Leit
Loka
krabbameinslyfjamedferd_forsidan.jpg (124568 bytes)

Helstu lyf og virkni þeirra

BaxterSendoxan - Þetta lyf er notað í meðferð við ýmsum tegundum krabbameina. Hjá börnum má nefna hvítblæði, krabbamein í eitlum, beinum, bandvef, nýrum og við taugakímsæxli (neuroblastom).

Hvernig lítur lyfið út og hvernig er það gefið?
Cyclophosphamid er til bæði sem hylki til inntöku og vökvi. Mælt er með því að hylkin séu tekin að morgni með máltíð. Lyfjavökvinn er blandaður í 1/2-1 líter af vökva og gefinn í æð á ákveðnum tíma.

Algengustu aukaverkanir

 • Það er einstaklingsbundið og háð skammtastærð hversu miklar aukaverkanir geta orðið
 • Lyfið getur valdið fækkun á hvítum blóðkornum sem oftast nær hámarki 8-14 dögum eftir lyfjagjöf
 • Við háa skammta getur orðið fækkun á rauðum blóðkornum og blóðflögum. Blóðprufur eru því teknar reglulega
 • Barnið getur fundið fyrir ógleði og/eða uppköstum sem geta byrjað 2-10 tímum eftir lyfjagjöf en hægt að fyrirbyggja með notkun lyfja
 • Einnig getur barnið fundið fyrir lystarleysi og breyttu bragðskyni
 • Hár getur þynnst og orðið líflausara
 • Hármissir getur átt sér stað
 • Breytingar sjást á nöglum og þær geta jafnvel brotnað af að hluta til. Þær vaxa aftur að meðferð lokinni

Barnið getur fengið blöðrubólgu án þess að um sýkingu sé að ræða. Einkenni hennar eru sviði, tíð þvaglát og jafnvel blóð í þvagi.

Lyfið Mesna er blöðruverndandi lyf og það er gefið með Cyclophosphamid til fyrirbyggingar.

Alltaf er gefinn vökvi fyrir og eftir lyfjagjöf og fylgst er með þvagútskilnaði. 

Þurrks getur orðið vart í öllum slímhimnum líkamans, svo sem í augum, munni, meltingarvegi og leggöngum.

Til eru ýmsar tegundir stíla og krema til hjálpar. Truflun getur orðið á tíðablæðingum og þær jafnvel hætt.

Lyfið getur valdið tímabundinni eða langvarandi ófrjósemi og minnkaðri kynlöngun og kyngetu.

Unnið af Bergþóru Jóhannsdóttur og Kristínu Alexíusdóttur hjúkrunarfræðingum, 1999. Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið janúar 2013. 
Cytarabine

Cytarabine, Cytosar, Ara-C, er notað gegn bráðu- og langvinnu hvítblæði.

Hvernig lítur lyfið út og hvernig er það gefið?
Cytarabine, Cytosar, Ara-C, getur verið í vökva- eða duftformi og er þá leyst upp í vökva. Lyfið er hægt að gefa undir húð, í æð og í mænugöng. Þegar lyfið er gefið í æð fer það eftir skammtastærð hvernig það er gefið. Það er látið renna inn á ákveðnum tíma, oft nokkra daga í röð. 

 

Algengustu aukaverkanir

 • Það er einstaklingsbundið og háð skammtastærð, og því hvernig lyfið er gefið hversu miklar aukaverkanir geta orðið
 • Lyfið veldur tímabundinni fækkun á hvítum blóðkornum, rauðum blóðkornum og blóðflögum
 • Búast má við fækkun á hvítum blóðkornum á 7-9 degi, sem nær hámarki á 15-24 degi en jafnar sig á næstu 10 dögum
 • Þegar hvítu blóðkornunum fækkar má búast við hita og oft fylgja særindi í munnslímhúð og niðurgangur, ásamt lystarleysi, bragðskynsbreytingum og þyngdartapi
 • Lyfið getur valdið hármissi, oftast 2-3 vikum eftir fyrstu lyfjagjöf
 • Hárið vex aftur að meðferð lokinni
 • Ógleði og uppköst eru algengar aukaverkanir og því mikilvægt að taka lyf til varnar ógleði til þess að fyrirbyggja það
 • Þegar lyfið er gefið í mænugöngin eru algengustu aukaverkanir ógleði, uppköst, hiti og höfuðverkur
 • Þær eru þó yfirleitt mjög vægar og auðvelt að meðhöndla

Sjaldgæfar aukaverkanir

Ofnæmiseinkenni geta komið fram, t.d. hiti, liðverkir og útbrot í lófum og á iljum, bringu og hálsi. Útbrotin eru tímabundin.

