Opni háskólinn og deildir íþróttafræði og sálfræði Háskólans í Reykjavík standa að Vöðvaverndardeginum í samstarfi við Landspítala. Ráðstefnan verður haldin fimmtudaginn 27. mars 2025 í Háskólanum í Reykjavík.
Erlendir og íslenskir fræðimenn á sviðum heilbrigðis- og íþróttavísinda verða með erindi til að opna á samtal milli fagstétta, almennings og íþróttafræðinnar.
Þetta er í annað sinn sem Vöðvaverndardagurinn er haldinn. Dagurinn er tileinkaður forvörnum gegn vöðvarýrnun sem getur haft alvarlegar afleiðingar á efri árum.
Í ár vekjum við athygli á mikilvægi miðlunar réttmætra upplýsinga í nútímasamfélagi. Áhersla verður á vitundarvakningu og vöðvavernd en einstaklingsmiðuð hreyfing er mjög áhrifarík við meðhöndlun á hrörnun, vöðvarýrnun, beinþynningu, fallvörnum og viðhaldi hreyfigetu.
Bæði heilbrigðisstarfsfólk og almenningur hafa takmarkaða vitund um mikilvægi vöðvaverndar en markmið ráðstefnunnar er að styðja almenning og sérfræðinga við að greina á milli réttra upplýsinga og rangfærslna þegar kemur að vöðvavernd.
Fyrirlesarar eru sérfræðingar á sviði öldrunarlækninga, þjálfunar- og heilbrigðisvísinda, næringarfræði, atferlisfræði og menntamála.
Dagskrá má sjá hér.