Spurt og svarað um Landspítala
Á síðustu árum hefur íslenskt samfélag tekið miklum breytingum, sérstaklega með tilliti til mannfjölda, aldursamsetningar og fjölda ferðamanna.
Nokkrar staðreyndir:
- Það eru 50 þúsund fleiri einstaklingar sem búa á Íslandi nú en árið 2008.
- Fólk sem er á áttræðisaldri eða eldra þarf lang mest á heilbrigðisþjónustu að halda, í þeim aldurshópi hefur fjölgað um rúmlega 7000 síðan árið 2008.
- Ferðamenn voru færri en hálf milljón árið 2008 en tæpar tvær milljónir árið 2019.
Saman hafa þessar breytingar; fjölgun landsmanna, hærri meðalaldur og miklu fleiri ferðamenn haft í för með sér aukið álag á Landspítala.
En öllu þessu aukna álagi hefur ekki fylgt það fjármagn sem þarf til að veita þá þjónustu sem við spítalinn vill veita.
Heildarframlög til Landspítala hafa sannarlega hækkað, í krónum talið. En þegar er búið að taka frá þau framlög sem hafa farið í kjarasamningsbundnar launahækkanir og fleira þeim tengt eru framlögin í raun lægri nú en þau voru árið 2008.
Þetta kemur meðal annars fram í útreikningum Gylfa Zoega, prófessors í hagfræði. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að fjárframlög til spítalans séu aðeins hluti af raunþörf. Það leiði af sér að spítalinn geti ekki aukið þjónustu sína í samhengi við þörfina og er í samræmi athugasemdir og ábendingar sem stjórnendur Landspítala hafa sent frá sér síðustu ár.
Eftir efnahagshrun haustið 2008 varð mikil afturför í fjármögnun spítalans sem náði lágmarki árið 2012. Frá árinu 2012 hafa fjárveitingar síðan vaxið á nýjan leik en vegna þeirrar miklu dýfu sem efnahagshrun hafði í för með sér eru fjárveitingar til rekstrar nú aðeins 0,7% hærri en þær voru árið 2008, rétt fyrir efnahagshrun. Árið 2019 er fyrsta árið sem fjárlög eru hærri en árið 2008.
Hlutfallslega fer langstærstur hluti fjárframlaga til Landspítala í laun starfsfólks, eða um 74%. Ársskýrslur Landspítala eru birtar hér
Á Landspítala er mjög öflug starfsemi á fjölmörgum sviðum. Hér er t.d. einföld mynd í tölum af því sem gert var árið 2021:
Í Starfsemisupplýsingum Landspítala sem gefnar eru út mánaðarlega er hægt að sjá þróun starfseminnar og í hverju hún felst.
Ástæðan fyrir biðlistum er skortur á fjárveitingum til að byggja upp aðstöðu, skurðstofur, legurými og ráða starfsfólk, t.d. hjúkrunarfræðinga. Þrátt fyrir þennan skort hefur Landspítali á undanförnum árum náð miklum árangri með því að straumlínulaga ferli í kringum liðskiptaaðgerðir með styttingu legutíma og aukinni nýtingu á skurðstofum. Bæklunarlæknar á Landspítala gætu gert mun fleiri aðgerðir ef fjármögnun og aðstaða væri til staðar.
Það eru nú þegar fjölmargar einfaldar liðskiptaaðgerðir á einkastofum. Staðreyndin er hins vegar sú að stór hluti liðskiptaaðgerða er of tæknilega flókinn til að hægt sé að gera þær á einkastofum. Öllum skurðaðgerðum fylgir áhætta og oft þarf að endurnýja gerviliði eftir ákveðinn tíma.
Enduraðgerðir á gerviliðum, t.d. los á gerviliðum, vegna sýkinga og brota umhverfis gerviliði eru flóknar og þær að gera á Landspítala, enda áhættumeiri. Þessir sjúklingar þurfa lengri legutíma, meiri endurhæfingu og samvinnu á milli sérgreina sem aðeins fæst á öflugu sérgreinasjúkrahúsi. Hluti þeirra þarf á gjörgæslumeðferð að halda.
Flytjist liðskipti í meira mæli af Landspítala á einkastofur er mikil hætta á að sú þekking og reynsla sem þarf vegna enduraðgerða og annarra flókinna liðskiptaaðgerða hverfi af spítalanum.
Stjórnendur við Landspítala eru ríflega 200 talsins en starfsmenn um 6000 í rúmlega 4500 stöðugildum, að meðaltali einn stjórnandi á hverja 26 starfsmenn.