Einkenni frá taugakerfi geta komið fyrir, sérstaklega við háskammtameðferð, t.d. svimi, tvísýni og mikill slappleiki og syfja.

Þessi einkenni ganga oftast til baka. Særindi, bólga og eymsli í augum geta komið fyrir í háskammtameðferð, en það er reynt að fyrirbyggja með notkun augndropa (sterar) á 2 tíma fresti meðan á lyfjagjöfinni stendur og í nokkra daga á eftir.

 

Unnið afBergþóru Jóhannsdóttur og Kristínu Alexíusdóttur hjúkrunarfræðingum, 1999.Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu ÓlafíuSigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið í janúar 2013.

Daunorubicin

Daunorubicin, Cerubidin, er aðallega gefið í meðferð við bráðahvítblæði.

Hvernig lítur lyfið út og hvernig er það gefið? Daunorubicin, Cerubidin er rauðleitur vökvi sem er gefinn í æð. 

 

Algengustu aukaverkanir

 • Það er einstaklingsbundið og háð skammtastærð hversu miklar aukaverkanir geta orðið
 • Lyfið veldur fækkun á hvítum og rauðum blóðkornum og blóðflögum 1-2 vikum eftir lyfjameðferð
 • Því þarf að fylgjast vel með blóðprufum og einkennum um sýkingar og blæðingar
 • Hármissir á sér stað eftir 2-3 vikur frá byrjun meðferðar og á það oft við um öll líkamshár
 • Hárið vex aftur eftir að meðferð lýkur
 • Húðútbrot og litabreytingar á nöglum á höndum og fótum geta komið fyrir
 • Barnið getur fengið ógleði og /eða uppköst á fyrsta sólarhring lyfjagjafar
 • Þetta er oftast hægt að fyrirbyggja með notkun lyfja
 • Þar sem lyfið er rautt getur þvag verið ljósrautt í allt að 48 tíma eftir lyfjagjöfina
 • Lyfið veldur stundum særindum í munnslímhúð og niðurgangi
 • Lyfið getur valdið tímabundinni eða langvarandi ófrjósemi og haft áhrif á kynlífsgetu og löngun.
Unnið af Bergþóru Jóhannsdóttur og Kristínu Alexíusdóttur, hjúkrunarfræðingum, 1999. Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið janúar 2013.
Doxorubicin

Adriamycin, Doxorubin er notað til meðferðar í mörgum tegundum krabbameina. Hjá börnum er það m.a. notað við bráðahvítblæði og eitlakrabbameini. Lyfið er oft notað með öðrum tegundum krabbameinslyfja.

Hvernig lítur lyfið út og hvernig er það gefið? Adriamycin er rauðleitur vökvi. Lyfið er ýmist gefið með sprautu í æð eða blandað í vökva og gefið í æð og látið renna inn á ákveðnum tíma. Þar sem lyfið er mjög ertandi fyrir líkamsvefi ef það fer út fyrir æð, er mjög mikilvægt að þú látir hjúkrunarfræðing strax vita ef barnið finnur fyrir sviða eða sársauka á stungustað.

Algengustu aukaverkanir

 • Það er einstaklingsbundið og háð skammtastærð hversu miklar aukaverkanir geta orðið
 • Fækkun á hvítum blóðkornum getur orðið mest 10-14 dögum eftir lyfjameðferð sem fjölgar svo aftur á álíka löngum tíma
 • Þegar líða tekur á meðferðina getur rauðum blóðkornum og blóðflögum einnig fækkað
 • Barnið getur fundið fyrir ógleði og /eða uppköstum 1-3 klst. eftir lyfjagjöfina og stundum vara einkennin í nokkra daga
 • Oftast er hægt að fyrirbyggja ógleði og uppköst með notkun lyfja
 • Sumir mega búast við að missa hárið um 2 vikum eftir fyrstu lyfjagjöf og þetta getur stundum átt við um öll líkamshár
 • Hárið vex aftur að meðferð lokinni
 • Þvagið getur litast rautt í allt að 48 klukkustundir eftir lyfjagjöfina


Sjaldgæfar aukaverkanir

Með mikilli notkun lyfsins getur það haft áhrif á hjartavöðva. Þess vegna þarf stundum að gera rannsóknir varðandi hjartastarfsemi.

