Sagan

Landspítali í núverandi mynd varð til við samruna Landspítalans og Sjúkrahúss Reykjavíkur árið 2000.  Áfangar á leið til stofnunar háskólasjúkrahússins voru fjölmargir, allt frá því Sjúkrahús Reykjavíkur að Kirkjubrú 1 hóf starfsemi árið 1866.  

 

Hefurðu ábendingu eða athugasemd við þessa samantekt?

  • Sjúkrahús Reykjavíkur að Kirkjubrú 1 frá 1866 til 1884, fyrsti spítalinn í Reykjavík og var rekinn af einkaaðila. Stóð þar sem nú er Herkastalinn.
  • Sjúkrahúsfélag Reykjavíkur reisti húsið Þingholtsstræti 25 í Reykjavík sem sjúkrahús árið 1884 og líkhús við hlið þess ári síðar. Félagið var stofnað af nokkrum embættismönnum og kaupmönnum á afmælisdegi konungs 6. október 1863. Eina sjúkrahús í Reykjavík þar til 1902 þegar starfsemi hófst á Landakotsspítala.
    Áfangar.com: Þingholtsstræti 25 (Farsótt)
    Húsakönnun, bls. 11-12
  • J. Gudmanns Minde. Fyrsti spítalinn á Akureyri var í húsinu Aðalstræti 14 sem Carl Gudmann gaf bænum. Spítalinn vígður 7. júlí 1874 og starfræktur til ársloka 1898 af Akureyrarbæ.
  • Sjúkrahús Ísafjarðar var tekið í notkun í Mánagötu 1897 en fluttist í nýbyggingu sem var vígð að Eyrartúni 17. júní 1925. Nú Heilbrigðisstofnun Ísafjarðarbæjar og til húsa í byggingu sem var að fullu tekin í notkun 30. apríl 1995
  • Laugarnesspítalinn var reistur af dönskum Oddfellowfélögum en rekinn af íslenska ríkinu frá 1898 til 1940 þegar hann var tekinn til notkunar fyrir setulið bandamanna. Brann á stríðsárunum.
  • Sjúkrahúsið á Akureyri. Annar spítalinn á Akureyri tekinn í notkun 1899 að Spítalavegi 11-13 og starfræktur til 1953 af Akureyrarbæ (nú skíðahótelið í Hlíðarfjalli).
  • Franski spítalinn við Lindargötu var reistur og rekinn af La Société des Hopitezu Francais d´Islande frá 1903 til 1921
  • Landakotsspítali við Túngötu tók til starfa 1902 og var helsti spítali landsins og kennslusjúkrahús þar til starfsemi Landspítalans hófst.
  • Franskur spítali á Fáskrúðsfirði tekinn í notkun 1904 til að þjóna frönskum fiskimönnum. Starfræktur til 1914 af Societes des Ouveres le mer. Lagður niður þá sem spítali og húsið flutt út á Hafnarnes, sunnanvert í Fáskrúðsfirði, árið 1939 þar sem það var íbúðarhús og skóli. Húsið hefur aftur verið flutt til Fáskrúðsfjarðar þar sem það er orðið að hóteli. 
  • Kleppsspítali tekinn í notkun þegar fyrsti sjúklingur leggst inn 1907. Nýbygging á Kleppi var vígð 1929.
  • Vífilsstaðaspítali tók til starfa fyrir berklasjúklinga 5. september 1910. Upp úr 1970 farið að taka við öndunarfærasjúklingum og meðferðardeild fyrir áfengissjúklinga sem tilheyrði Kleppsspítala starfaði þar frá 1976 til 2002. (Geðdeildinni að Gunnarsholti líka lokað 2002). Starfsemi Landspítala lauk á Vífilsstöðum 2002 en hófst aftur 20. nóvember 2013 þegar þangað var flutt hjúkrunardeild frá Landakoti.  Á Vífilsstöðum er öldrunarlækningadeild fyrir rúmlega 40 sjúklinga.
  • Kristneshæli var tekið í notkun 1927 sem heilsuhæli fyrir berklasjúklinga. Frá 1976 hjúkrunar- og endurhæfingarspítali (Kristnesspítali). Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri tók við rekstri Kristnesspítala 1. janúar 1993 og þar eru endurhæfingardeild og öldrunarlækningadeild.
  • Fyrstu röntgentækin til landsins 1914.
  • Farsóttarhúsið að Þingholtsstræti 25 var almennur spítali frá 1884 til 1903. Aðalsjúkrahús Reykjavíkur þar til Landakotsspítali tók til starfa 1902. Læknaskóli til 1911 og síðan íbúðarhús. Tekið í notkun 1920 fyrir farsóttarsjúklinga og var upp úr því sérspítali til 1969. Sjá einnig fremst hér í upptalningunni þegar Þingholtsstræti 25 var sjúkrahús.
  • Hornsteinn Landspítala lagður 15. júní 1926.
  • St. Jósefsspítali í Hafnarfirði vígður af prefekt Molenberg sem var síðar biskup kaþólskra á Íslandi. Hafist var handa við byggingu spítalans fyrir St. Jósefssystur við Suðurgötu árið 1924 og húsið teknaði Guðjón Samúelsson. Tilgangur systranna var að þjóna þeim sem bjuggu í Hafnarfirði og nágrenni og allt til Suðurnesja. Þær hættu afskiptum af daglegum rekstri 1978.
  • Landspítali tekinn í notkun 20. desember 1930.
  • Fyrsta fæðingardeild landsins opnuð á Landspítala í árslok 1930 og fyrsta barnið fæðist 5. janúar 1931.
  • Húð- og kynsjúkdómadeild tekur til starfa við Hringbraut 1934.
  • St. Franciskureglan reisti St. Franciskuspítalann í Stykkishólmi sem var formlega tekinn í notkun 17. september 1936. Byggingarframkvæmdir hófust í júlí 1933. St. Franciskureglan rak spítalann í 70 ár. Ríkið  eignaðist St. Franciskuspítalann með samningi sem var undirritaður 19. desember 2006.
  • Fyrsti vísir að slysadeild þegar Læknavarðstofan var opnuð í Austurbæjarskólanum 1943. Fluttist 1955 í Heilsuverndarstöðina en fyrsta skóflustunga að henni hafði verið tekin árið 1949.  Bygging Heilsuverndarstöðvarinnar þótti marka tímamót í sögu heilbrigðiskerfisins. Starfsemin nefndist opinberlega "Læknavaktin" og starfaði samkvæmt samningi við Sjúkrasamlagið. Starfsemin var þó fram á níunda áratuginn oft nefnd "Bæjarvaktin".
  • Sjúkrahús líknarfélagsins Hvítabandsins við Skólavörðustíg vígt 18. febrúar 1934. Reykjavíkurborg tók við rekstrinum 1944.
  • Ríkisspítalar verða til þegar starfsemi allra ríkisrekinna sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana er sameinuð undir einni stjórn og rekstraraðila 1935. Þar á meðal voru Landspítalinn, Kleppsspítali, Vífilsstaðaspítali, Rannsóknastofa Háskólans og Kristnesspítali. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri tók seinna við Kristnesspítala. Ríkisspítalar (Landspítali) hurfu úr lögum um heilbrigðisþjónustu 2007.