Hlutfall greiddra stöðugilda í Klínískri starfsemi annarsvegar og í stoðþjónustu hinsvegar á Landspítala frá árunum 2008 - 2022
Starfsfólki hefur fjölgað nokkuð síðustu ár án þess að fjölgað hafi með sambærilegum hætti í hópi stjórnenda enda hefur áherslan verið á að fjölga klínísku starfsfólki. Stjórnendum á Landspítala er gjarnan skipt í „klíníska“ stjórnendur, þ.e. stjórnendur sem stýra einingum sem með beinum hætti koma að þjónustu við sjúklinga og aðra stjórnendur. Stærsti hluti stjórnenda á spítalanum er klínískur eða um 85%. Þetta eru einkum yfirlæknar, deildarstjórar hjúkrunar og stjórnendur í rannsóknarstarfsemi.
Nýtt skipurit Landspítala tók gildi 1. janúar 2023. Í forstjórapistli var fjallað um skipuritsbreytingarnar.
Verkefnastjórar eru ekki stjórnendur, þ.e. þeir hafa ekki mannaforráð eða fjárhagslega ábyrgð.
Það eru 126 verkefnastjórar starfandi á Landspítala eða 2,8% af heildarfjölda starfsmanna. Verkefnastjórar dreifast á öll svið spítalans en hlutverk þeirra er mjög breytilegt.
Dæmi um verkefni sem verkefnastjórar sinna er uppbygging COVID-19 göngudeildar spítalans en þar héldu verkefnastjórar um þræði. Í þessum hópi starfsmanna eru því margir klínískir starfsmenn, til dæmis hjúkrunarfræðingar sem flestir stunda klíníska starfsemi sem hluta af starfsskyldum sínum.
Sem dæmi má nefna að margir þeirra klínísku starfsmanna sem starfa á gæða- og sýkingvarnadeild og menntadeild vegna sérþekkingar sinnar í klínískri þjónustu hafa starfsheitið verkefnastjóri.
Taka má fram að á undanförnum 10 árum hafa starfsheiti á Landspítala tekið breytingum og hefur starfsmönnum með starfsheitið verkefnastjóri fjölgað þótt ekki endilega hafi verið um nýráðningar að ræða.
Nei.
Til skrifstofu spítalans teljast skrifstofur forstjóra, fjármála, mannauðs og framkvæmdastjóra lækninga og framkvæmdastjóra hjúkrunar. Þar hefur ekki orðið nein marktæk fjölgun starfsmanna síðustu ár.
Hins vegar var sú breyting gerð vegna lagalegrar umgjarðar náms kandídata og sérnámslækna að heimahöfn þess var flutt af öðrum sviðum spítalans til framkvæmdastjóra lækninga. Þar með fjölgaði þeim sem tilheyra skrifstofu Landspítala um ríflega 200 manns en hlutverk þeirra breyttist ekki í starfsemi spítalans. Eftir sem áður stunda þessir einstaklingar klínískt nám og störf.
Margir starfsmenn sem t.d. tilheyra skrifstofu spítalans og hafa klínískan bakgrunn sinna klínískum störfum á spítalanum samhliða öðrum verkefnum. Má þar t.d. nefna klínískt starfsfólk sem ráðið er í hlutastarf á menntadeild, einmitt vegna klínískrar þekkingar sinnar, og sinnir þar kennslu nemenda, sem eru um 1700 á ári á Landspítala, sem og sí- og endurmenntun klínískra starfsmanna spítalans.
Þá má nefna sem dæmi að starfsmenn gæða- og sýkingavarnardeildar, sem tilheyrir skrifstofu Landspítala, eru ekki hefðbundið skrifstofufólk heldur sérfræðingar. Flestir þeirra eru læknar og hjúkrunarfræðingar sem vinna náið með klínískum starfsmönnum að sýkingavörnum, ritun og útgáfu gæðaskjala þar sem lýst er gagnreyndu verklagi, þróun klínískrar þjónustu og ferla.
Framkvæmdastjórn telur að bein þátttaka stjórnenda og starfsfólks í þjónustu við sjúklinga sé æskileg þegar hún á við enda sé hún til þess fallin að tryggja að allir starfsmenn séu fyrst og fremst einbeittir í því að bæta hag sjúklinga.
Þess má geta að bæði forstjóri og framkvæmdastjóri lækninga taka sjálfir þátt í klínísku starfi á spítalanum og það á við um fleiri framkvæmdastjóra og forstöðumenn.
Niðurstöður:
6.043 starfsmenn/verktakar eða 93% eru fullbólusettir með tveimur eða þremur skömmtum.
249 starfsmenn/verktakar eða 3,8% hafa fengið einn skammt, í þeim hópi eru einstaklingar:
- sem hafa ekki fengið örvun eftir Janssen bólusetningu.
- sem fengu aukaverkanir eftir fyrri skammta og fá því ekki annan skammt fyrr en eftir ítarlegt mat.
- sem fengu Covid og hafa fengið einn örvunarskammt eða fengu Covid áður en þeir fengu seinni skammt.
209 starfsmenn/verktakar eða 3,2% eru skráðir óbólusettir, í þeim hópi eru einstaklingar:
- sem fengu bólusetningu erlendis sem hefur ekki verið skráð í íslenska bólusetningargrunninn.