Sumir finna fyrir særindum í munni og óþægindum í slímhúðum sérstaklega þegar hvítum blóðkornunum fækkar.

Unnið af Bergþóru Jóhannsdóttur og Kristínu Alexíusdóttur, hjúkrunarfræðingum, 1999. Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið janúar 2013.

 

Etoposide

Etoposide, Vepesid, VP 16, er notað til meðhöndlunar á mörgum tegundum krabbameina. Hjá börnum má nefna krabbamein í beini, nýrum og við taugakímsæxli (neuroblastom).


Hvernig lítur lyfið út og hvernig er það gefið?
Etoposide er til bæði sem hylki ætluð til inntöku og vökvi sem gefinn er, blandaður öðrum vökva, hægt í æð á a.m.k 30 mín. Hylkin eru stór og má taka allan lyfjaskammtinn í einu. Hylkin þarf að geyma í kæli.

Algengustu aukaverkanir

 • Það er einstaklingsbundið og háð skammtastærð hversu miklar aukaverkanir geta orðið
 • Búast við fækkun á hvítum blóðkornum 7-14 dögum eftir lyfjameðferð og blóðflögum 9-16 dögum eftir lyfjameðferð
 • Blóðkornin eru yfirleitt komin í eðlilegt jafnvægi 20 dögum síðar
 • Barnið getur fundið fyrir vægri ógleði og fengið uppköst en oftast er hægt að fyrirbyggja mestu einkennin með lyfjum sem eru gefin fyrir, á meðan og á eftir lyfjameðferð
 • Hármissir er algengur en hárið vex aftur að lokinni meðferð
 • Barnið getur fundið málmbragð í munninum meðan lyfið er að renna inn í æðina
 • Gott er að sjúga eitthvað bragðsterkt á meðan, það deyfir bragðið

Sjaldgæfari aukaverkanir: Niðurgangur og minnkuð matarlyst getur leitt til þyngdartaps.

Sumir fá særindi og/eða bólgur í munnslímhúð þegar hvítum blóðkornum fækkar.

Ofnæmiseinkenni eins og hiti, hrollur, hraður púls og öndunarörðugleikar koma einstaka sinnum fyrir við lyfjagjöfina

Unnið af Bergþóru Jóhannsdóttur og Kristínu Alexíusdóttur, hjúkrunarfræðingum, 1999. Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið janúar 2013.
Ifosfamide

Ifosfamide, IPEX, Holoxan, er notað til meðferðar á mörgum tegundum krabbameina. Hjá börnum má nefna hvítblæði, krabbamein í nýrum, bandvef og beinum.

Hvernig lítur lyfið út og hvernig er það gefið?
Ifosfamide er í vökvaformi. Það er gefið, blandað öðrum vökva, hægt í æð á a.m.k 30 mín. Fyrir og eftir lyfjagjöfina er gefið saltvatn í æð.

Algengustu aukaverkanir 

 • Það er einstaklingsbundið og háð skammta-stærð hversu miklar aukaverkanir geta orðið
 • Búast má við fækkun á hvítum blóðkornum 10-14 dögum eftir lyfjagjöf
 • Blóðkornin jafna sig aftur á þremur vikum
 • Blóðprufur verða teknar reglulega til að fylgjast með blóðkornunum
 • Barnið getur fengið ógleði og/eða uppköst fljótlega eftir að lyfjagjöfin byrjar sem oftast hægt að fyrirbyggja með lyfjum sem gefin eru fyrir, meðan og á eftir lyfjagjöf
 • Hármissir er algengur en hárið vex aftur að lokinni meðferð
 • Einnig getur húðlitur dökknað og neglur orðið viðkvæmar
 • Barnið getur fengið blöðrubólgu og/eða séð blóð í þvagi vegna ertandi áhrifa lyfsins á blöðruna
 • Lyfið Mesna er blöðruverndandi lyf og það er gefið með Ifosfamidi til fyrirbyggingar. Mesna er yfirleitt gefið í æð fyrir og eftir lyfjagjöfina sjálfa
 • Alltaf er gefin vökvi fyrir og eftir lyfjagjöf og fylgst er með þvagútskilnaði
 • Ófrjósemi er algeng meðan á lyfjameðferð stendur