  • Læknavarðstofan í Austurbæjarskólanum hefur starfsemi í febrúar 1943 en flyst síðar í Heilsuverndarstöðina við Barónsstíg
  • Spítalinn Sólheimar við Tjarnargötu stofnaður 1945 sem fæðingarheimili og almennur spítali. Fæðingarheimilið lagt niður eftir nokkur ár og spítalinn rekinn sem almennur spítali en lagður niður 1969.
  • Arnarholt opnað 1946 sem vistheimili fyrir skjólstæðinga fátækranefndar Reykjavíkur.
  • Sjúkrahús Akraness tekið í notkun 4. júní 1952 þegar tekið var við fyrsta sjúklingnum. Sjúkrahúsið var eign Akraneskaupstaðar. Varð fjórðungssjúkrahús 1. júlí 1961 og fékk eftir það framlög úr ríkissjóði. Er nú Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi (SHA).
  • Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) tekur til starfa 15. desember 1953 (nú Sjúkrahúsið á Akureyri).
  • Blóðbankinn opnaður 1953.
  • Hjúkrunarspítali tekinn í notkun í Heilsuverndarstöðinni í Reykjavík 12. október 1955. Bæjarspítalinn varð lyflækninga- og farsóttadeild ári seinna og starfsemin í húsinu síðar hluti Borgarspítalans.
  • Barnadeild stofnuð við Landspítala 1957, sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi.
  • Fæðingarheimili Reykjavíkur tekið í notkun 1960 en rekstrinum hætt 1992. Um tíma eftir það rekið sem hluti kvennadeildar Landspítala.
  • Borgarspítalinn opnaður í Fossvogi 28. desember 1967 og fyrsti sjúklingurinn lagður inn. Starfsemi í Heilsuverndarstöðinni sem bundin var við smitsjúkdóma og almennar lyflækningar fluttist þá í Fossvog og varð að lyflækningadeild spítalans. 
  • Læknavarðstofan í Heilsuverndarstöðinni flyst í Borgarspítalann í Fossvogi og slysadeild tekur til starfa þar 29. maí 1968 á E2. Sjúklingar í Farsóttahúsinu flytjast í Fossvog þar sem ný geðdeild er opnuð á A2 þann 25. júní 1968.
  • Blóðsíun (blóðskilun) hefst á Landspítala 15. ágúst 1968. Kviðskilun hófst 1985.
  • Geðdeild fyrir börn tekur til starfa að Dalbraut 12 (BUGL) 1970.
  • Arnarholt verður hluti af geðdeild Borgarspítalans 1971. Starfseminni var hætt 2004.
  • Hvítabandið við Skólavörðustíg tekið í notkun sem geðdeild 4. febrúar 1970 með legudeild til 1. september 1979 en eftir það göngudeild og dagdeild fyrir geðsjúklinga. 
  • Gjörgæsludeild Borgarspítalans, sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi, tekin í notkun 25. október 1970.
  • Fyrsta hjartaþræðingin gerð 1970, ári eftir að hjartarannsóknardeild tók til starfa.
  • Bæklunarlækningadeild tók til starfa 1972.
  • Lungnarannsóknarstofa Landspítalans stofnuð 1973.
  • Endurhæfingardeild Borgarspítalans opnuð á Grensási 26. apríl 1973 þegar fyrsti sjúklingurinn kom þangað. Deildinni tilheyrði legudeild á Heilsuverndarstöðinni. 
  • Göngudeildarþjónusta heimilislækna byrjar á Landspítalanum. Hún var ótengd Læknavaktinni á Heilsuverndarstöðinni en hluti af vaktskyldu heimilislækna utan dagvinnu.
  • Starfsemi legudeildar endurhæfingar hefst 1974 á Landspítala.
  • Starfsemi hefst í Kvennadeildahúsinu við Hringbraut í mars 1974.
  • Vökudeild barnadeildar Landspítala tekur til starfa 1976. 
  • Röntgendeild Landspítala fær hjartaþræðingartæki 1975.
  • Almenn göngudeild fyrir geðsjúka opnuð í nýju húsi við Hringbraut 1979 og þar með hefst starfsemi geðdeildar á Landspítala.
  • Mælingar á loftskiptum í lungum hefjast á lungnarannsóknarstofu Landspítalans 1980.
  • Læknavaktin í Heilsuverndarstöðinni flyst árið 1980 í nýja álmu slysadeildar sem var vígð það ár
  • Hjartaskurðlækningar hefjast hér á landi á Landspítala 1986.
  • Fyrsta segulómtækið tekið í notkun á Landspítala 1992.
  • Neyðarmóttaka vegna nauðgana stofnuð í Fossvogi 1993.
  • Sjúkrahús Reykjavíkur stofnað með sameiningu Borgarspítalans og St. Jósefsspítala Landakoti 1. janúar 1996.
  • Hjúkrunar- og endurhæfingardeild sem hóf starfsemi í Heilsuverndarstöðinni í desember 1967 var lögð niður í desember 1996.
  • Ríkið tekur við rekstri og stjórnun allra deilda Sjúkrahúss Reykjavíkur frá og með 1. janúar 1999. Frá þeim tíma sameiginleg stjórnarnefnd og einn forstjóri yfir Landspítala og Sjúkrahúsi Reykjavíkur.
  • Líknardeild opnuð í Kópavogi á vegum Landspítala 1999 fyrir tilstyrk Oddfellowreglunnar á Íslandi. 
  • Landspítali og Sjúkrahús Reykjavíkur sameinast í Landspítala - háskólasjúkrahús 3. mars 2000. Stofnunin heitir nú Landspítali.
  • Offituaðgerðir með kviðsjárholstækni hefjast á Landspítala í loks ársins 2000.
  • Blóðbankinn fær blóðsöfnunarbíl frá Rauða krossi Íslands 2002.
  • Barnaspítali Hringsins formlega opnaður í nýrri byggingu 26. janúar 2003.
  • Fyrsta nýrnaígræðslan hér á landi á Landspítala 2. desember 2003. 
  • Stofnfrumuígræðsla með blóðmyndandi stofnfrumum hófst á Landspítala undir árslok 2003. 
  • Rjóður, endurhæfingar- og hjúkrunarheimili fyrir langveik börn, opnað 2003 í Kópavogi af Velferðarsjóði barna en Landspítali annast reksturinn.
  • St. Jósefsspítali og hjúkrunarheimilið Sólvangur í Hafnafirði sameinuðust í eina stofnun 1. janúar 2006.
  • Gervihjarta í fyrsta skipti grætt í sjúkling á Landspítala 9. maí 2007.
  • Í fyrsta sinn utan Norður-Ameríku voru í maí 2007 tímamótaaðgerðir á Landspítala með ígræðslu þindarraförva í tvo einstaklinga með öndunarlömun af völdum mænuskaða.
  • Landspítali og St. Jósefsspítali Hafnarfirði sameinast undir heitinu Landspítali 1. febrúar 2011.
  • Jáeindaskanni tekinn í notkun á Landspítala í september 2018
  • Fyrsta skóflustunga tekin að meðferðarkjarna Landspítala við Hringbraut 13. október 2018
  • Sjúkrahótel Landspítala tekið í notkun 6. maí 2019