- sem hafa fengið Covid og ekki enn þegið örvunarskammt.
- ófrískar konur sem velja að bíða með bólusetningu.
- einstaklingar sem hafna bólusetningu að sinni.
Ástæðan er bæði skortur á fjármagni og fólki.
Skortur er á hjúkrunarfræðingum á Íslandi eins og víðast hvar í heiminum. Mikilvægt er að fjölga þeim útskrifast úr námi í hjúkrunarfræði á næstu árum til að mæta aukinni þörf bæði vegna fjölgunar landsmanna en líka vegna þess að við lifum lengur og því fylgja fleiri og flóknari sjúkdómar.
Alvarlegastur er skorturinn á mjög sérhæfðum hjúkrunarfræðingum eins og gjörgæsluhjúkrunarfræðingum þar sem þeir búa yfir mikilli sérþekkingu sem aðrir hjúkrunarfræðingar hafa ekki.
Á háskólasjúkrahúsi eins og Landspítala fá veikustu sjúklingar landsins þjónustu og því krefst það þess að þeir sem þeim sinna hafi þekkingu á þeirra heilsufarsvanda.
Markmið Landspítala er að a.m.k. 60% af mannafla í hjúkrun séu hjúkrunarfræðingar enda er hátt hlutfall hjúkrunarfræðinga tengt auknu öryggi sjúklinga. Engin bráðalegudeild á Landspítala nær þessu viðmiði.
Fjármagn vantar til þess að geta ráðið fleiri hjúkrunarfræðinga og líka til að mennta fleiri hjúkrunarfræðinga en Landspítali gegnir einmitt lykilhlutverki í menntun hjúkrunarfræðinga eins og annarra heilbrigðisstétta á landinu.
Í stoðþjónustu á Landspítala voru 602 stöðugildi árið 2020 sem gerir 13,5% af heildarfjölda stöðugilda það árið (4462 stg). Þetta er sambærilegt hlutfall og á Sjúkrahúsinu á Akureyri og einnig því samanburðarsjúkrahúsi sem valið var til samanburðar í skýrslu McKinsey frá árinu 2020.
Þrátt fyrir að koma ekki beint að þjónustu við sjúklinga gegnir þetta starfsfólk engu að síður mikilvægu hlutverki. Þannig verður spítali ekki rekinn án fólks sem býr til mat handa sjúklingum, útvegar fatnað handa hjúkrunarfræðingum, reiknar laun handa sjúkraliðum, tæknifólks sem viðheldur öndunarvélum, forriturum sem passa upp á sjúkraskrár og svo framvegis. Þess má geta að á árunum eftir hrun var sérstaklega skorið niður í hópi þessara starfsmanna.
Þannig var hlutfall starfsmanna í stoðþjónustu af heildarfjölda stöðugilda 16,3% árið 2008 en er sem fyrr segir 13,5% árið 2021. Það er sérstakt markmið stjórnenda Landspítala að fjölga starfsfólki í stoðþjónustu svo faglært starfsfólk geti einbeitt sér að beinni þjónustu við sjúklinga og starfað í samræmi við menntun sína (e. Working from the top of your licence).
„Þessi göngudeildarstarfsemi er frumkvöðlastarf sem hefur þróast og þroskast á þeim tæpu tveimur árum sem liðin eru frá því faraldurinn skall á. Það er enginn vafi að þessi nálgun, sem er að mörgu leyti einstök á heimsvísu, hefur forðað tugum ef ekki hundruðum innlagna. Ef hún hefði ekki verið sett á laggirnar þarna á örfáum sólarhringum í mars 2020 þá hefði spítalinn yfirfyllst af veiku fólki og heilbrigðiskerfið væntanlega farið á hliðina.“
Um COVID-göngudeildina á Landspítala
-tekið saman í nóvember 2021
Ef helstu starfsemisupplýsingar spítalans eru skoðaðar frá 2008 til 2019 sést vel hver þróun hefur verið á þjónustunni, frá innlögn yfir í komu á dagdeildir. Þetta er í samræmi við alþjóðlega þróun.
Einstaklingum sem leituðu til spítalans á þessu tímabili fjölgaði úr 107.472 í 111.605 eða um 3,8%. Fjöldi koma á slysa- og bráðmóttöku stóð nánast í stað, þær dragast saman um 0,9%. Í ljósi aukinnar þjónustu á dagdeildum þá drógust komur á göngudeildir umtalsvert saman eða um 19%. Komum á dagdeildir fjölgaði um 48,5%, úr 61.204 komum árið 2008 í 90.920 árið 2019.
Fjöldi rúma og fjöldi innlagna hefur dregist saman á tímabilinu. Rúmum um 20,4% og innlögnum um 11,1%.
