Leit
Loka
 

 

 

Krabbamein í börnum

Krabbamein er óeðlilegur vöxtur í frumum sem mynda oft æxli.

Frumurnar hafa oft aðra lögun en heilbrigðar frumur, starfa ekki eðlilega og geta breiðst út um líkamann. Þær ryðja sér braut inn í heilbrigðan vef og vaxa inn í blóðæðar og sogæðar.

Á Íslandi greinast 10-12 börn undir 18 ára aldri með krabbamein árlega. Það svipað hlutfall og annars staðar á Vesturlöndum.

Flest barnanna eru á aldrinum 2-6 ára þegar þau greinast.

Algengustu krabbamein hjá börnum eru hvítblæði og heilaæxli en þessar tvær tegundir ná yfir rúmlega helming allra krabbameinstilfella hjá börnum. Aðrar krabbameinstegundir sem finnast hjá börnum eru t.d. eitlaæxli, beinæxli og fósturvefsæxli.

Síðustu áratugina hefur verið fylgst náið með tíðni krabbameins hjá börnum á Norðurlöndum og ekki er hægt að sjá að tilfellum fjölgi.

Krabbamein hjá börnum er ekki arfgengt nema í örfáum, sérstökum tilfellum.

Hagnýtar upplýsingar

Það er mikill munur á krabbameinum í börnum og fullorðnum.

Börn fá aðrar tegundir krabbameina en fullorðnir og einnig er krabbamein hjá börnum meðhöndlað með betri árangri en hjá fullorðnum.

Þessi munur er aðallega vegna þess að þær krabbameinstegundir sem börn fá svara oft betur lyfjameðferð.

Einnig þola börn oft betur harðari meðferð en fullorðnir.

Það er ekki vitað af hverju börn fá krabbamein og ekki er talið að geislun eða mengun geti valdið æxlismyndun hjá börnum á Norðurlöndum.

 • Krabbamein er ekki smitandi

Byrjunareinkenni geta verið mjög breytileg eftir því hvaða tegund krabbameins eru um að ræða.

Við greiningu krabbameins er alltaf fengin sjúkrasaga og spurt um heilsufar, gerð líkamsskoðun og teknar blóðprufur. Einnig eru notaðar hinar ýmsu rannsóknir. Þær rannsóknir sem oftast eru notaðar til greiningar eru:

RÖNTGENRANNSÓKNIR

Hægt er að nota röntgenrannsóknir á margvíslegan hátt.

 • Taka má venjulegar röntgenmyndir af lungum og beinum og með skuggaefnisgjöf,til dæmis af nýrum og meltingarfærum
 • Tölvusneiðmyndir með eða án skuggaefnis

 

SEGULÓMUM

 • Með segulómun er hægt að fá mjög skýrar myndir, sérstaklega af heila, mænu og mjúkvefjum

 

ÍSÓTÓPASKANN

 • Með því að sprauta sérstöku geislavirku efni (ísótóp) í æð er hægt að taka myndir með sérstakri myndavél af beinum eða líffærum þar sem ísótópinn sést
 • Þannig er hægt að greina útbreiðslu sjúkdómsins

 

ÓMUN

 • Ómun eða sónar getur oft gefið góðar upplýsingar 

 

BEINMERGÁSTUNGA

 • Beinmergástunga er alltaf gerð við greiningu á hvítblæði og til að fylgjast með árangri meðferðar

Beinmergástunga: Sum æxli geta komist yfir í beinmerg þar sem blóðfrumurnar myndast. Þess vegna þarf að gera beinmergástungu með grófri nál í mjaðmarkamb eða sköflung og taka sýni sem skoðað er í smásjá.

 

ÁSTUNGA EÐA AÐGERÐ

 • Ástunga eða aðgerð þar sem tekið er sýni úr æxli til að unnt sé að greina tegund æxlisins

Margar af þessum rannsóknum eru gerðar í svæfingu. Ástæður þess er að barnið verður að liggja kyrrt á meðan rannsóknin er framkvæmd og til þess að rannsóknin valdi barninu ekki sársauka.

Meðferð krabbameins hjá börnum er eins og við krabbameini hjá fullorðnum.

Hún byggist á:

 • Lyfjameðferð
 • Geislameðferð
 • Skurðaðgerð og beinmergskiptum eftir því sem við á hverju sinni

Lyfjameðferð barna er að einu leyti ólík lyfjameðferð fullorðinna.

 • Börnin fá oft stærri skammta af lyfjum í lengri tíma og með styttri hléum.

Sjá nánar um fræðslu um börn og unglinga með krabbamein

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?