Beingisnun og beinþynning
Ójafnvægi beinmyndandi og beineyðandi ferla eins og minnst er á hér að ofan geta orðið þess valdandi að bein gisni eða þynnist. Þar er um að ræða tap steinefna eins og kalks en einnig verða breytingar á byggingu beins (e. microarchitecture). Þetta veldur ekki einkennum í sjálfu sér heldur eru vandmálin tengd brotum sem geta í þessu ástandi orðið við óverulegan áverka; svokölluð lágorkubrot eða beinþynningarbrot.
Algengustu beinþynningarbrotin
Algengustu beinþynningarbrotin verða í framhandlegg, lærleggshálsi, og í hryggsúlu. Á Íslandi verða yfir 1000 slík brot árlega. Talið er að við 75 ára aldur hafi tæplega 40% íslenskra kvenna hlotið slík brot á meðan það sama gildir fyrir um 20% karla.
Beinmassi og beinþéttni
Beinmassi okkar verður mestur á aldrinum 25-30 ára (e. Peak Bone Mass) og auk erfða skipta þar máli hormón, lífsstíll og næring eins og fyrr segir. Umræddur mesti beinmassi (MBM) hvers einstaklings ræður mjög miklu um hversu vel beinin þola áverka en önnur atriði sem stuðla að auknum líkum á brotum með aldrinum eru til dæmis versnandi jafnvægi og minni styrkur (hrumleiki).
Beinþéttni er samfelld breyta eins og svo mörg önnur líffræðileg fyrirbæri. Það eru því ekki skörp skil milli þess sem talið er eðlilegt gildi og þess sem talið er sjúklegt gildi. En það þarf auðvitað að komast að samkomulagi um hvaða gildi sé skynsamlegt að miða við þegar sjúkdómur er skilgreindur og hvenær sé eðlilegt að beita sérstökum forvörnum eða lyfjameðferð. Mismunandi sjónarmið geta þar átt við og snúist um menningu, hagfræði og fleira.
Árið 1994 ákvað Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) að skilgreina hlutfallslega lágan beinmassa (beingisnun eða osteopenia) og beinþynningu (osteoporosis) sem ákveðin fjölda staðalfrávika frá meðaltali MBM kvenna (nærendi lærleggs í heild). Þetta frávik er mælt í svokölluðum T-gildum (sjá mynd).
Einnig má túlka beinmassa sem frávik frá meðalgildi jafnaldra af sama kyni og kallast það Z-gildi. Það gildir þá að á aldrinum 25-30 ára er T = Z.
Myndin sýnir skilin milli eðlilegs beinmassa, beingisnunar og beinþynningar samkvæmt T-gildum.
Þar sem beinmassi er normaldreifður falla 95% þýðisins innan tveggja staðalfrávika frá meðaltalinu og það gildir þá að einungis 2,5% einstaklinga hefur Z-gildi neðar (eða verra) en -2,0. Það gildi er því gjarnan notað sem ábending fyrir því að leita að mögulegum undirliggjandi vanda sem skýringu á því að viðkomandi er með lægri beinmassa en 97,5% jafnaldra sinna.
Dæmi um slík vandamál geta verið raskanir á kalsíum og D-vítamínbúskap, skjaldkirtli, kynhormónabúskap, beinmergsmein, krabbamein, vannæring, vanfrásog, lyfjameðferð og fleira.
Mæling á beinþéttni
Beinmassa eða beinþéttni má mæla með sérstöku tæki sem notar röntgengeisla til að meta magn steinefna beins í grömmum á fersentimetra. Tæknin kallast DXA (Dual-energy X-ray Absorptiometry). Landspítalinn fékk nýtt fullkomið DXA-tæki af gerðinni Hologic Horizon A að gjöf frá Mjólkursamsölunni í janúar 2015. Auk hefðbundinnar mælingar á beinþéttni getur það greint ákveðnar tegundir brota sem sum geta verið einkennalaus. Það getur einnig metið líkamssamsetningu og fleira með nákvæmum hætti.
Læknir pantar mælingu í Heilsugátt Landspítala (Röntgen) en mælingin sjálf tekur mjög stuttan tíma (sekúndur) og geislunin er mjög lítil. Nýja tækið leysir af hólmi tæki frá sama framleiðanda frá 1998 en það gerir okkur kleift að bera saman af öryggi nýjar og eldri mælingar.
Eins og fram kemur hér að ofan er beinþéttnin einungis einn af mörgum þáttum sem hafa áhrif á líkurnar á því hvort einstaklingur hljóti beinþynningarbrot. Það er því þrátt fyrir allt afstætt hvort niðurstaðan sé „í lagi“ eða ekki.
Mat á niðurstöðum
Til þess að geta endanlega lagt mat á áhættuna þarf því tiltölulega nákvæmar upplýsingar um ýmsa aðra þætti. Þess vegna er nokkuð ítarlegur spurningalisti (hér aftast í þessu skjali) lagður fyrir þá einstaklinga sem koma í mælingu. Þessi gögn eru færð inní tölvuna sem stýrir beinþéttnimælitækinu. Gögnin ásamt beinþéttnimælingunni eru nýtt til þess að reikna út líkur á beinþynningarbroti á næstu 10 árum. Reiknivél WHO sem þarna liggur til grundvallar kallast FRAX og má finna hér.
Sambærileg íslensk reiknivél, Beinráður, verður a.ö.l. innbyggð í sjúkraskrárkerfið Sögu og einnig heilbrigðisgáttina Veru, en þá getur hver og einn metið sínar brotalíkur og þar með hvort skynsamlegt sé að sækjast eftir frekara mati með t.d. beinþéttnimælingu.
Útkoma beinþéttnirannsóknarinnar er myndræn skýrsla með tölulegum upplýsingum (beinmassi í g/cm2, T og Z gildi ásamt fyrri gildum til samanburðar) og áhættuútreikningi skv. FRAX.
Þessar niðurstöður eru aðgengilegar læknum í Heilsugátt Landspítala strax að lokinni rannsókn. Að auki býr tækið yfir þeim eiginleika að geta túlkað mælinguna sjálfvirkt yfir í skriflegt svar (enn sem komið er á ensku) sem einnig er vistað í Heilsugátt LSH og er í vissum tilfellum vottað af lækni (sjá flæðirit um verklag). Það er þó alveg ljóst að endanleg túlkun á þýðingu rannsóknarinnar fyrir hvern einstakling og þar með ráðgjöf til hans um t.d. lyfjameðferð, verður ekki gerð af DXA-tækinu. Til þess þarf lifandi mann sem er þá læknir viðkomandi, oftast heimilislæknir sá/sú sem pantaði rannsóknina og þekkir einnig sögu og aðstæður einstaklingsins.
Samtal læknis og sjúklings er ávallt endastöðin.