Leit
LokaENGLISH

Lyf án skaða

 

Hver er tilgangur átaksins „Lyf án skaða“ á Íslandi?

Lyf án skaða er alþjóðlegt gæðaátak sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hóf árið 2017. Átakið hófst á Íslandi árið 2020. Bakhjarlar átaksins eru Embætti landlæknis og Heilbrigðisráðuneytið. Helstu samstarfsaðilar eru Landspítali, Sjúkrahúsið á Akureyri (SAK), Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Læknafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Lyfjafræðingafélag Íslands og Lyfjastofnun.

Markmið okkar er að draga úr alvarlegum lyfjaskaða, af fyrirbyggjanlegum orsökum, um 50% innan 5 ára. Í áætlun okkar um gæðaumbætur er áhersla lögð á eftirfarandi: 

 • Að bæta lyfjaöryggi við flutning upplýsinga og tilfærslu meðferðar innan heilbrigðisþjónustunnar
 • Að draga úr óviðeigandi fjöllyfjameðferð.
 • Að stuðla að öruggari notkun áhættusamra lyfja.

Verklag sem ógnar öryggi í lyfjaumsýslu og mistök við umsýslu lyfja eru meðal helstu orsaka atvika í heilbrigðiskerfum víða um heim. Margvísleg inngrip til að bregðast við algengi og afleiðingum lyfjamistaka hafa þegar verið þróuð, en framkvæmd þeirra er með ýmsu móti.1 Áætluð tíðni lyfjaatvika er >50% þegar sjúklingar útskrifast af sjúkrahúsi 2. Eldri sjúklingar, sérstaklega þeir sem taka mörg lyf, upplifa frekar alvarlegar afleiðingar lyfjaatvika.3,4

Snemma árs 2020 var hrundið af stað umbótaáætlun á Íslandi sem byggir á þeim ramma sem WHO setur.

Tækniskýrslur WHO:

Við náum markmiðum okkar með því að mæta eftirfarandi þörfum á Íslandi:

 • Efling klínískrar lyfjafræðiþjónustu sem víðast í heilbrigðiskerfinu.
 • Aukin gæði lyfjatengdra ferla.
 • Hagræðing tæknikerfa fyrir lyfjaupplýsingar (IT).
 • Efling á stjórnsýslu gæðamála tengt lyfjaumsýslu.
 • Aukin þjálfun og fræðsla heilbrigðisstarfsmanna um lyfjaöryggi.
 • Bætt samstarf og upplýsingagjöf til sjúklinga og almennings um lyfjaöryggi.

Starfshópur var skipaður af stýrinefnd Embættis Landlæknis árið 2020 til að þróa gæðavísa til að meta árangur af gæðaátakinu.

Tillaga að gæðavísum: Falls and Bleeds in Relation to the Use of Drugs as Quality Indicators for Medication Associated Harm in Iceland.

Síðasta uppfærsla: Tillagan var samþykkt í Vísindasiðanefnd 2022. Gögnin fyrir janúar 2017 - desember 2021 verða nú greind afturvirkt sem tilraunaverkefni til ákvörðunar á notagildi og nákvæmni gæðavísana. Einnig verður stuðst við sambærileg tilraunaverkefni í Danmörku og lærdómur dreginn af því áður en væntanleg gagnasöfnun hefst.

Við stefnum að því að draga úr lyfjamistökum við tilfærslu á þjónustu og meðferð á Íslandi með því að:

 1. Samræma lyfjameðferð - Allir sjúklingar fá tímanlega og staðlaða samræmingu á lyfjameðferð sinni þegar þeir flytjast frá einum heilbrigðisþjónustuaðila til annars.
 2. Efla þekkingu sjúklinga á þeim lyfjum sem þeim er ætlað að taka. - Sjúklingar og umönnunaraðilar fá skýrar og uppfærðar upplýsingar um lyfin sín.
 3. Flutnings- og útskriftargögn séu ítarleg - Skýrar og tímanlegar skriflegar upplýsingar og leiðbeiningar um lyfjameðferð sjúklings eru fluttar á milli heilbrigðisþjónustuaðila.
 4. Styðja við innleiðslu á miðlægu lyfjakorti - Læknar bera ábyrgð á að ávísa lyfjum og uppfæra miðlægt lyfjakort. Miðlægt lyfjakort mun bæta aðgengi heilbrigðisstarfsfólks og sjúklingaað skýrum og uppfærðum lyfjaupplýsingum í gegnum miðlægt kerfi.