Sjaldgæfari aukaverkanir:

Rauðum blóðkornum og blóðflögum getur fækkað.

Barnið getur fengið eymsli og/eða særindi í munnslímhúð þegar hvítum blóðkornum fækkar.

Matarlyst getur minnkað sem getur leitt til þyngdartaps.

Barnið getur fengið niðurgang eða hægðatregðu. Sumir finna fyrir máttleysi og svima.


Unnið af Bergþóru Jóhannsdóttur og Kristínu Alexíusdóttur, hjúkrunarfræðingum, 1999. Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið janúar 2013.
Kortison
Í krabbameinsmeðferð við hvítblæði er oft gefið kortisón ( sterar ) í háum skömmtum í lengri eða skemmri tíma. Kortisón er hormón sem er til staðar í líkamanum og nýrnahettubörkurinn framleiðir. Kortison er í þessu tilviki krabbameinslyf sem drepur óþroskuð hvít blóðkorn

Hvernig lítur lyfið út og hvernig er það gefið?

Lyfið er oft gefið í töfluformi en hægt er að gefa það í æð ef barnið getur ekki tekið töflur.

Algengustu aukaverkanir

 • Lyfið veldur aukinni matarlyst, þyngdaraukningu og átröskun
 • Barnið vill oftast borða oft og jafnvel að næturlagi og verður oft sólgið í sama mat í tíma og ótíma
 • Útlitið breytist, andlitið verður kringlótt,kinnarnar stórar og maginn verður einnig stór
 • Kortisónmeðferðin hefur líka áhrif á skapið með depurð og skapvonsku
 • Allir verða fyrir þessum aukaverkunum að meira eða minna leiti en þær - minnka og hverfa hægt og bítandi þegar lyfjagjöf er hætt
Unnið af Sigrúnu Þóroddsdóttur hjúkrunarfræðingi á Barnaspítala Hringsins árið 2002. Yfirfarið janúar 2013.

Ógleði og uppköst af völdum krabbameinsmeðferðar er yfirleitt hægt að fyrirbyggja og draga úr með lyfjum (velgjuvarnarlyfjum).

Mörg lyf eru til varnar ógleði og uppköstum. Ákvörðun um hvaða velgjuvarnarlyf barnið eða unglingurinn fær tekur mið af meðferðinni og líðan.

Flest lyf eru til í töflu- og sprautuformi, einnig sem endaþarmsstílar.

Oftast eru gefin saman lyf með mismunandi verkunarmáta, tvær eða fleiri tegundir, til að draga úr líkum á ógleði og uppköstum.

Leiðbeiningar

Mikilvægt er að taka lyfin samkvæmt ráðleggingum og láta vita um verkun þeirra.

Stundum þarf að breyta um lyf eða skammtastærð.

Ef barnið eða unglingurinn er með ógleði eða uppköst er öruggara að fá lyfin í endaþarmsstílum eða í sprautuformi.

Hringið á deildina ef:

 • Ef þið eruð ekki viss hvenær eða hvernig á að gefa lyfin.
 • Ef barnið er með uppköst og getur ekki haldið lyfjunum niðri.
 • Lyfin draga úr ógleði og uppköstum en virka samt ekki eins vel og þið hafðið búist við.
 • Ef barnið finnur fyrir aukaverkunum frá velgjuvarnarlyfjunum.

Algeng lyf til varnar ógleði 

 • Zofran (Ondansetron), Kytril (Granisetron), Navoban (Tropisetron).

Þessi lyf eru sérhæfð gegn ógleði og uppköstum af völdum krabbameinsmeðferðar. Lyf úr þessum flokki eru notuð ef búist er við töluverðum einkennum. Lyfin virka öllu jafna best fyrstu 2 sólarhringana eftir meðferð.