Skurðaðgerðum hefur fjölgað um 45,2% frá 2008 til 2019. Hlutfall dagdeildaraðgerða hefur aukist úr 28% árið 2009 í 66% árið 2019. Í skýrslu McKinsey kemur fram að meðalskurðtími í LSH/SAk er 50-70 mínútur sbr. við 90-200 mínútur á Skáni. Skurðstofutími er 100-120 mínútur á Íslandi sbr. við 160-290 mínútur á Skáni enda hefur mikil vinna farið í að stytta aðgerðartíma undanfarinn áratug.
Meðallegutími skiptir máli vegna þess að hann getur verið vísbending um framleiðni spítalans. Þetta getur þó verið flókinn mælikvarði að meta.
Á Landspítala er á hverjum tíma fjöldi sjúklinga sem lokið hefur meðferð á spítalanum. Þetta er fólk sem flest á ekki afturkvæmt á sitt fyrra heimili eða þarf svo mikinn stuðning til að búa heima að heimahjúkrun og félagsþjónusta hafa ekki tök á að veita hana. Þetta fólk hefur gjarnan fengið svokallað færni- og heilsumat, sem er forsenda þess að fá rými á hjúkrunarheimili.
Við þessu hefur Landspítali brugðist með ýmsum „biðúrræðum“, þ.e. fólk sem t.d. bíður eftir hjúkrunarheimili bíður á Vífilsstöðum. Aðrir bíða á Landakoti og sumir á bráðalegudeildum spítalans. Þetta er nokkuð breytilegur fjöldi, allt frá 70-130 á síðustu árum.
Þeir sem bíða á Landakoti kunna að hafa lokið meðferð sinni þar og það þýðir að sjúklingar á bráðalegudeildum komast ekki þangað í endurhæfingarúrræði. Það er fólk sem ekki er með færni- og heilsumat og þarf sérhæfða endurhæfingu á Landakoti til að komast heim.
Yfirleitt eru um að ræða 20-40 einstaklinga á því sem kallað er „innri bið“. Þannig eru samtals á hverjum tíma yfirleitt um 100 einstaklingar sem bíða eftir einhverju á spítalanum. Þetta er það sem í daglegu tali kallast útskriftarvandi.
Úr þessari töflu má ráða að 1% sjúklinganna á 17% legudaga. Meðallegutími þessa hóps var 122,4 dagar en þetta er sá hópur sem bíður helst annarra úrræða. Það á líka við um hópinn sem dvelur lengur en 31 dag.
Þetta veldur því að þegar borinn er saman legutími sjúklinga á Landspítala við legutíma sjúklinga á samanburðarsjúkrahúsi í Svíþjóð, eins og gert var í áðurnefndri McKinsey-skýrslu, mætti ætla að legutími sambærilegra sjúklingahópa væri mun lengri á Landspítala. Á honum er meðallegutíminn þó aðeins 4,6 dagar sem er vel sambærilegt við samanburðarsjúkrahúsin.
Nei.
Framleiðni á Landspítala er mjög mikil og á pari við þau sjúkrahús sem miðað er við. Þetta á við um fjölda viðtala á lækni, fjöldi myndataka á myndgreiningartæki, fjölda innlagna og koma á göngudeildir á hvert stöðugildi.
Framleiðni hefur hins vegar dregist saman frá árinu 2015 og er meginskýringin á því tímamótakjarasamningur við lækna sem tryggði þeim mikilvæga hvíld í kjölfar erfiðra vakta. Til að manna nokkuð sambærilega starfsemi hefur stöðugildum sérfræðilækna fjölgað um 50 og er það vel.
Þessi hvíld leiðir af sér aukin frí sem manna þarf með fleiri stöðugildum svo áfram sé hægt að veita sömu þjónustu. Á ákveðnum mælikvörðum kemur þetta fram sem minni framleiðni. En á móti hefur starfsumhverfið stórbatnað, sem var að mörgu leyti of þungt.
Sem dæmi um það má nefna að í skýrslu McKinsey fyrir stjórnvöld árið 2016 kom skýrt fram að hver læknir á Landspítala sá 95% fleiri sjúklinga á árinu 2014 heldur en hver læknir á Umea-sjúkrahúsinu. Það er vísbending um það mikla álag sem var á læknum spítalans.
Landspítali stendur framar viðmiðunarsjúkrahúsum erlendis í framleiðni á skurðstofum og nýtingu þeirra. Þar munar raunar gríðarmiklu eins og sést skýrt á mynd 5 úr skýrslu McKinsey.
Í skýrslu McKinsey er tekið fram að framleiðni hjúkrunarfræðinga, mæld í hjúkrunarstundum á hvern sjúkling á sjólarhring, er svipuð á Landspítala og á Skáni. Hins vegar hefur hjúkrunarstundum á hvern sjúkling fjölgað á Landspítala og er það túlkað sem samdráttur í framleiðni hjúkrunarfræðinga.
Þá ályktun má einnig draga út frá þeirri staðreynd að eftir því sem hjúkrunarþyngd (sem einnig er mæld) eykst því fleiri hjúkrunarstundir þarf hver sjúklingur.