Tilraunaverkefni eru hafin á Landspítala og heilsugæslustöð á Reykjavíkursvæðinu.

Yfirlit yfir bætt lyfjaöryggi við flutning milli heilbrigðisaðila. Sjá nánar í plúslistum hér neðan.

 

Samræming lyfja er skilgreint ferli í fimm skrefum: skrá yfir núverandi lyfjameðferð sjúklings; skrá yfir þá lyfjameðferð sem þörf er á; samanburður á skrám; ný skrá gerð á grundvelli samanburðar; nýju skránni komið til sjúklings og umönnunaraðila (British Medical Journal, 2017). Umfjöllun um viðeigandi hugtök og skilgreiningar lyfjasögu og lyfjarýni á íslensku birtist í Læknablaðinu árið 2021. Það hefur verið staðfest að verkferli samræmingar lyfja dregur úr lyfjamisræmi við flutning á milli heilbrigðisaðila, sem einnig dregur úr hættu á lyfjatengdum skaða. Nú er verið að staðla og efla slíka framkvæmd hér á landi.

Verið er að prófa mismunandi aðferðir til að bæta samræmingu lyfjameðferðar:

 1. Sniðmát fyrir samræmingu lyfjameðferðar á sjúkrahúsi.
  Nú er verið að gera tilraun með sniðmát til að staðla ferli samræmingar lyfja með læknateymi á Landakoti og lofar árangurinn góðu. Markmiðið er að gera heilbrigðisstarfsfólki kleift að eiga greinargóðar viðræður við sjúklinga um lyfjameðferð þeirra. Einnig að eiga greiðan aðgang að nýjustu lyfjaskrám sjúklinga og breytingum á þeim og að samræma ávísuð lyf með skilvirkari hætti. Sniðmátið verður síðan reynt víðar fyrir alla sjúklinga sem eru lagðir inn á bráðamóttöku LSH og því síðan dreift til annarra deilda og heilbrigðisstofnana.
 2. Klínískur lyfjafræðilegur stuðningur við samræmingu lyfja.
  Einnig er verið að efla stuðning klínískra lyfjafræðinga við samræmingu lyfja á Landspítala. Stefnt er að því að fleiri sjúklingar sem lagðir eru inn á bráðamóttöku á Landspítala fái samræmingu lyfja hjá reyndum lyfjafræðingi innan sólarhrings frá innlögn.

Sjá einnig veggspjald: Bætt skráning lyfja við komu, flutning og útskrift

Bætt aðgengi að upplýsingum um það hvaða lyf sjúklingum er ætlað að taka verður mótað og prófað eftir að lausnir sem miða að bættri samræmingu lyfja á Landspítala hafa verið innleiddar. Þetta verður frekar útfært með innleiðingu miðlægs lyfjakorts í gegnum heilsugátt sjúklinga (Heilsuvera).

Verið er að innleiða áreiðanleg upplýsingasamskipti, tengd breytingum á lyfjameðferð, þegar sjúklingar flytjast frá einu heilbrigðisteymi til annars til að lágmarka lyfjamistök við tilfærslu á meðferð og þjónustu.

 1. Flutningur af gjörgæsludeildum á bráðadeildir Landspítala.
  Unnið er að bættu aðgengi og uppsetningu læknabréfa frá gjörgæslu við Hringbraut á bráðadeildir. Helsta áskorunin er að flytja upplýsingar á öruggan hátt á milli tveggja teyma sem nota mismunandi rafrænar sjúkraskrár og lyfjaávísanakerfi. Settir hafa verið staðlar fyrir læknabréf gjörgæsludeilda og nú er verið að prófa lausnir til að draga úr breytileika á gerð þeirra. Umbætur verða síðan innleiddar á öðrum deildum.