Algengustu aukaverkanir eru höfuðverkur og hægðatregða.

 • Vogalene (metoprimazine) er oft notað til að draga úr ógleði af völdum krabbameinsmeðferðar.

Lyfið hefur áhrif með verkun sinni á heilann og aukaverkanir geta verið syfja, slappleiki, munnþurrkur og þykknun í nefslímhúð (stífla). 

 • Primperan (metoclopramide) er notað gegn ógleði og uppköstum.

Það flýtir fyrir magatæmingu og flutningi magainnihalds í gegnum smágirnið.

Gott er að taka lyfið 30 mínútum fyrir máltíð.

Helstu aukaverkanir eru óróleiki og pirringur.

 • Betapred (betametasón) og Decadron (dexametasón) eru nýrnahettubarkahormónalyf (corticosteroids).

Þau virka gegn ógleði sem kemur fljótlega eftir meðferð og sem kemur síðar, einnig gegn áunninni ógleði.

Lyfin geta aukið matarlyst, orku og vellíðunartilfinningu í 24 tíma eftir að þau eru tekin inn.

Þegar notkun er hætt og verkun liðin hjá fylgir stundum þreyta í kjölfarið.

Helstu aukaverkanir eru roði í andliti (sem hverfur á einum degi), hitatilfinning, óróleiki og svefnerfiðleikar.

Betra er að taka lyfin inn að morgni og snemma dags.

Regluleg notkun krefst þess að tekin séu magalyf til að fyrirbyggja magabólgur og magasár.

 
Unnið af Lilju Jónasdóttur hjúkrunarfræðingi, 1998. Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið janúar 2013..

 

Mercaptopurin

Mercaptopurin, Puri-nethol, 6-mercaptopurin, er notað í meðferð á hvítblæði og eitilfrumukrabbameini.

Hvernig lítur lyfið út og hvernig er það gefið?

 • Mercatopurin er til í töfluformi og vökvaformi
 • Töflurnar eru ætlaðar til inntöku
 • Vökvinn er ætlaður til gjafar í æð annað hvort sem bein sprautuinngjöf eða sem innrennsli á 12-48 tímum 

Algengar aukaverkanir 

 • Það er einstaklingsbundið og háð skammtastærð hversu miklar aukaverkanirnar geta orðið.


Unnið af Arndísi Jónasdóttur, hjúkrunarfræðingi, 1999. Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið janúar 2013..

 

MTX®, Folex®, Mexate®

MTX®, Folex®, Mexate®

Methotrexate, MTX, Folex, Mexate, er notað til meðferðar á mörgum tegundum krabbameina. Hjá börnum má nefna hvítblæði, krabbamein í eitlum og beinum. Lyfið er jafnframt notað í sumum liðagigtar- og psoriasis sjúkdómum.

Hvernig lítur lyfið út og hvernig er það gefið?

 • Methotrexate er til í töflu- og vökvaformi
 • Það er ýmist gefið til inntöku í munn eða sem inngjöf í æð, vöðva eða mænugöng

Algengustu aukaverkanir 


 • Það er einstaklingsbundið og háð skammtastærð hversu miklar aukaverkanir geta orðið
 • Búast má við tímabundinni fækkun á hvítum blóðkornum 4-7 dögunum eftir lyfjagjöfina
 • Einnig er algengt að blóðflögum fækki á 5.-21. degi eftir lyfjagjöfina og rauðum blóðkornum 6-13 dögum eftir meðferð
 • Blóðprufur eru teknar reglulega til að fylgjast með blóðkornunum
 • Barnið getur fundið fyrir ógleði og fengið uppköst, en oftast er hægt að fyrirbyggja mestu einkennin með lyfjum til varnar ógleði sem eru gefin fyrir, á meðan og eftir lyfjameðferð
 • Barnið getur fengið eymsli og/eða særindi í munnslímhúðina þegar hvítu blóðkornunum fækkar
 • Í háskammtameðferð er algengt að það gerist 3-5 dögum eftir meðferð en í hefðbundinni meðferð 3-4 vikum eftir meðferðina
 • Einkennin byrja oft í munnvikum
 • Búast má við að hárið þynnist eða fari alveg
 • Hárið vex aftur að lokinni meðferð
 • Lyfið veldur tímabundinni truflun á blæðingum hjá konumog fósturgöllum ef þungun á sér stað
 • Lyfið getur valdið tímabundinni ófrjósemi hjá körlum