Hjúkrunarþyngdarstuðull á Landspítala bendir til þess að sjúklingarnir þurfi sífellt meiri þjónustu, sem er í samræmi við þá staðreynd að á Landspítala liggja eðli máls samkvæmt þeir einstaklingar sem veikastir eru. Það má því búast við að hjúkrunarstundum fjölgi áfram.
Landspítali hefur síðustu 15-20 ár lagt sérstaka áherslu á þróun rafrænna kerfa fyrir heilsufarsskrár. Eins og m.a. kom fram í skýrslu McKinsey snemma árs 2021 stendur spítalinn sig vel í sinni stafrænu vegferð og er fremstur meðal jafningja á alþjóðlega vísu, samanber myndina hér fyrir neðan:
Þróun stafrænna lausna er forsenda árangurs í starfsemi flestra fyrirtækja og stofnana. Landspítali er engin undantekning og því hafa stjórnendur lagt ríka áherslu á stafræna þróun undanfarin ár.
Gott dæmi um þetta er kerfi sem Landspítali hefur þróað og smíðað í samvinnu við sérfræðinga, bæði innan spítalans og utan, og heldur utan um mikilvægustu vinnugögnin, þ.e. sjúkraskrána.
Kerfið heitir „Heilsugátt“ og er aðgengileg viðmótslausn ofan á tæplega 100 klínísk hugbúnaðarkerfi sem eru í notkun við fjölbreytta klíníska starfsemi á Landspítala.
Í Heilsugátt er aðgengi að sjúkraskrárgögnum úr öllum undirliggjandi kerfum og allar helstu aðgerðir í boði; panta rannsóknir, ávísa lyfjum, skrifa nótur, bóka tíma, hefja fjarfundi o.s.frv.
Heilsugátt les og birtir jafnframt sjúkraskrárgögn frá öðrum stofnunum auk þess sem flest lækningatæki skila gögnum inn í kerfið. Einnig er lögð áhersla á að ytri kerfi, t.d. sérhæfðar nýsköpunarlausnir, geti tengst sjúkraskrá Landspítala í framtíðinni og því hafa verið útbúin gagnaskil til samþættingar við slíkar lausnir.
Þessi aðferðafræði hefur reynst ákaflega vel þar sem áhersla hefur verið á stuðning við klíníska verkferla og flæði sjúklinga innan spítalans. Í því sambandi hafa fjölmargar einingar verið þróaðar innan Heilsugáttar sem nýtast almennt. Þar má nefna:
- Skjáborð – rauntímayfirlit yfir alla sjúklinga á legudeildum og bráðamóttökum
- Vinnuhólf – Yfirlit yfir öll rannsóknarsvör og erindi sem heilbrigðisstarfsmaður þarf að sinna
- Tímalína – Öll gögn um sjúkling úr öllum kerfum í tímaröð
- Hópar – Skilgreindir sjúklingahópar með alls kyns upplýsingum. Yfir 12.000 hópar
- Form – Hægt að hanna klínísk skráningarform sem verða hluti af sjúkraskrá sjúklings
- Spjallkerfi – Klínískt samskiptakerfi starfsmanna, leysir símann af hólmi
- Regluvélar - Útbúa klínískar reglur til að vakta sjúklinga, skref í átt að notkun gervigreindar
- Árangursmælar – Rauntíma árangursmælar á klíníska starfsemi
- Fyrirmæli - Klínísk fyrirmæli lækna
Með Heilsugátt hefur reynst mögulegt að leysa fjölmargar klínískar þarfir hratt og vel. Þar má nefna þjónustu við sjúklinga á Covid göngudeildinni, nýrri brjóstamiðstöð og fleira. Auk þess sem heilbrigðisstarfsfólk Landspítala nýtir Heilsugátt í daglegu starfi hafa flestar heilbrigðisstofnanir og einkareknar stofur aðgang að kerfinu og þar með nauðsynlegum sjúklingagögnum á spítalanum sem eykur skilvirkni og bætir öryggi sjúklinga.
Stöðugt er verið að vinna í umbótum og nýjungum í stafrænum lausnum hjá Landspítala. Mánaðarlega er gefið út yfirlit yfir helstu verkefnin og má sem dæmi nefna innleiðingu á nýjum, framsæknum lausnum í gæðastjórnun, rafrænni fræðslu og hæfnisstjórnun sem frá febrúar 2024. Í marsyfirlitinu var sagt frá lokum innleiðingar á CIS gjörgæslukerfinu en það er dæmi um eitt af þeim stóru og flóknu kerfum sem tengt er lykilsjúkrakerfi Landspítala – Heilsugátt.