Ágrip af sögu Landspítalans
1930 - 1998

Árni Björnsson,
15. janúar 1998

Landspítalinn í Reykjavík tók til starfa 20. des. 1930. Hugmyndir um sjúkrahús sem þjónaði öllu landinu voru þó ekki nýjar, því árið 1863 lagði Jón Hjaltalín þáv. landlæknir fram frumvarp á Alþingi um slíkan spítala en frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu.

Á tímabilinu frá 1863 - 1930 voru nokkur sjúkrahús rekin í Reykjavík: Sjúkrahús Reykjavíkur 1866 fram yfir aldamót, St. Jósepsspítalnn Landakoti, 1902 - 1996, Kleppsspítalinn (geðveikrahæli) 1907 sameinaður Ríkisspítölunum og síðar Landspítalanum. Franski spítalinn 1904 - 1927, Sóttvarnarhúsið, 1903 - 1954, Vífilsstaðahæli og Farsóttarhúsið, 1920 - 1969. Tilurð Landspítalans var árangur af langri og harðri baráttu þar sem konur voru í fararbroddi og hafa þær æ síðan haft frumkvæði að mörgum framkvæmdum í sjúkrahúsmálum í landinu. Í hornstein spítalans sem lagður var 15. dag júnímánaðar 1926 af Hennar hátign drottningu Alexandrinu standa eftirfarandi orð, m.a. "Hús þetta - LANDSSPÍTALINN- var reistur fyrir fje, sem íslenskar konur höfðu safnað og Alþingi veitt á fjárlögum til þess að: LÍKNA OG LÆKNA."

Gamli Landspítalinn við HringbrautByggingar fyrstu þrjá áratugina

Elsti hluti Landspítalans, sem tekinn var í notkun 1930, var teiknaður af þáv. húsameistara ríkisins, Guðjóni Samúelssyni og það tók rúml. 4 ár að byggja hann. Í byrjun voru aðeins 2 deildir á Landspítalanum, þ.e.a.s. hand- og lyflækningadeild, en fyrsta stoðdeildin, röntgendeildin tók til starfa í janúar 1931. Upphaflegur rúmafjöldi var 92, sem skiptist jafnt milli deildanna, en á handlækningadeildinni voru 12 rúmanna ætluð fæðandi konum. Þessi starfsemi var í tengslum við handlækningadeildina til ársins 1948 en þá tók 50 rúma fæðinga- og kvensjúkdómadeild til starfa í nýrri byggingu á Landspítalalóðinni. Sjúkrarúmum á Landspítalanum fjölgaði smátt og smátt og á árabilinu 1939 - 1948 töldust þau 125. Þar með er talin húð-og kynsjúkdómadeild sem tók til starfa í sérstöku húsi á Landspítalalóðinni 1934. Hún var rekin af lyflækningadeild en undir stjórn sérfræðings í húð- og kynsjúkdómum sem starfaði við þá deild frá upphafi. Bygging þessi sem í daglegu tali var nefnd Sjöttan varð síðar aðsetur meinefnafræðideildar. Barnadeild var opnuð í júní 1957 og hafði upphaflega 30 rúm til umráða í húsnæði sem þá losnaði á 3. hæð spítalans. Hús Rannsóknarstofu Háskólans var byggt 1934 og var innan veggja þess frá byrjun, líffærameinadeild, réttarlæknisfræðideild og sýklafræðideild. Blóðbankinn tók til starfa í lok árs 1953 í sérstakri byggingu við hlið Rannsóknarstofu Háskólans.

Þróun sérhæfingar á Landspítala 1930 - 1960

Auk yfirlæknanna á lyf- og handlækningadeild starfaði einn sérfræðingur frá upphafi við spítalann, sérfr. í húð- og kynsjúkdómum. Árið 1932 bætist við sérfræðingur í háls-, nef- og eyrnalækningum og 1934 sérfræðingur í augnlækningum Enginn þessara sérfræðinga var þó fastráðinn við spítalann.
Árið 1940 er ráðinn sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp að handlækningadeildinni, sem annar aðstoðarlæknir. Hann varð síðar forstöðulæknir fæðingardeildarinnar eftir stofnun hennar 1948 til æviloka. Árið 1941 var sérfræðingur í bæklunarlækningum ráðinn að handlækningadeildinni, hann hóf jafnframt
lýtalækningar á deildinni, snéri sér síðan að almennum handlækningum og varð yfirlæknir og prófessor í handlæknisfræði frá 1951 til æviloka. Árið 1946 er ráðinn að handlækningadeildinni sérfræðingur í skurðlækningum, sem hafði sérhæft sig í þvagfæraskurðlækningum.

