbal eða óyrt samskipti eru mikilvægt samskiptatæki. Dæmi um þetta er augnkontaktur – Íslendingum er kennt að horfa í augu á fólki sem gæti verið túlkað sem árásargirni eða dónaskapur í öðrum menningarheimum.

Orð yfir læknisfræðileg hugtök eða starfsheiti heilbrigðisstétta eru ekki til í öllum tungumálum, eins og til dæmis þunglyndi eða sálfræðingur og þá getur stundum reynst erfitt fyrir sjúklinginn að koma hlutunum í orð eða erfitt fyrir okkur að útskýra.


Landspítali hefur gefið út gæðaskjal fyrir túlkun. Þar er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar og hjálpartæki er varða samskipti við skjólstæðinga sem ekki tala íslensku.

Ekki tekst alltaf að fá túlk sem talar tiltekið tungumál hvenær sem okkur hentar, sérstaklega í bráðatilfellum og þá er hægt að nota símatúlkun (Language line, sjá gæðaskjal um túlkun).

Það er ekki sama hver það er sem túlkar. Faglærðir túlkar kunna fagmálið sem notað er innan spítalans og þeir eru bundnir þagnarskyldu sem er forsenda þess að byggja upp traust við sjúklinginn og fjölskyldu hans.

Það á alltaf að bjóða túlk, jafnvel þó aðstandandi eða fylgdarmaður sjúklings tali íslensku. Í sumum menningarheimum þykir það óviðeigandi að aðstandendur fái vitneskju um persónuleg málefni sjúklings, ekki síst ef aðstandandi er yngri en sjúklingurinn.

Aðstandandi sem kannski getur gert sig vel skiljanlegan í daglegu lífi gæti verið ófær um að þýða læknisfræði hugtök og ætti því ekki að túlka fyrir sjúkling.

Sumir hópar innflytjenda á Íslandi eru mjög fámennir og þurfa því stundum að reiða sig á túlka sem þeir þekkja persónulega. Þegar túlka þarf viðkvæm málefni er erfitt að þurfa að nýta sér þjónustu slíks túlks því ekki er víst að sjúklingurinn treysti viðkomandi eða vilji ræða sín persónulegu málefni í návist hans.

Það ætti að forðast í lengstu lög að fá erlent starfsfólk spítalans sem sinnir ekki klínískum störfum til að túlka. Það hefur ekki til þess þjálfun, fær ekki greitt sérstaklega fyrir að túlka og er á meðan tekið úr sínum störfum.


Hlutverk kynjanna er gríðarlega mismunandi eftir menningarheimum, einnig þegar kemur að heilbrigðisþjónustu.

Í sumum menningarheimum er það höfuð fjölskyldunnar sem tekur allar ákvarðanir og fær allar upplýsingar, jafnvel þegar kemur að heilbrigðisþjónustu og sjúklingafræðslu fyrir einhvern í fjölskyldunni. Einhverjum gæti þótt það auðveldara að fá að tala við heilbrigðisstarfsmann sem er af sama kyni sé hægt að koma því við.

Við þurfum að vera viss um að skjólstæðingur meðtaki það sem er sagt í sjúklingafræðslu, skilji tilgang inngripa og geti tekið upplýsta ákvörðun um sína meðferð.

Það er mismunandi eftir menningarheimum hvort sjúklingar vilji vita allt um sitt sjúkdómsástand eða kjósi jafnvel frekar að einhver annar í fjölskyldunni taki allar ákvarðanir og fái allar upplýsingar.

Aðrir gætu neitað meðferð vegna menningar- eða trúarlegra þátta.

Hér er, enn sem komið er, ekki mikið í boði á Landspítala en verið er að vinna að úrbótum.
Það er ekki mikil formfesta í samskiptum á Íslandi yfir höfuð. Við erum vön að nota fornöfn allra þeirra sem við tölum við og þéringar tíðkast ekki almennt. Þessu gæti hins vegar verið öðruvísi farið með skjólstæðinga af öðrum menningarheimum. Einhverjir gætu viljað láta þéra sig, nota eftirnafn eða starfsheiti þegar þeir eru ávarpaðir.

Það er mikilvægt að gefa sér lengri tíma fyrir sjúklingafræðslu fyrir erlendan skjólstæðing, sérstaklega ef túlkaþjónusta er notuð því það tekur lengri tíma ef fræðsla fer í gegnum þriðja aðila.

Notið stutt, skýr skilaboð. Forðist tæknileg hugtök og frasa.

Þetta skýrir sig sjálft og á við alls staðar ekki bara þegar er átt í samskiptum við erlenda sjúklinga.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?