Leit
Loka

Hagnýtar upplýsingar

Þó að næturvæta sé oft einangrað vandamál er algengt að börn sem pissa undir hafi verulegt blöðruvandamál (10-20%) sem mikilvægt er að greina og meðhöndla áður en reynt er að meðhöndla næturvætuna.

Útiloka þarf þvagsýkingar og/eða hægðatregðu hjá þessum börnum.

Hægðatregða er algeng hjá börnum sem eiga í vandræðum með blöðrustjórnun.

Hægðir geta þrýst á þvagblöðruna, minnkað rúmtak hennar og aukið líkur á því að barnið missi þvag.

Börn með hægðatregðu hafa gjarnan hægðir sjaldnar en þrisvar til fjórum sinnum í viku, eiga erfitt með að koma hægðum frá sér og kviðverkir eru algengir.

 • Hægðaklíningur í nærbuxum er nokkuð öruggt merki um hægðatregðu
 • Hægðatregða og blöðruvandamál auka líkur á þvagsýkingum
 • Blöðrustærð
 • Blöðrustjórnun
 • Magn þvags sem myndast á nóttunni
 • Djúpur svefnin

Allt þetta hefur áhrif á það hvort einstaklingur pissar undir eða ekki.

Erfðir virðast hafa mikið að segja en ekki er ljóst með hvaða hætti þeim áhrifum er miðlað.

Um það bil 20-30 af hundraði (prósent) þeirra sem pissa undir hafa litla þvagblöðru.

Auk þess er seinkaður þroski í taugastjórnun þvagblöðrunnar til staðar hjá mörgum þessara barna.

Helstu einkenni blöðruvandamáls eru tíð þvaglát, barnið þarf skyndilega að pissa og mörg þessara barna missa þvag að deginum til.

Við eðlilegar kringumstæður dregur verulega úr þvagmyndun á nóttunni þegar magn þvagtemprandi hormóns hækkar í blóði.

Þetta hormón hækkar ekki á eðlilegan hátt í blóðinu á nóttunni hjá mörgum börnum sem mynda þess vegna óeðlilega mikið þvag á næturnar og pissa undir.

Mörg þeirra barna sem pissa undir sofa djúpt og vakna ekki við umtalsvert áreiti eins og hróp, köll eða vekjaraklukku.

Enn vantar skýringu á því hvers vegna taugaboð sem gefa til kynna fulla þvagblöðru berast ekki til meðvitundarinnar í svefni hjá þeim sem pissa undir.

Börn sem pissa undir eru ekki andlega frábrugðin öðrum börnum. Mörg þeirra hafa þó skerta sjálfsmynd vegna næturvætunnar.

 • Næturvæta er ekki hegðunarvandamál og sálrænir þættir eru ekki taldir orsaka næturvætu

Allt bendir til þess að um flókið samspil erfða og umhverfis sé að ræða þegar barn pissar undir. Sýnt hefur verið fram á tengsl næturvætu við nokkur mismunandi litningasvæði.

Vitað er að næturvæta erfist með ríkjandi hætti í mörgum fjölskyldum.

Líklegt er að mismunandi erfðaþættir hafi áhrif á blöðrustærð, blöðrustjórnun, þvagmyndun á nóttunni og á skynjun á því þegar þvagblaðran fyllist í svefni.

Erlendar rannsóknir hafa sýnt að ef annað foreldrið hefur sögu um næturvætu eru um það bil 40% líkur á því að barnið pissi undir en 80% ef báðir foreldrar hafa einhvern tíma vætt rúmið.

Hafi hvorugt foreldranna sögu um næturvætu eru aðeins um 15% líkur á að börn þeirra pissi undir.

Almenna reglan er sú að næturvæta er ekki meðhöndluð fyrr en í fyrsta lagi við 5 ára aldur.

Þegar niðurstöður þvagrannsókna eru eðlilegar þarf sjaldnast að rannsaka barnið frekar áður en meðferð hefst.

Aldur barnsins, stærð þvagblöðru og þvagmyndun á nóttunni ráða miklu um hvaða meðferð er valin.