Árið 1951 var ráðinn sérmenntaður svæfingarlæknir að handlækningadeildinni, en hann var jafnframt skipaður forstöðumaður blóðbankans en sú skipan hélst þar til sérstakur forstöðumaður var skipaður fyrir blóðbankann.

Allir voru þessir sérfræðingar upphaflega ráðnir sem aðstoðarlæknar og gengu í öll verk en sérhæfingin þróaðist smátt og smátt eftir reynslu og áhugasviðum.
Á lyflækningadeildinni var þróun í stórum dráttum svipuð og á handlækningadeildinni, þ.e.as. að læknar voru ráðnir sem aðstoðarlæknar, sem unnu þau verk sem til féllu, en tóku smátt og smátt við þeim verkefnum sem tengdust sérmenntun og áhugasviðum hvers og eins. Þannig hafði fyrsti aðstoðarlæknirinn á lyflækningadeildinni, þá orðinn sérfræðingur í lyflækningum 1930, sérstaklega áhuga á efnaskiptasjúkdómum. Árið 1935 verður aðstoðarlæknir sérfræðingur í taugasjúkdómum og síðar í meltingarsjúkdómum, en sá hinn sami varð prófessor og yfirlæknir deildarinnar frá 1948 - 1955. Árið 1944 - 1948 starfaði aðstoðarlæknir við deildina, sem hafði sérhæft sig í hjarta-, æða- og efnaskiptasjúkdómum. Fram til ársins 1960 starfa síðan á deildinni, sem aðstoðarlæknar og deildarlæknar sérfræðingar í lyflækningum, sem höfðu sérhæft sig í ýmsum undirgreinum lyflækninga, 3 prófessorar veittu deildinni forstöðu á þessu tímabili.
Barnadeild var stofnuð í Landspítalanum árið 1957 og voru 2 læknar ráðnir að henni.
Rannsóknarstofa Landspítalans var frá upphafi undir stjórn lyflæknisdeildar. Lengst af var deildin aðeins ein stofa með einum föstum starfskrafti en 1958 var stofnuð sérstök rannsóknadeild og starfskröftum fjölgað um leið.
Röntgendeild tók til starfa árið 1931 og hefur frá upphafi verið staðsett í kjallara spítalans. Auk geislagreiningar voru þar stundaðar geislalækningar og ljósalækningar. Fyrsti yfirlæknir deildarinnar lést 1948, en eftirmaður hans starfaði við deildina til 1974. Umsvif deildarinnar jukust smátt og smátt enda var hún fram til 1960 eina röntgendeildin á landinu sem gat sinnt sérhæfðum verkefnum.

Frá 1960 til 1998 Austur- og vesturálmu nýja spítalans, miðhluta og tengibyggingu var lokið 1965, ásamt ketilhúsi. Árið 1967 var lokið við anddyri nýja spítalans (kringluna) ásamt eldhúsi og gangi. Árið 1973 var lokið við tengigang í nýja spítalanum og stækkun kvensjúkdómadeildar. Geðdeild Landspítalans var byggð á árunum 1974 - 1983 Á árunum 1974 - 1976 voru byggð tvö bráðabirgðarhús fyrir rannsóknarstofu Háskólans á Landspítalalóðinni sem áttu að endast í 5 ár en standa enn.

Meiriháttar byggingarframkvæmdir síðan 1983 hafa flestar verið á einhvern hátt tengdar byggingu K, nema bygging hæðar ofaná eldhúsbyggingu, sem nú er endurhæfingardeild en henni var lokið árið 1991. Af öðrum framkvæmdum má nefna stækkun röntgendeildar og innréttingu bráðamóttöku í kjallara opnuð árið 1992. Þá hefur á síðustu árum verið innréttuð ný gjörgæsludeild á þriðju hæð gamla spítalans, skurðstofum fjölgað og þær sem fyrir voru færðar í nútíma horf. Nýlega var ákveðið að reisa nýja byggingu á landspítalalóð fyrir Barnaspítala Hringsins. Byggingin verður staðsett sunnan við hús kvennadeildar ofan gamla Kennaraskólans. Áætlað er að hefja framkvæmdir við byggingu á næsta ári og verður nýr Barnaspítali væntanlega tekinn í notkun árið 2001.


