Leit
Loka

Transteymi BUGL

Banner mynd fyrir  Transteymi BUGL

Transteymi BUGL sinnir greiningu og meðferð einstaklinga undir 18 ára aldri, sem upplifa misræmi milli kynvitundar sinnar og þess kyns sem þeim var úthlutað við fæðingu.

Staðsetning: Transteymið er staðsett á göngudeild BUGL við Dalbraut 12.
Opnunartími: Hægt er að hafa samband við afgreiðslu BUGL í síma 543-1000, á virkum dögum milli kl. 8-16. Hægt er að leggja fyrir skilaboð til teymisstjóra transteymis sem hefur svo samband.

Hagnýtar upplýsingar


Transteymi BUGL sinnir greiningu og meðferð einstaklinga undir 18 ára aldri, sem upplifa misræmi milli kynvitundar sinnar og þess kyns sem þeim var úthlutað við fæðingu.
Það er ekki óvanalegt að börn séu kynlaus í hegðun sinni.

Það er ekki heldur óvanalegt að barn segi að það vilji vera eða að það tilheyri hinu>öðru kyniniu og því þarf ekki alltaf að leita faglegrar aðstoðar. Einstaklingur getur þó þarfnast þjónustu fagaðila ef hann hefur í lengri tíma upplifað misræmi í sinni kynvitund og vanlíðan í tengslum við það.


Ef grunur vaknar um kynmisræmi getur heilsugæslulæknir eða sjálfstætt starfandi fagaðili sent tilvísun á Barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL). Gert er ráð fyrir að frumgreining hafi farið fram í nærumhverfi.

Biðtími frá því tilvísun berst og þar til þjónusta hefst getur verið mislangur háð því hversu margir eru í þjónustu teymisins. Algengast er að biðtími sé á milli 6-12 mánuðir.

Samhliða því að tilvísun er send er mælt með að tengslum við fagaðila í nærumhverfi sé haldið áfram og unnið með könnun á kynvitund samfara meðferð við fylgiröskunum.

Tilvísun á BUGL ásamt leiðbeiningum

 


Þjónusta á göngudeild BUGL hefst í greiningarteymi. Þar fer fram greining á mögulegum líffræðilegum og sálfélagslegum áskorunum. Það er einstaklingsbundið hversu langan tíma greiningarferlið tekur. Að lokinni vinnslu í greiningarteymi er gerð meðferðaráætlun, ef þörf er á.

Þjónusta Trans teymis hefst svo þegar einstaklingur hittir starfsmann Trans teymis í viðtali. Vinnan innan Trans teymis getur tekið mislangan tíma en aldrei skemur en sex mánuði. Það er mikilvægt að teymið fái sem besta mynd af stöðu og líðan ungmennis og veiti heildrænan stuðning í gegnum ferlið. Teymið leggur áherslu á góða samvinnu og traust milli fagaðila teymisins, barns/ungmennis og forsjáraðila.


Teymið leggur áherslu á þrepaskipta ákvarðanatöku í greiningar- og meðferðarferlinu í samræmi við lög um kynrænt sjálfræði.

Rétt er að vekja athygli á að skv. 11.gr. / 11. gr. a) laga um kynrænt sjálfræði er ekki gert ráð fyrir að gerðar séu varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða kyneinkennum einstaklings yngri en 16 ára, nema líkamlegar heilsufars ástæður krefjist þess. Til varanlegra breytinga teljast meðal annars skurðaðgerðir, lyfjameðferðir og önnur óafturkræf læknisfræðileg inngrip.

Að greiningu lokinni í Trans teymi er tekin ákvörðun um áframhaldið í samvinnu við ungmennið og forsjáraðila og metin þörf á áframhaldandi meðferð. Gerðar eru tilvísanir til innkirtlalækna barna eða til annarra fagaðila, eftir því sem við á.

Einstaklingum er vísað yfir til Trans teymis fullorðinna við 18 ára aldur, ef við á.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?