 2. Flutningur af bráðadeildum til öldrunarendurhæfingadeilda.
  Eldri sjúklingum sem dvelja langdvölum á bráðadeild og flytjast á öldrunarendurhæfingardeildir eru í meiri hættu á að verða fyrir lyfjamistökum á Landspítala vegna þess að þeir taka oft mörg lyf (>10) og líklegt er að lyfjameðferð þeirra sé breytt á sjúkrahúsinu. Verkefni er farið af stað til að tryggja að allir sjúklingar fái stöðluð læknabréf frá bráðadeildum til öldrunarendurhæfingardeilda. Sniðmát og aðferðir til að tryggja að læknar leggi drög að læknabréfum fyrr í flutningsferlinu (ekki á síðustu stundu) eru í prófun á lyflækningadeildum. Lausnum verður komið á framfæri við aðrar deildir þegar í ljós kemur að þær bera góðan árangur.

Nú er unnið að miðlægu rafrænu lyfjakorti hjá Embætti Landlæknis. Þetta verður til þess að uppfærðar lyfjaávísanir verða á einum og sama staðnum og aðgengilegar öllum læknum landsins. Miðlægt rafrænt lyfjakort getur lagt grunn að skilvirkari og nákvæmari samræmingu lyfja og lyfjarýni. Um þessar mundir er verið að prófa hugbúnaðinn án nettengingar á einni heilsugæslustöð í Reykjavík. Ætlunin er að nettengd prófun hefjist á fyrsta ársfjórðungi 2022 á 1-2 heilsugæslustöðvum. Innleiðingin mun smám saman ná til allra heilbrigðisstofnana á Íslandi á um það bil 18 mánuðum.

Markmiðið er að bæta lyfjameðferðarferlið með notkun gagnreyndra verkfæra til leiðsagnar við ávísun og yfirferð lyfja, að efla aðkomu klínískra lyfjafræðinga og bæta heilsulæsi sjúklinga í fjöllyfjameðferð . Tilraunaverkefni eru hafin í heilsugæslunni þar sem áhersla er lögð á að klínískir lyfjafræðingar á Landspítala deili sérfræðiþekkingu sinni utan sjúkrahúss .

Bæta lyfjaöryggi í fjöllyfjameðferð sjá plúslista fyrir neðan.

Landsáætlun varðandi klíníska lyfjafræði

Starfshópur frá Landspítala og heilsugæslu hefur verið kallaður saman til að móta áætlun á landsvísu um klíníska lyfjafræðiþjónustu. Eins og stendur eru of fáir klínískir lyfjafræðingar á Íslandi svo hægt sé að veita víðtækan stuðning við þverfagleg klínísk teymi til að bæta lyfjaöryggi í fjöllyfjameðferð. Í áætluninni er megináhersla lögð á hvernig forgangsraða skuli takmörkuðum mannafla klínískra lyfjafræðinga.

Tilraunaverkefni er nú í gangi á nokkrum heilsugæslustöðvum þar sem klínískir lyfjafræðingar styðja heimilislækna við endurskoðun á lyfjagjöf og niðurtröppun lyfja.

Sjá nánar: 

https://www.facebook.com/Landspitali/posts/4547869258610118 

Myndband 

 

Umbótastarf vegna þessa verkefnis er stýrt í sameiningu af Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAK) með aðkomu heilsugæslunnar. Örugg notkun áhættusamra lyfja sem tengjast ensku skammstöfuninni „APINCHS“ er sett í forgang: sýklalyf (A), kalíum og aðrar saltalausnir (P), insúlín (I), lyf með ávanahættu (ópíóíðar) og önnur róandi lyf (N), krabbameinslyf (C), heparín og önnur segavarnarlyf (H) og örugg kerfi (S). Tilraunaverkefni eru hafin á lyflækningadeildum Landspítalans, SAK og í heilsugæslunni.