Starfsemi eftir 1960

Fram til 1960 verða engar stórvægilegar breytingar á starfsemi og þjónustu Landspítalans en síðan hefur sérdeildum fjölgað jafnt og þétt og sú þjónusta sem veitt er orðið stöðugt fjölbreyttari og er það í samræmi við þróun læknisfræði annars staðar. Framanaf tímabilinu eða fram um miðjan níunda áratuginn var lögð megináhersla á fjölgun legurúma en síðan hefur tækniþróun leitt til þess að afköst sjúkrahússins hafa aukist án þess að þörf væri á fjölgun legurúma og allra síðustu ár hefur legurúmum fækkað nokkuð.
Á lyflækningasviði eru nú starfandi: almenn lyflækningadeild, sem auk þess veitir þjónustu í innkirtlasjúkdómum og smitsjúkdómum, gigtsjúkdómadeild síðan 1969, hjarta og æðasjúkdómadeild síðan 1966, krabbameins og blóðsjúkdómadeild síðan 1961, blóðskilunardeild síðan 1968, taugasjúkdómadeild síðan 1967, Á Vífilsstaðaspítala er rekin lungnasjúkdómadeild í tengslum við lyflækningadeildina.
Á handlækningasviði starfa 2 almennar skurðdeildir, bæklunarlækningadeild síðan 1972, lýtalækningadeild með brunadeild síðan 1976, þvagfæraskurðdeild síðan 1972, lungna-, æða- og brjóstholsskurðlækningadeild síðan 1976, svæfingar og gjörgæsludeild síðan 1974, en á henni er auk gjörgæslu eftir meiriháttar skurðaðgerðir, einangrunarherbergi fyrir gjörgæslu brunasjúklinga og svo er gjörgæsla fyrir börn og fullorðna með bráða sjúkdóma sem þurfa gjörgæslu.
Bæði á lyflækninga- og handlækningasviði eru reknar göngudeildir og bráðamóttaka var opnuð við spítalann árið 1992.
Á barnadeild (Barnaspítala Hringsins) er, auk þjónustu fyrir almenna barnasjúkdóma, veitt sérfræðiþjónusta í barnaskurðlækningum, lýtalækningum barna , krabbameinslækningum barna og hjartasjúkdómum barna.
Á kvensjúkdóma og fæðingardeild er auk almennra kvensjúkdómalækninga og fæðingarhjálpar reknar krabbameinslækningar auk deildar fyrir gervifrjóvgun. Tengd deildinni er mjög virk göngudeildarstarfsemi.
Á geðsjúkdómadeild er þjónusta fyrir alla geðsjúklinga, sérdeild er fyrir áfengissjúklinga með sérstakri göngudeild. Á deildinni starfa auk lækna og hjúkrunarfræðinga, félagsfræðingar og sálfræðingar. Í tengslum við geðdeildina en utan spítalans er m.a. rekin barnageðdeild.
Öldrunarlækningadeild var stofnuð í tengslum við Landspítalann í Hátúni 10b árið 1975, hefur starfað þar síðan en var lögð niður 1997 og starfsemin flutt á Landakotsspítala, sem nú er hluti af Sjúkrahúsi Reykjavíkur.
Augndeild var flutt af Landakotsspítala á árinu 1997 og með henni fluttist kennarastóll í augnlækningum til Landspítalans.

Rannsóknarstofur

Auk almennra rannsóknardeilda í lífefna og lífeðlisfræði sem reknar eru í tengslum við daglaga starfsemi spítalans, er Rannsóknarstofa Háskólans í meinafræði, rannsóknarstofa í sýklafræði, blóðmeinafræði, ónæmisfræði, auk ísótópastofu. Á vegum þessara rannsóknarstofa, blóðbankans og einstakra kliniskra deilda eru reknar rannsóknir á erfðatengdum sjúkdómum.

Hjúkrun

Hjúkrunarnámið var í upphafi fyrst og fremst starfsnám, sem var skipulagt og rekið af forstöðukonu spítalans, en hún var jafnframt skólastjóri Hjúkrunarskólans til ársins 1948, en læknar kenndu einstakar námsgreinar, aðrar en hjúkrunina. Hjúkrunarskólinn var staðsettur í Landspítalanum til1956 en flutti þá í núverandi húsnæði. Námið hefur þróast í að verða nám á háskólastigi allt frá 1973 og er nú sérstök deild í H.Í., þar sem víðtæk rannsóknarstarfsemi í hjúkrunarfræðum er stunduð með hjúkrunarnáminu. Þessi aukna menntun hjúkrunarfræðinga hefur einnig leitt til aukinnar sérhæfingar innan stéttarinnar og nú starfa sérhæfðir hjúkrunarfræðingar á flestum sérdeildum. Sjúkraliðar hafa verið menntaðir í tengslum við Landspítalann þar til Sjúkraliðaskóli Íslands var stofnaður árið 1975 og nú starfa sjúkraliðar á nær öllum deildum undir stjórn hjúkrunarforstjóra.


Endurhæfing

Endurhæfingu á Landspítalanum má rekja allt aftur til ársins 1931 en þá var ráðin nuddkona til spítalans. Endurhæfingardeild var innréttuð í kjallara spítalans1968 og var þar rekin alhliða endurhæfingarþjónusta fyrir allar deildir spítalans. Í lok árs 1991 flutti endurhæfingardeildin á hæð ofaná eldhúsbyggingu, sem hefur gefið möguleika á betri og fjölbreyttari þjónustu.

Kennsla læknanema og vísindastarfssemi

Landspítalinn hefur frá upphafi verið aðalkennslu- og háskólaspítali landsins. Við hann og starfsemi hans eru tengdar nær allar stöður prófessora við læknadeild H.Í. sem og aðrar kennarastöður, í þeim sérgreinum sem þar eru stundaðar. Mestöll kennsla læknastúdenta bæði klinisk og bókleg, eftir fyrsta hluta, fer fram á Landspítalanum. Vísindarannsóknum bæði í tengslum við kennsluna og í starfi einstakra lækna hefur fjölgað jafnt og þétt og árlega birtist fjöldi vísindagreina, bæði í innlendum og erlendum vísindaritum, sem unnar eru úr efniviði spítalans.

Bókasafn og önnur stoðstarfsemi

Vísir að læknabókasafni var stofnaður í Landspítalanum 1968. Árið 1986 fluttist bókasafnið í hluta af hjúkrunarskólanum og hefur síðan aukið starfsemi sína þar smátt og smátt. Bókasafnið veitir nú alhliða þjónustu fyrir starfsfólk spítalans og aðra þá er tengjast fræða- og rannsóknarstarfsemi í læknisfræði.
Starfsemi í eldhúsi Landspítalans hófst með stofnun hans, í þröngu húsnæði. Árið 1973 fluttist það í nýbyggt húsnæði í eldhúsbyggingu. Eldhúsið þjónar nú matarþörf, þar með sérþörfum, alls starfsfólks og sjúklinga spítalans auk þess sem þaðan er fluttur matur til allra stofnana utan Landspítalalóðar sem tengjast starfsemi spítalans.
Eðlisfræði og tæknideild var stofnsett við Landspítalann 1974. Deildin þjónar öllum deildum spítalans í öllu er varðar tækniþjónustu, s.s. ljósmyndun, viðhaldi og viðgerðum á tækjakosti spítalans, o.fl.

Landakotsspítali á sér langa og merka sögu. Árið 1896 komu fjórar St. Jósefssystur til Íslands til að sinna sjúkum. St. Jósefsspítali var síðan byggður 1902 m.a. fyrir fé sem safnast hafði í Frakklandi að frumkvæði Jóns Sveinssonar (Nonna).  Spítalinn var formlega tekinn í notkun 16. október 1902.