Hér má sjá mánaðarlegu yfirlitin yfir stafrænu umbreytingarverkefni á Landspítala: Stafræn umbreytingarverkefni á Landspítala
Stefna Landspítala er að auka vægi nýsköpunar og stafrænna lausna og vera þekktur fyrir nýsköpun á vettvangi heilbrigðisvísinda. Landspítali leggur áherslu á að stuðla að nýsköpun með því að vinna með fyrirtækjum að lausnum og auðvelda notkun lausnanna innan spítalans.
Unnið er að því á Landspítala að móta ferla fyrir móttöku og framgang nýsköpunarverkefna. Stefnt er að því að auðvelda fyrirtækjum að stofna til samstarfs við Landspítala í að koma hugmyndum á framfæri og fjölga tækifærum til samstarfs og samtals milli nýsköpunarfyrirtækja og spítalans.
Samstarfsaðillar
Partners and support networks
Í mörg ár hefur Landspítali verið mjög atkvæðamikill í allri nýsköpun. Hér er yfirlit yfir nokkur verkefni sem unnið hefur verið að á sviði heilbrigðisupplýsingatækni en auk þeirra eru fjölmörg önnur nýsköpunarverkefni í gangi á hverjum tíma annars staðar á spítalanum.
Á árunum 2020-2021 vann Landspítali með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, og fjármála- og efnahagsráðuneyti að framkvæmd „Stafræns heilbrigðismóts“. Alls voru 9 verkefni unnin í samstarfi Landspítala og fyrirtækja frá september 2020 fram í júní 2021. Í öllum tilfellum var samstarfið á milli klínískra sviða Landspítala með aðkomu heilbrigðis- og upplýsingatæknideildar spítalans (HUT) þar sem við átti.
Verkefnin:
- Áhættureiknir á augnsjúkdómum vegna sykursýki - unnið í samstarfi við RetinaRisk ehf
- App (smáforrit) fyrir inniliggjandi sjúklinga á Landspítala - unnið í samstarfi við Advania
- Rekjanleg ferli sjúklinga með brjóstakrabbamein - unnið í samstarfi við Heilsugreind
- Fjarvöktun ónæmismeðferðar krabbameina - unnið í samstarfi við SidekickHealth
- Rafræn samskipti sjúklinga og geðþjónustu - unnið í samstarfi við Origo, Geðhjálp, Trans Ísland
- Nútímalegt sjúkraskrárviðmót á Landspítala - unnið í samstarfi við Fleygiferð ehf
- Spálíkan fyrir gjörgæslur Landspítala - unnið í samstarfi við Heilsugreind
- Ný leið í atferlisþjálfun ungmenna á barna- og unglingageðdeild, BUGL - unnið í samstarfi við Beanfee
- DNA hraðgreiningar fyrir SARS-CoV2 og fleira - unnið í samstarfi við ArcanBio
Mjög vel tókst til og eru mörg þessara verkefna í áframhaldandi þróun.
Landspítali var á haustmánuðum 2021 í samstarfi við „Nýsköpunarvikuna“ um „Lausnarmót 2021“ en í því fólust þrjú nýsköpunarverkefni þar sem leitað var lausna við áskorunum sem mögulega verða að þróunarverkefnum.
Verkefnin þrjú:
- Rafrænt sjálfvirkt eftirlit með eftirlitsskyldum lyfjum - unnið í samstarfi við Mojo
- Áætlaður biðtími á bráðamóttöku Landspítala - unnið með teymi hugbúnaðarverkfræðinga og tölvunarfræðinga með reynslu úr verkefnum hjá Marel ehf og DK hugbúnaði ehf
- Rafræn matardagbók vegna meðferða við átröskun - unnið með Beanfee
Að auki er Landspítali í samstarfi við Heilsugreind ehf. við eftirtalin verkefni:
- Betri röðun skurðaðgerða
- Betri miðlun upplýsinga í aðdraganda skurðaðgerða
- Betra Covid spálíkan
- Gæðavísir fyrir gjörgæslur
- Röðun lyfjagjafa á 11B
Landspítali vinnur einnig ötullega að nýsköpun og þróun innan spítalans og þar má nefna meðal annars eftirtalin verkefni:
- Staðsetningalausnir. Staðsetning búnaðar, sjúklinga og starfsfólks með það fyrir augum að auka og bæta þjónustu við sjúklinga, auka öryggi og hámarka afköst
- Áframhaldandi þróun á sjúklingaappi Landspítala
- Þróun Heilsugáttar, þar á meðal notkun gervigreindar
Nýsköpun og hringrásarhagkerfið
Í þvottahúsi Landspítala falla til árlega um 8 tonn af textíl sem ekki er hægt að nýta lengur vegna aldurs eða þess að þau spillast í þvotti með pennum sem gleymist að taka úr. Nokkur nýsköpunarverkefni í hringrásarhagkerfinu eru í vinnslu:
- Stúdíóflétta https://www.studiofletta.is/ hafa með styrk frá Hönnunarsjóði og nýsköpunarsjóði námsmanna greint tækifæri og gert tillögu að fimm gerðum að svokölluðum „pennaveskjum“. Hluti textílsins eru ný föt en pennar hafa þvælst með í þvott og skemmt efnin. Hönnunarteymið hefur hannað tískutöskur, innkaupapoka ofl. með pennaslettunum til þess að minna starfsfólk á að tæma vasa en einnig til að gera verðmæti úr góðum efnum.