Sjá veggspjald: APINCHS - Hááhættulyf

Yfirlit yfir örugga og bætta notkun hááhættulyfja, sjá plúslita hér neðan:

High Risk Medications workstream overview

Örugg notkun insúlíns á sjúkrahúsi

Insúlín er áhættusamt lyf. Óviðeigandi eða röng meðferð sjúklinga með sykursýki á sjúkrahúsi leiðir til lakrar stjórnunar glúkósa og getur leitt til sárasýkinga eftir aðgerð, lengri legu á sjúkrahúsi, endurinnlagna og dauðsfalla sem hefði mátt koma í veg fyrir. Stór hluti lyfjaatvika sem tilkynnt er um á Landspítala snúast um insúlin og tengjast mörg hver skorti á verkferlum og þjálfun starfsfólks í réttri notkun insúlíns.

Inngrip til að bæta insúlínöryggi er tilraunaverkefni á einni af lyflækningadeildum Landspítalans. Lausnir fela í sér:

 • Aðgengilegar leiðbeiningar um ávísun insúlíns, sérstaklega við hækkun blóðsykurs.
 • Starfsfólk er minnt á að mæla reglulega blóðsykur.
 • Þjálfun starfsmanna og fræðsla um örugga notkun insúlíns.
 • Klínískum teymum gert auðveldara að bregðast við niðurstöðum blóðsykurs sem eru utan viðmiðunarmarka.

Verkefnahópurinn er nú að meta áhrif þessara inngripa. Lausnir sem virka verða gerðar aðgengilegar öðrum legudeildum á Landspítala og Akureyri.

1. Skilningur á ávísanamynstri ópíóíða á Íslandi

 Unnið er að greiningu á mynstri ópíóíða ávísana á Íslandi. Tilgangur rannsóknarinnar er að meta hvaða sjúklingahópar fá endurnýjaða ópíóíða lyfseðla, hvers konar ópíóíða þeir fá og hvaða greinar læknisfræðinnar eru fyrirferðarmestar í þessum lyfjaávísunum. Niðurstöðurnar munu gera stýrihópi um áhættusöm lyf kleift að ákvarða grunnorsakir þess að sala á ópíóíðum er mest á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd (Ritstjórn NOMESCO Health Statistics, 2020) og hvers vegna rannsóknarniðurstöður sýna endurtekið að 10% sjúklinga sem ekki glímdu áður við ópíóíðafíkn hafa orðið langtíma notendur eftir skurðaðgerð (Steen T, Lirk PB & Sigurdsson MI, 2019) (Ingason AB et al., 2022). Áætlað er að niðurstöður rannsóknarinnar verði kynntar vorið 2022 og umbótaátaki verður hrundið af stað um haustið.

2. Niðurtröppun ópíóíða í heilsugæslu

 Ávísun ópíóíða í heilsugæslu er eitt af forgangsverkefnum Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu. Bein ávísunargögn verða aðgengileg öllum heilsugæslustöðvum og öllum heimilislæknum á Íslandi til að stuðla að aukinni vitund um ávísunarmynstur (í gegnum Gagnasýn). Einnig er verið að þýða upplýsingabækling um ópíóíða niðurtröppun á íslensku (af www.deprescribing.org). Þetta úrræði miðar að því að bæta samskipti sjúklinga og umönnunaraðila við lækna varðandi niðurtröppunarferlið. Upplýsingarnar eru í samræmi við gagnreyndar leiðbeiningar um niðurtröppun, skrifaðar á einföldu máli.

3. Skynsamlega ávísun lyfja með ávanahættu

Í undirbúningi er verkefni á vegum Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu(ÞÍH) sem hefur að markmiði eins og nafnið bendir til að stuðla að skynsamlegri ávísun þessarra lyfja. Fundað verður með læknum allra heilsugæslustöða, ávísanir stöðvanna skoðaðar í Gagnasýn í Sögu og hvatt til aðgerða sem gætu stuðlað að skynsamlegri ávísun lyfjanna. Verklag við endurnýjun lyfja, verkfæri sem geta stutt við niðurtröppun, þróun annarra úrræða en lyfja við vanda skjólstæðinganna eru dæmi um þætti sem geta stuðlað að árangri. Bæklingar um niðurtöppum ávanabindandi lyfja ætlaðir skjólstæðingum, eru nú aðgengilegir á vef Embættis landlæknis og ÞÍH.