Að byggingu St. Jósefsspítala stóðu St. Jósefssystur. Í upphafi var St. Jósefsspítali eini kennsluspítali landsins og var hann alla tíð virk menntastofnun fyrir heilbrigðisstéttir. Á sjúkrahúsinu var sinnt bráðaþjónustu og á seinni árum var einnig veruleg dag- og göngudeildarþjónusta. Árið 1976 seldu St. Jósefssystur íslenska ríkinu sjúkrahúsið og var það rekið sem sjálfseignarstofnun til ársloka 1995. Þá sameinaðist St. Jósefsspítali Borgarspítalanum og til varð Sjúkrahús Reykjavíkur.

Í upphafi voru 40 sjúkrarúm í elstu byggingunni en hún stendur ekki lengur. Spítalinn var síðan stækkaður, fyrst með vestur álmunni árið 1935 og síðan austur álmunni 1962, en þá voru sjúkrarúm orðin 195.

St. Jósefssystur unnu mikið brautryðjendastarf í þágu sjúkra á Íslandi og fyrir það á þjóðin þeim skuld að gjalda. Árið 1976 urðu síðan breytingar á rekstrarfyrirkomulagi spítalans þegar íslenska ríkið keypti hann af St. Jósefssystrum og Sjálfseignarstofnun St. Jósefsspítala tók við starfseminni.

Öldrunarlækningadeildir Landspítalans í Hátúni: Fyrsta öldrunarlækningadeildin í Hátúni var opnuð í október 1975 og ári síðar tvær deildir til viðbótar.  Nokkrum árum síðar opnaði dagspítali og möttökudeild. Árið 1997 var starfsemin flutt á Landakot ef frá er skilin öldrunarmatsdeild, sem flutti á Landspítalann við Hringbraut. 

Borgarspítalinn: Vegna skorts á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða í Reykjavík var hafin vinna við B-álmu spítalans árið 1977. Fyrsta deildin opnaði 1983 en deildirnar urðu þrjár.

Árið 1994 var öldrunarlækningadeild Borgarspítalans formlega stofnuð og lögð áhersla á hugmyndafræði öldrunarlækninga og teymisvinnu.

Þáttaskil urðu í janúar 1996, þegar St. Jósefsspítali og Borgarspítalinn sameinuðust undir nafninu Sjúkrahús Reykjavíkur (SHR).  Þá varð til öldrunarsvið SHR. Var sú stefna mótuð að á Landakoti yrði sérhæfð sjúkrahússþjónusta fyrir aldraða. Áfram var ein bráðaöldrunarlækningadeild á Borgarspítala, en aðrar deildir Borgarspítalans voru fluttar á Landakot.  Jafnframt voru öldrunarlækningadeildir Landspítalans í Hátúni fluttar á Landakoti, allar nema ein sem flutti að Hringbraut. Öldrunardeildir Hafnarbúða (opnuð 1977) og Hvítabandsins (opnuð 1982) fluttu að Landakoti árið 1997.  Frá árinu 1996 var öldrunarþjónusta sjúkrahúsanna starfrækt í náinni samvinnu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítalans. 


Landspítali - háskólasjúkrahús var stofnaður 16.maí 2000 við samruna Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítalans.  Við þessa sameiningu varð til nýtt öldrunarsvið með starfsemi á Landakoti og bráðaöldrunarlækningadeild B4 í Fossvogi. Í september 2001 flutti deild fyrir lungnasjúka frá Vífilsstöðum og í október 2001 var formlega opnuð níu rúma líknardeild á Landakoti. Henni var síðar lokað og aftur opnaðar öldrunardeildir á Vífilsstöðum. Starfsemi öldrunarlækningadeilda tilheyra flæðisviði Landspítala.

 Ljósmynd 1860

1860

 
Ljósmynd 1896 systurnar
Systurnar 1896
 

 Ljósmynd 1897

Árið 1896 komu fjórar St. Jósefssystur til Íslands til að sinna sjúkum, 
þessi ljósmynd var tekin í gömlu kirkjunni ári síðar.

1897

 

 Ljósmynd 1935

St. Jósefsspítali Landakoti ljósmyndin er tekin einhverntíma eftir 1935, en þá var vesturálman sem er til vinstri á myndinni byggð. (ljósmyndari óþekktur) 

 1935

 

 

 Læknar St. Jósefsspítala

Læknar St. Jósefsspítala

 

 Ljósmynd 1942-44

Þessi ljósmynd var tekin einhverntíma á árunum 1942-44

1942 - 1944

 
 
Ljósmynd 1989 - læknaráð
Læknaráð 1989

Fremsta röð frá vinstri:
Jóhann Lárus Jónasson, Þorsteinn Gíslason, Þorkell Bjarnason, Viðar Hjartarson, Ólafur Örn Arnarson, Sigurður Björnsson, Sævar Halldórsson, Einar Stefánsson
Önnur röð: Jón Högnason, Niels Chr. Nielsen, Sigurgeir Kjartanson, Friðbert Jónasson, Guðmundur Viggósson, Óli Björn Hannesson, Hörður Þorleifsson, Tómas Árni Jónasson

 

 

 

 

 

 

 

 Ljósmynd 2001

Ljósmynd 2001

 

 
 
 
 Ljósmynd 2002 
Landakot 2002


Vífilsstaðaspítali var opnaður sem spítali fyrir berklasjúklinga árið 1910.

Vífilsstaðaspítali var hannaður af Rögnvaldi Ólafssyni, einum af stofnendum Verkfræðingafélags Íslands.

Lokið var við húsið á 16 mánuðum.

Upp úr 1970 var farið að taka við öndunarfærasjúklingum á Vífilsstöðum og meðferðardeild fyrir áfengissjúklinga sem tilheyrði Kleppsspítala starfaði þar frá 1976 til 2002.

Hrafnista hefur rekið hjúkrunarheimili fyrir aldraða á Vífilsstöðum frá ársbyrjun 2004. Flestir sem dvelja þar koma þangað af öldrunardeildum Landspítala.  