- Sjúklingar hjartadeildar nota um 1400 einnota poka fyrir mælitæki sem kosta deildina 1.150.000 kr. - árlega. Múlabær, dagþjálfun fyrir aldraða, tók að sér að sauma margnota telemetríupoka fyrir hjartadeild. Strax kom í ljós að önnur deild getur nýtt sér þessa poka. Enn er verið að sauma. Pokarnir eru sniðnir úr ónýtum yfirbreiðslum þvottavagna og gömlum blússum starfsfólks. Þegar upp er staðið geta sparast um 1.800.000 kr/árlega og textíl er komið í umferð.
- Fleiri hugmyndir eru í skoðun eða eiga eftir að spíra.
Heilbrigðis- og upplýsingatæknideild er samstarfsaðili og einn af stofnendum heilbrigðistækniseturs Háskólans í Reykjavík. Heilbrigðistæknisetrið var stofnað til að efla samstarf og framþróun á sviði heilbrigðistækni og hefur um árabil verið í fararbroddi á heimsvísu í notkun þrívíddarprentaðra líffæra við undirbúning flókinna skurðaðgerða á Landspítala. Undir heilbrigðistæknisetri er starfrækt stofnun í heilbrigðis- og taugaverkfræði (Institute of Biomedical and Neural Engineering) til þess að skapa grundvöll fyrir stórum rannsóknarverkefnum með þátttöku HR, HÍ, Landspítala og fyrirtækja í heilbrigðistækniiðnaði. Samstarfið hefur skilað rannsóknum á sviðum eins og merkjagreiningu lífmerkja (biomedical signal processing), hreyfi- og sjóveiki, tauga- og vefjaverkfræði ásamt lífaflfræði (biomechanics).
Forstöðumaður setursins er Paolo Gargiulo, doktor í heilbrigðisverkfræði og prófessor við heilbrigðisverkfræðideild HR. Hann er jafnframt starfsmaður vísíndadeildar Landspítala. Paolo hefur sérhæft sig í myndvinnslu klínískra myndgagna, taugaverkfræði, þrívíddarprentun og heilbrigðistækni. Hann hefur m.a. þróað ferli sem nýtir myndvinnslu og þrívíddarprentun til undirbúnings fyrir flóknar skurðaðgerðir á Landspítala og hefur nú þegar verið notuð í yfir 200 skurðaðgerðum með góðum árangri. Paolo vinnur að því að koma á fót sambærilegum ferlum og innviðum í samvinnu við stofnanir á Ítalíu og í Bretlandi.
Medagogic ehf
Medagogic er íslenskt sprotafyrirtæki sem er að þróa sýndarveruleika þjálfun fyrir barnalækna. Fyrirtækið er í þróunarsamstarfi við tvo spítala í Svíþjóð, Sahlgrenska og Kiruna.
Samstarf við HUT:
Medagogic ehf. er að þróa sýndarveruleika hugbúnað sem tekur við og birtir læknisfræðilegar myndir á DICOM formi í samstarfi við HUT (heilbrigðis- og upplýsingatæknideild) Landspítalans. Með honum getur skurðlæknir notað sýndarveruleika gleraugu til að rýna myndir á gagnvirkan hátt í þrívídd. Skurðlæknir mun hafa aðgang að tólum sem auka við skilning og undirbúning s.s breytilegan styrkleika myndar (e. intensity) og greinarmun á mjúk og harðvefjum.
Tíró
Tíró er íslenskt tæknifyrirtæki sem brúar bilið milli talmáls og ritmáls. Röntgendeild Landspítala hefur verið í samstarfi við Tíró í nokkur ár um þróun talgreinis fyrir íslensku til notkunar fyrir röntgenlækna. Ávinningur þess að nota talgreini við svörun myndgreiningarrannsókna er fjölþættur og ber þar helst að nefna styttri svartíma sem eykur öryggi sjúklinga. Von er til þess að fleiri deildir geti tekið upp talgreininn þegar fram í sækir.
Glooko Pilot-verkefni
Glooko er smáforrit (app) sem aðstoðar við meðhöndlun á sykursýki. Lausnin safnar saman nauðsynlegum upplýsingum frá einstaklingum um ýmsa þætti daglegs lífs sem hafa áhrif sjúkdóminn (lyfjagjafir, mataræði, hreyfing) og býður uppá að deila þeim með heilbrigðisstarfsfólki. Ávinningurinn felst í snemmíhlutun og sértækari meðferð fyrir skjólstæðinga LSH.