Sjaldgæfari aukaverkanir

 • Barnið og/eða unglingurinn getur fengið magabólgur, niðurgang og/eða blæðingu frá ristli
 • Sumir finna fyrir svima, tvísýni og/eða fá höfuðverk
 • Barnið getur fundið fyrir kláða í húðinni og fengið húðþurrk eða útbrot
 • Lyfið getur valdið lifrarbólgu og skorpu-lifur sérstaklega eftir háskammtameðferð, einnig skertri nýrnastarfsemi
 • Með lifrar og nýrna-starfsemi er fylgst reglulega með blóðprufum
 • Mikilvægt er að fá nægjan vökva meðan á lyfjameðferð stendur

Sérstakar ráðleggingar 

 • Oft er gefin vökvi í æð
 • Þessi mikla vökvun er sérstaklega mikilvæg í háskammtameðferð þar sem halda þarf þvaginu basísku
 • Það stafar af því að lyfið er veik sýra og getur haft skemmandi áhrif á nýrun ef þvagið verður súrt
 • Ef gefnir eru stórir skammtar af Methotrexate er lyfið Leukovorin gefið með til að minnka aukaverkanir
 • Jafnframt er fylgst með þéttni Methotrexate í blóði með jöfnu millibili
 
Sterk sól getur valdið miklum húðóþægindum, það er því nauðsynlegt að nota sterka sólvörn eða forðast sólarljósið.
 
Þar sem ýmis lyf geta haft áhrif á verkun hvors annars skaltu ræða alla lyfjanotkun við lækninn þinn meðan á meðferð stendur.
 
Ef barnið er á Primasol verður að hætta þeirri lyfjameðferð meðan á háskammtameðferð stendur.
 
Forðast ber að taka verkja- og/eða bólgueyðandi lyf sem innihalda Asperin meðan á lyfjameðferð stendur.
 
Það getur aukið á blæðingahættu ef blóðflögum fækkar. 

Unnið af Ásdísi Þorbjarnardóttur, hjúkrunarfræðingi, 1999. Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins.Yfirfarið janúar 2013.


Vincristin

Oncovin®, Vincristine Lederle®)

Vincristin, Oncovin, er notað í meðferð á ýmsum tegundum krabbameina. Hjá börnum má nefna hvítblæði, krabbamein í eitlum, nýrum, heila og taugakímsæxli (neuroblstom).

Hvernig lítur lyfið út og hvernig er það gefið?

 • Vincristin er litlaus vökvi sem gefin er með vökva hægt í æð.

Algengustu aukaverkanir

 • Það er einstaklingsbundið og háð skammtastærð hversu miklar aukaverkanirnar geta orðið
 • Það má búast við lítilsháttar fækkun á rauðum- og hvítum blóðkornum ásamt blóðflögum 10-14 dögum frá gjöf lyfsins
 • Barnið getur átt von á að finna fyrir slappleika og verkjum í vöðvum. Vegna áhrifa lyfsins á taugar getur það einnig orsakað dofa í fingrum og tám, breytingu á húðskyni
 • Barnið getur fundið fyrir verkjum í kjálka og erfiðleikum við gang
 • Lyfið veldur oft hægðatregðu


Sjaldgæfari aukaverkanir

 • Ógleði og uppköst eru ekki algeng en geta komið 4-8 tímum eftir lyfjagjöf
 • Alger hármissir er ekki algengur þegar þetta lyf er notað eingöngu, en hárið vex aftur að meðferð lokinni

Sérstakar ráðleggingar

 • Til að fyrirbyggja hægðatregðu er mikilvægt að nota hægðalyf, borða trefjar og drekka vel

 

Unnið af Bergþóru Jóhannsdóttur og Kristínu Alexíusdóttur hjúkrunarfræðingum, 1999. Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið í janúar 2013.

Unnið af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins árið 2002. Yfirfarið síðast janúar 2013
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?