Upphafið af rekstri Ríkisspítala má rekja til ársins 1907 en þá hófst starfsemi á Kleppsspítala. Þremur árum síðar var Vífilsstaðaspítali tekinn í notkun. Landspítalinn tók til starfa 1930 en hann var frá upphafi stærsta sjúkrahús landsins og aðalkennslustofnun læknadeildar Háskóla Íslands.

Árið 1935 var starfsemi allra ríkisrekinna sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana sameinuð undir einni stjórn og rekstraraðila sem hét Ríkisspítalar. Þar á meðal voru:

  • Landspítalinn, Kleppsspítali
  • Vífilsstaðaspítali
  • Rannsóknastofa Háskólans og
  • Kristnesspítali í Eyjafirði

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri tók við rekstri Kristnesspítala. Á hinum stöðunum voru reknar deildir sem hluti af Landspítalanum.

Seinna bættust við fleiri deildir á Landspítalanum.

Ríkisspítalar hverfa úr lögum með gildistöku laga um heilbrigðisþjónustu 1. september 2007.

Borgarspítalinn, sem var stofnaður og rekinn af Reykjavíkurborg, var formlega opnaður 28. desember 1967 þegar fyrsta sjúkradeildin tók til starfa. Röntgendeild, saumastofa, ræsting, lín og fleiri deildir höfðu þó hafið starf nokkru fyrr.

Spítalinn tók strax virkan þátt í menntun heilbrigðisstétta og má í því sambandi nefna að Borgarspítalinn starfrækti sjúkraliðaskóla frá 1966 og þar til Sjúkraliðaskóli Íslands tók við þeirri fræðslu.

Borgarspítalinn varð strax aðal bráða- og slysasjúkrahús landsins og veitti almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu. 

Sögu Borgarspítalans lauk með sameiningu hans og St. Jósefsspítala Landakoti 1996 í Sjúkrahús Reykjavíkur og árið 2000 þegar það sameinaðist Landspítalanum í Landspítala - háskólasjúkrahús sem nú heitir Landspítali.

Í Læknablaðinu, 11. tölublaði 2014, er grein um sögu Borgarspítalans

Sjúkrahús Reykjavíkur varð til um áramótin 1995-1996 við samruna Borgarspítalans og St. Jósefsspítala Landakoti og var rekið af Reykjavíkurborg til ársloka 1998.

Sjúkrahús Reykjavíkur var helsta bráðasjúkrahús landsins og veitti slysa- og bráðaþjónustu allan sólarhringinn. Sjúkrahúsið rak starfsemi í Fossvogi á Landakoti, Grensási, Arnarholti á Kjalarnesi og Hvítabandinu við Skólavörðustíg.  

Árið 2000 sameinuðust Sjúkrahús Reykjavíkur og Landspítalinn í Landspítala - háskólasjúkrahús sem nú heitir Landspítali.

Í Reykjavík voru tveir spítalar frá 1. janúar 1996, Ríkisspítalar (Landspítalinn) og Sjúkrahús Reykjavíkur. Sá síðarnefndi var stofnaður þá með sameiningu Borgarspítalans og St. Jósefsspítala Landakoti. Landspítalinn var stofnaður 1930. Honum tilheyrðu meðal annars gamalgrónar sjúkrastofnanir á höfuðborgarsvæðinu svo sem Kleppsspítali og Vífilsstaðaspítali, svo og Arnarholt og Gunnarsholt.

Landspítali - háskólasjúkrahús verður til

Landspítali - háskólasjúkrahús varð til við sameiningu Ríkisspítala (Landspítalans) og Sjúkrahúss Reykjavíkur snemma árs 2000. Ríkið hafði tekið við rekstri Sjúkrahúss Reykjavíkur 1. janúar 1999, samkvæmt samkomulagi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, fjármálaráðherra og borgarstjórans í Reykjavík frá 17. desember 1998. Það yrði samt í eitt ár rekið með líku sniði og áður.

Stjórnir og framkvæmdastjórnir sjúkrahúsanna sátu þannig áfram í eitt ár. Hins vegar var ráðinn einn forstjóri yfir þau bæði, Magnús Pétursson ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Hann var skipaður forstjóri spítalanna 1. janúar 1999, sem voru áfram sjálfstæðar stofnanir en samvinna þeirra aukin.

Umboð stjórna sjúkrahúsanna rann út í árslok 1999 og kaus Alþingi því sameiginlega stjórnarnefnd sjúkrahúsanna, Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur, 21. desember 1999. Hún var undir formennsku Guðnýjar Sverrisdóttur sveitarstjóra á Grenivík.

Í framhaldi af þessum ákvörðunum fól heilbrigðisráðherra stjórnarnefnd og forstjóra að semja tillögur að nýju skipuriti fyrir sjúkrahúsin og afhenda heilbrigðisráðuneytinu eigi síðar en 18. febrúar 2000.

Á fundi 16. janúar 2000 ákvað stjórnarnefnd sjúkrahúsanna hvernig staðið yrði að gerð nýs stjórnskipulags. Í meginatriðum fólst ákvörðunin í því að einfalda stjórnkerfi þeirra með því að skipa eina framkvæmdastjórn og gert var ráð fyrir einum lækningaforstjóra og einum hjúkrunarforstjóra. Forstjóra og formanni stjórnarnefndar var falið að gera tillögu að stjórnskipulaginu í heild, þar á meðal um stærð framkvæmdastjórnar og verkaskiptingu innan hennar.

Stjórnarnefnd samþykkti á fundi sínum 2. febrúar 2000 að óska eftir því við heilbrigðisráðherra að hefja undirbúning að sameiningu sjúkrahúsanna. Það var gert formlega með bréfi, dagsettu 3. febrúar 2000.

Á fundi 16. febrúar 2000 samþykkti stjórnarnefndin tillögu að stjórnskipulagi nýs sjúkrahúss og sendi heilbrigðisráðherra samdægurs með greinargerð. Henni fylgdi einnig viljayfirlýsing milli Háskóla Íslands og sjúkrahúsanna í Reykjavík.

Að fengnum tillögum nefndarinnar um stjórnskipulag nýrrar stofnunar tilkynnti heilbrigðisráðherra 18. febrúar 2000 að sjúkrahúsin í Reykjavík yrðu sameinuð. Sameiningin var innsigluð 3. mars með reglugerð heilbrigðisráðherra nr. 127/2000 um sameiningu heilbrigðisstofnana sem var birt og tók gildi samdægurs. Reglugerðin fjallar um sameiningu Landspítalans og Sjúkrahúss Reykjavíkur í Landspítala - háskólasjúkrahús.