Care to translate Clinic Pilot-verkefni
Care-to-translate (C2T) Clinic smáforrit (app), er samskiptatól, notað fyrir erlenda sjúklinga sem geta hvorki tjáð sig á ensku né íslensku. Þetta þýðingartól inniheldur fyrir fram skilgreinda frasa, setningar, orð ofl (á rúmlega 40 tungumálum) er einnig vottað fyrir heilbrigðisstofnarnir. C2T Clinic er notað víða, m.a á mörgum heilbirgðissofnunum í Svíþjóð. Lausnin er aðgengileg strax, allan sólarhringinn, uppsett á spjaldtölvur LSH og því þarf ekki að hringja á utanaðkomandi túlk. Verkefnið er skref í þróun sjúklingafræðslu og vandaðra samskipta í heilbrigðiskerfinu.
NúnaTrix ehf
NúnaTrix ehf. er nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í gerð kennsluleikja fyrir heilbrigðisgeirann. Slíkir leikir eru í vaxandi mæli þróaðir til að nota í sjúklingafræðslu, annarri meðferð sjúklinga og kennslu heilbrigðisstétta.
Kennsluleikir á formi tölvuleikja byggjast á vísindalegum grunni þar sem heilbrigðisvísindi, menntavísindi og tölvuleikjafræði hitta fyrir hönnun og tækni.
Á ensku kallast slíkir leikir „serious games“ enda hafa þeir önnur og að einhverju leyti alvarlegri markmið en skemmtun eina saman – það útilokar þó alls ekki að þeir geti verið skemmtilegir! Þvert á móti getur skemmtanagildið aukið áhugahvöt og þannig stutt við nám þess sem spilar leikinn.
Stofnendur NúnaTrix eru Brynja Ingadóttir og Katrín Jónsdóttir sem eru hjúkrunarfræðingar með áratuga reynslu af hjúkrun og sjúklingafræðslu og þekkja því vel þau tækifæri sem leynast fyrir tölvuleiki í þróun fræðslu fyrir sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólk. Eigendur, auk Brynju og Katrínar eru Landspítali og Háskóli Íslands.
Þessi lausn er m.a notuð sem fræðsluefni á vegum miðstöðvar sjúklingafræðslu á Landspítala og er notað í tengslum við undirbúning ungra barna fyrir svæfingu á innskriftarmiðstöð svæfingar.
Um 3.500 heilbrigðisstarfsmenn utan Landspítala, bæði á einkastofum og opinberum stofnunum svo sem heilbrigðisstofnunum vítt um landið, sjúkrahúsum, heilsugæslum og öldrunarheimilum, hafa aðgang að ýmsum kerfum spítalans ýmist til uppflettingar á sjúkraskráupplýsingum eða til að nota sérhæfð kerfi, t.d. rannsóknar- og úrvinnslukerfi. Aðgangur notenda er sniðinn að þörfum þeirra og verkefnum, t.d. nota tíu stofnanir utan Landspítala þjónustur spítalans til blóðrannsókna sem og sýkla- og veirufræðirannsókna.
Heilsugátt Landspítala hefur þannig auðveldað aðgang að upplýsingum og þjónustu sem spítalinn veitir á landsvísu en að meðaltali eru um 1.200 ytri notendur að kerfum spítalans á hverjum degi.
Nordic Proof er norrænn samstarfsvettvangur heilbrigðisstofnana og prófunaraðila á sviði heilbrigðistækni. Markmið samstarfsins er að auka nýsköpun og framþróun í heilbrigðisþjónustu með því að skapa vettvang þar sem leitast er við að tengja saman fyrirtæki og stofnanir. Nordic Proof er að hluta fjármagnað af Nordic Innovation sem hefur að markmiði að Norðurlöndin séu fremst í heiminum í þróun, nýsköpun og samkeppni.
Samstarfsnetið veitir heilbrigðistæknifyrirtækjum sem eru að leita að samstarfsaðilum til að prófa hugmyndir sínar, vörur eða lausnir greiðan aðgang að réttu starfsfólki, aðstöðu og faglegri þjónustu til prófana og samvinnu. Nordic Proof samstarfinu er ætlað að auðvelda fyrirtækjum að prófa og sannreyna nýjar heilbrigðislausnir, opna Norðurlönd sem heimamarkað fyrir fyrirtæki með því að auðvelda að hefja samstarf við heilbrigðisstofnanir sem og að láta fleiri fyrirtæki prófa lausnir sínar í norrænu ríkjunum.
Frá 2018 til 2021 hefur Nordic Proof sinnt alls 600 prófunarfyrirspurnum frá fyrirtækjum vegna lækningatæki og rafrænna heilsulausna. Með aðild að þessu samstarfi vonast Landspítali til þess að skapa vettvang fyrir aukið samstarf við aðrar norrænar heilbrigðisstofnanir svo og nýsköpunarfyrirtæki á sviði heilbrigðistækni.
Sjá nánari upplýsingar um Nordic Proof
*Efni þetta er tekið saman af Skrifstofu forstjóra.