Leit
Loka

Hagnýtar upplýsingar

Markmið hennar er að fyrirbyggja og meðhöndla einkenni sjúkdóms og sjúkdómsmeðferðar eins snemma og auðið er.

Það á einnig við um andleg, sálræn og félagsleg vandamál sem tengjast veikindunum.

Líknarmeðferð er hægt að veita frá greiningu samhliða annarri meðferð. Áhersla á líknarmeðferð ætti að aukast eftir því sem sjúkdómur versnar og vera mest við lífslok.

Í líknarmeðferð er áhersla lögð á:

  • Samræður um stöðu sjúkdóms, hvert stefna á í meðferð og óskir sjúklings

  • Að meta líðan og þarfir sjúklings og fjölskyldu

  • Að fyrirbyggja og meðhöndla einkenni

  • Að styðja sjúkling og fjölskyldu við að takast á við breyttar aðstæður

  • Samstarf heilbrigðisstarfsfólks

Allir heilbrigðisstarfsmenn sem sinna sjúklingum með lífsógnandi sjúkdóma geta veitt líknarmeðferð hvar sem þeir starfa.

Til er sérhæfð líknarþjónusta sem er ætluð sjúklingum með versnandi sjúkdóma og sem eru með erfið, fjölþætt og flókin einkenni.

Sú þjónusta er veitt af líknarráðgjafateymi Landspítala, sérhæfðri heimaþjónustu s.s. heimahlynningu Landspítala og hjúkrunar- og ráðgjafarþjónustu Karitas og á líknardeild í Kópavogi.

Mörgum getur gagnast þessi sérhæfða þjónusta tímabundið til að ná tökum á einkennum og/eða erfiðleikum vegna veikinda.

Góð samvinna milli sjúklings, fjölskyldu og heilbrigðisstarfsfólks er mikilvæg til að takast á við veikindin.

Meðferð verður árangursríkari ef þú ert vel upplýst/ur, tekur þátt í ákvörðunum og ræðir opinskátt við heilbrigðisstarfsfólk.

Þú getur:

  • Rætt við lækni um markmið meðferðar, áherslur þínar og óskir
  • Látið lækni eða hjúkrunarfræðing vita af einkennum sem þú hefur, s.s. mæði, þreytu, verkjum, þunglyndi, kvíða, svefntruflunum, hægða- eða þvagvandamálum
  • Rætt við lækni eða hjúkrunarfræðing um stuðning frá viðeigandi aðilum, s.s. félagsráðgjafa, sálfræðingi, geðlækni eða presti
  • Óskað eftir að fjölskylda þín fái upplýsingar og stuðning
  • Óskað eftir því að þeir sem sinna þér ræði og vinni saman
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?