Hægt er að áætla stærð þvagblöðrunnar og mæla þvagframleiðslu á nóttunni með því að fylla út sérstaka þvaglátaskrá.

Meðferð má flokka í þrennt:

 • Umbun
 • Meðferð með næturþjálfa (vekjara- og rakaskynjarameðferð)
 • Lyfjameðferð


Mikilvægt er að einungis sé umbunað (hrós, stjörnugjöf) fyrir þætti sem barnið hefur sjálft stjórn á.

Þar er átt við þætti eins og töku lyfja, vatnsdrykkju, að pissa áður en farið er að sofa og það hversu duglegt barnið er að fara eftir öðrum leiðbeiningum.

Barnið hefur ekki stjórn á næturvætunni og því er ekki rétt að byggja umbun á því hvort næturnar eru þurrar eða ekki.

Varast ber að skamma barnið eða refsa því fyrir að pissa undir, þar sem það leysir alls ekki vandann en hefur slæm áhrif á andlega líðan.

Næturþjálfi er lítið tæki sem samanstendur af rakaskynjara og bjöllu sem hringir þegar skynjarinn kemst í snertingu við þvag.

 • Skynjarinn er yfirleitt festur við nærbuxur eða yfirborð þunnrar mottu sem barnið liggur á
 • Bjallan hringir um leið og barnið missir fyrstu þvagdropana
 • Með tímanum tengir barnið saman tilfinninguna fyrir þaninni þvagblöðru og nauðsyn þess að vakna og fara á klósettið

Næturþjálfi hentar vel börnum sem náð hafa að minnsta kosti 7 ára aldri og eru með litla þvagblöðru.

Meðferðin tekur 6-10 vikur og er mikilvægt að bæði barn og foreldrar sýni meðferðinni áhuga.

Til að byrja með vaknar barnið ekki við vekjarabjölluna og þurfa þá foreldrarnir að bregðast skjótt við og vekja barnið, annars mistekst meðferðin.

Nánari upplýsingar um næturþjálfa er að finna í bæklingnum Næturþjálfi.

Rannsóknir hafa sýnt að lyfjameðferð er besti kosturinn fyrir börn sem mynda of mikið þvag á nóttunni. Ekki er mælt með þeirri meðferð fyrr en eftir að barnið er orðið 5 ára.

Fyrir utan umbun er lyfjameðferð í raun eini kosturinn fyrir börn á aldrinum 5-7 ára, þar sem árangur af næturþjálfameðferð er ekki góður hjá þeim sem eru yngri en 7-8 ára.

ÞRÍR LYFJAFLOKKAR KOMA HELST TIL GREINA

Lyf sem draga úr þvagframleiðslu:

 • Minirin MELT® er eina lyfið í þessum flokki, en þetta er það lyf sem mest er notað fyrir börn sem pissa undir

Lyf sem meðal annars verka á taugaboð til þvagblöðru og létta svefn:

 • Amilín töflur eru dæmi um lyf í þessum flokki

Hér þarf að fara fremur varlega af stað og auka síðan skammtana í samræmi við aldur og þyngd barnsins. Rétt er að minnka lyfjaskammtana einnig rólega þegar ákveðið er að hætta meðferðinni.

Lyf sem draga úr óeðlilegum samdrætti í þvagblöðru:

 • Blöðruslakandi lyf (stækka blöðruna meðan lyfið er tekið; Vesicare, Detrusitol og fleiri lyf) eru dæmi um lyf í þessum flokki

Þessi lyf eru notuð ef barnið hefur einnig vandamál sem tengjast blöðrustærð eða blöðru-stjórnun að deginum til.

Lyf geta haft aukaverkanir, sem foreldrar þurfa að kynna sér. Nánari upplýsingar um lyfjameðferð er að finna í bæklingnum Lyfjameðferð við næturvætu. Nákvæmt, reglubundið eftirlit hjá lækni barnsins, ásamt fræðslu og uppörvun, er mjög nauðsynlegt til að góður árangur náist.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?