Á nokkrum stöðum í heilsugæslunni hefur þegar verið unnið að þáttum sem stuðla að skynsamlegri ávísun lyfja með ávanahættu m.a. á Heilsugæslunni í Efra Breiðholti sem kynnti verkefnið og árangurinn af því á Læknadögum í mars 2022, sjá samantekt.

Örugg ávísun á warfaríni á sjúkrahúsi 

 Á Landspítala er unnið að því að bæta ávísun og meðferð warfaríns. Einstök klínísk teymi nota nú mismunandi aðferðir til að fylgjast með legusjúklingum sem fá warfarín. Nýleg rannsókn á atviki leiddi í ljós ýmsar grunnorsakir sem tengjast meðhöndlun warfaríns: ein þeirra varðar skort á öryggisnetum í rafrænu ávísanakerfi sjúkrahússins (meðferð) sem eiga að tryggja að fylgst sé með sjúklingum á warfaríni með viðeigandi millibili, og önnur er skortur á samræmdri meðferð sjúklinga á warfaríni á mismunandi deildum. Nýjar reglur hafa verið forritaðar í Therapy fyrirmælakerfið á Landspítala þar sem warfaríni er aðeins ávísað í 3 daga og síðan minnt á að endurskoða skammtinn áður en ávísað er áfram. Þetta var nýlega reynt á hjartadeild og sýnt var fram á að það skilar árangri. Þessar reglur er nú í prófun á öldrunardeildum og verða sendar öðrum deildum og sjúkrahúsum þegar sýnt er fram á að þær virka vel við þessar aðstæður.

Frekari rannsóknir standa nú yfir á aðgengi upplýsinga sem varða ávísanir á warfaríni. Upplýsingar um warfarín skömmtun eru sem stendur ekki aðgengilegar öllum heilbrigðisstarfsmönnum á stofnunum. Ef sjúklingur er í umsjón blóðþynningarteymis utan Landspítala eru þessar upplýsingar ekki aðgengilegar starfsfólki sjúkrahússins við innlögn sjúklings. Sama er uppi á teningnum þegar sjúklingar eru útskrifaðir af sjúkrahúsi og þurfa á umönnun teymis að halda í annarri heilsugæslu. Upplýsingar um warfarín skömmtun eru tiltækar í mörgum ósamþættum kerfum á heilbrigðisstofnunum sem skapar meiri hættu á mistökum þegar sjúklingar flytjast á milli stofnana.

Lyfjaskrá áhættusamra lyfja fyrir sjúkrahús

Nú er verið að þróa staðlaða hááhættulyfjaskrá í samvinnu Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri sem er byggð á APINCHS skammstöfuninni. Tilgangurinn er að bæta lyfjaafgreiðslu, undirbúning og lyfjagjöf á legudeildum. Nú er verið að fá hjúkrunarfræðinga á völdum deildum til að ákvarða hvernig hægt er að nýta þennan lista til að bæta 6Rs (6R við lyfjatiltekt, lyfjagjöf og skráningu).

Átakið Lyf án skaða á Íslandi er í umsjón stýrinefndar undir forystu Landlæknis. Stýrinefndin kemur saman þrisvar á ári til að þróa, forgangsraða og fylgjast með framvindu átaksins. Hún hefur umsjón með framgangi og áhrifum átaksins, fjármögnun þess og samskiptum hvað varðar þróun og framvindu. Þrír stýrihópar bera ábyrgð á að þróa og hafa umsjón með framkvæmd hvers forgangsverkefnis: tilfærslu á þjónustu og meðferð, fjöllyfjameðferð og lyfjameðferð áhættusamra lyfja.

Ef frekari upplýsinga um Lyfjameðferð án skaða er óskað hafið vinsamlega samband við verkefnastjóra á lyfanskada@landspitali.is.

 

Upplýsingar varðandi Nafn Tengiliður
Leads for Transitions of Care and Polypharmacy: Aðalsteinn Guðmundsson and Jón Steinar Jónsson lyfanskada@landspitali.is
Lead for High-Risk Situations: Óskar Einarsson lyfanskada@landspitali.is
Medication Without Harm Project Manager: Amelia Samuel lyfanskada@landspitali.is
For more information about the programme: Project Manager lyfanskada@landspitali.is
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?