Stjórnarnefnd gerði tillögu um nafnið Landspítali - háskólasjúkrahús til ráðuneytisins. Í nafninu felst sú áhersla sem lögð var á hlutverk nýrrar stofnunar sem háskólasjúkrahúss.

Stjórnarnefnd ákvað jafnframt að kennimerki Sjúkrahúss Reykjavíkur yrði merki Landspítala - háskólasjúkrahúss.

Við hönnun merkisins hafði verið haft í huga að það túlkaði starfsemi og staðsetningu sjúkrahússins á einfaldan hátt. Fjögur form sem tákna landshluta mynda hvítan sjúkrakross. Lögun þeirra á að tákna umhyggju og skjól. Litir merkisins tákna lífið og liti landsins.

Stofnfundurinn í Borgarleikhúsinu

Formlegur árs- og stofnfundur Landspítala - háskólasjúkrahúss var haldinn í Borgarleikhúsinu 16. maí 2000 að viðstöddum fjölda gesta. Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra var meðal þeirra og flutti ávarp.

Samkoman var stórglæsileg, sviðið fagurlega skreytt og fjölbreytt dagskráratriði þar sem saman var blandað ávörpum, tónlist, upplestri og hefðbundnum ársfundarstörfum.

Starfsfólk spítalans stofnaði kór í tilefni dagsins og söng „Vorvísur á sameiningardögum “ eftir Pál Ásmundsson lækni. Ragnheiður Haraldsdóttir skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu var kynnir og rifjaði jafnframt upp brot úr spítalasögunni. Opnuð var ný heimasíða spítalans.

Tæknimenn stofnunarinnar sáu um útvarp frá samkomunni, samkvæmt leyfi sem Póst- og fjarskiptastofnun veitti fyrir hljóðvarpsrekstri vegna fundarins og beina útsendingu á Netinu. Þeir tóku stofnfundinn auk þess upp á myndband sem var sýnt í sjónvarpskerfum spítalans.

Fundinum lauk með móttöku í anddyri leikhússins. 

Landspítali

Þegar sett voru lög um heilbrigðisþjónustu 2007 nr. 40 27. mars var nafni spítalans breytt á þann hátt að seinni hlutinn féll út, þ.e. orðið háskólasjúkrahús. Stofnunin heitir samkvæmt lögunum Landspítali. Með gildistöku nýju heilbrigðislaganna breyttist stjórnkerfi spítalans.  Það fólst meðal annars í því að stjórnarnefnd var lögð niður en hún hafði verið í stjórnskipulagi landssjúkrahússins frá árinu 1935.  Síðasti fundur stjórnarnefndinnar, undir forystu Birnu Kr. Svavardóttur hjúkrunarforstjóra á Eir hjúkrunarheimili, var haldinn 30. ágúst 2007.

Um stöðu og hlutverk Landspítala er fjallað í heilbrigðislögum og reglugerð:

Ráðgjafarnefnd starfaði í fjögur ár

Árið 2018 skipaði heilbrigðisráðherra níu manns og jafnmarga til vara í ráðgjafarnefnd Landspítala til fjögurra ára í senn. Hlutverk nefndarinnar var að vera forstjóra og framkvæmdastjórn til ráðgjafar og álits um þjónustu, starfsemi og rekstur spítalans. Nefndinni var ætlað að fjalla um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir spítalans og langtímastefnu hans. Nefndin skyldi m.a. skipuð fulltrúum notenda þjónustu spítalans.  

Stjórn Landspítala skipuð árið 2022

Með breytingu á heilbrigðislögum 9. júní 2022 var ráðgjafarnefndin sett til hliðar en Landspítala sett stjórn. Heilbrigðisráðherra skipar fimm menn í stjórnina, og tvo til vara, til tveggja ára í senn. Jafnframt skipar ráðherra tvo áheyrarfulltrúa úr hópi starfsmanna Landspítala með málfrelsi og tillögurétt, án atkvæðisréttar.
Stjórn Landspítala 2022-2024.

Samstarf Landspítala og Háskóla Íslands

Landspítali og Háskóli Íslands skulu gera með sér samning um samstarf sem skal meðal annars kveða á um reglulega samráðsfundi forstjóra Landspítala og háskólarektors. Landspítali og Háskóli Íslands skulu setja verklagsreglur um málefni starfsmanna sem hafa starfsskyldur gagnvart báðum stofnunum. Reglurnar skulu staðfestar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum.

Aðild Landspítala að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum

Landspítala er heimilt með samþykki ráðherra að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum sem eru hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með takmarkaða ábyrgð og stunda framleiðslu og sölu í því skyni að hagnýta og þróa niðurstöður rannsókna sem spítalinn vinnur að hverju sinni. Forstjóri Landspítala fer með eignarhlut spítalans í slíkum fyrirtækjum. 

Forstjórar Landspítala frá 1999

  • Runólfur Pálsson, sérfræðingur í lyflækningum og nýrnalækningum á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, frá 1. mars 2022
  • Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstöðumaður meðferðarsviðs á Landspítala, frá 11. október 2021 til 28. febrúar 2022 (tímabundin ráðning).
  • Páll Matthíasson, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala, frá 30. september 2013 til 10. október 2021.
  • Björn Zoëga, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, frá 1. október 2010 til 30. september 2013.
  • Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Akers háskólasjúkrahússins í Osló,  frá 1. september 2008 til 1. júlí 2010.
  • Anna Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar og Björn Zoëga, framkvæmdastjóri lækninga, á Landspítala gegndu sameiginlega starfi forstjóra frá 1. apríl 2008 til 9. október 2008.
  • Jóhannes Gunnarsson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala - háskólasjúkrahúsi, frá 1. september 2004 í 8 mánaða námsleyfi Magnúsar Péturssonar.
  • Magnús Pétursson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, frá 1. maí 1999 til 31. mars 2008. Frá 1999 og fram að sameiningu Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur var Magnús forstjóri beggja sjúkrahúsanna og eftir það hins sameinaða sjúkrahúss.