Sérnám í endurhæfingarlækningum
Námstími: 2 ár
Kennslustjóri: Anna Lilja Gísladóttir með netfangið:annalg@landspitali.is
- Sérnámssamningur
- Marklýsing
- Viðurkenning marklýsingar_endurhæfingarlækningar.pdf
- Kynningarmyndband um sérnám í endurhæfingarlækningum
Kennsluráð:
Anna Lilja Gísladóttir kennslustjóri
Guðrún Karlsdóttir varakennslustjóri
Magdalena Ásgeirsdóttir yfirlæknir Grensásdeildar
Árdís Björk Ármannsdóttir framkvæmdarstjóri lækninga á Reykjalundi
Karl Kristjánsson lektor/forsvarsmaður fræðasviðs
Ylfa Rún Óladóttir sérfræðilæknir
Hildur Arnardóttir fulltrúi sérnámslækna
Meginmarkmið námsins er að sérnámslæknirinn öðlist breiða fræðilega þekkingu, færni og reynslu og geti starfað sjálfstætt sem sérfræðingur í endurhæfingarlækningum og endurhæfingarteymi.
Ennfremur að sérnámslæknirinn tileinki sér fagmennsku, þ.m.t. gagnrýna hugsun og sjálfsmat varðandi eigin þekkingu, eigin störf og þörf á viðhaldsnámi sem ýti undir jákvæðan og faglegan þroska. Hin hefðbundna nálgun læknisfræðinnar hefur að mestu takmarkast við líffæri, sjúkdóma og/eða áverka sem alþjóðlega sjúkdómaflokkunarkerfið ICD byggir á. Sú nálgun nægir ekki eins og sér. Endurhæfingarlæknar þurfa ætíð að taka tillit til undirliggjandi sjúkdóma og/eða skaða og afleiðinga þeirra, svo og til sálfélagslegra þátta, en aðaláherslan er þó á færni og virkni einstaklingsins. Þannig byggir nálgun endurhæfingarlækninga á færnimiðuðu flokkunarkerfi WHO: International Classification of Functioning, Disability and Health- ICF.
Samkvæmt þessu þurfa endurhæfingarlæknar að:
- Hafa fræðilega þekkingu á sál-, félags og líkamlegum grunni heilsu og flóknu samspili þátta sem hafa áhrif á getu einstaklingsins og takmarka þátttöku og sjálfstæði hans/hennar sem einstaklings í samfélaginu.
- Þróa með sér færni til að miðla viðeigandi upplýsingum og hafa góð og uppbyggileg samskipti við sjúklinginn, aðstandendur, meðferðarteymi og annað starfsfólk. Markmiðið er að allir verði samstíga í þeirri nálgun og að þarfir og væntingar sjúklingsins séu í fyrirrúmi.
- Stunda einstaklingsmiðaða klíníska nálgun með áherslu á mat, áætlun og fræðslu í náinni samvinnu við teymi
- Sérnámslæknirinn þarf að tileinka sér gagnrýna þekkingaröflun og hafa þekkingu á gæða- og vísindastarfi.
Námsskrá í endurhæfingarlækningum
Hvað varðar innihald námsskrár er vísað í kaflann “Curriculum of Studies in Physical and Rehabilitation Medicine” í fylgiskjali 1 og framvinduskrá í fylgiskjali 2 í marklýsingu sérnáms í endurhæfingarlækningum
Marklýsing fyrir sérnám í endurhæfingarlækningum
Tvær íslenskar endurhæfingarstofnanir hafa uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til að standa undir menntun endurhæfingarlækna; endurhæfingardeild Landspítala á Grensási og Reykjalundur endurhæfingarmiðstöð SÍBS.
Skipulag kennslu
Sérnám í endurhæfingarlækningum er að lágmarki 5 ára nám. Reiknað er með að meginhluti námsins fari fram á endurhæfingardeildum og minni hluti í öðrum sérgreinum sem nýtast í náminu í samráði við kennslustjóra og kennsluráð, með hliðsjón af marklýsingunni.
Sérnámslæknir á að fá sem fjölbreyttasta mynd af starfi á endurhæfingardeildum hér á landi (Grensásdeild og Reykjalundur) og/eða erlendis. Sérnámslæknir sem tekur töluverðan hluta af sérnámi hér á landi þyrfti að vera að lágmarki eitt ár á hvorri stofnun. Honum er ætlað að uppfylla viss námsmarkmið og þarf sérnámslæknir að halda nákvæma framvinduskráningu um sérnámsverkefni, fræðslu sem hann/hún tekur þátt í eða tileinkar sér með öðrum hætti, klínískar prófanir/próf/matsferli, svo og um framþróun sína hvað varðar reynslu og þekkingu (klíníska og fræðilega), í samræmi við framvinduskrá marklýsingar.
Skipulögð fræðsludagskrá er til þriggja ára. Gert er ráð fyrir ½ degi aðra hverja viku, bæði haustönn og vorönn. Þetta verður sameiginleg fræðsla fyrir sérnámshópinn og er dagskráin endurtekin á þriggja ára fresti. Reynt verður að samkeyra hluta kennslunnar með sérnámslæknum í öðrum sérgreinum svo sem heimilislækningum, lyflækningum og geðlækningum. Sérnámslæknar taka virkan þátt í kennslu en kennslustjóri hefur yfirumsjón með fræðsludagskránni.
Auk þessa taka sérnámslæknar virkan þátt í vikulegum sameiginlegum fræðslufundum lækna á Grensási og Reykjalundi.
Framvinda: Sérnámslæknir þarf að halda framvinduskrá (log-bók). Skoðaðir verða möguleikar á notkun E-portfolio. Sökum fámennis íslensku þjóðarinnar er líklegt að námslæknar muni ekki geta tileinkað sér alla klíníska þætti framvinduskrárinnar á Íslandi. Gætu þær að einhverju leyti þurfa að taka sitt klíníska nám við erlendar sjúkrastofnanir. Á árlegum framvindumatsfundum (e. ARCP, Annual Review of Competency Progression)
er lagt mat á framvindu síðasta árs og ákveðið hvernig hægt sé að ná klínískum námsmarkmiðum og þá hvar og hvernig. Um framkvæmd er vísað í Almennar leiðbeiningar og viðmið vegna sérnáms lækna á Íslandi frá Embætti landlæknis.
Á árlegum framvindumatsfundi verður lagt á frammistöðu sérnámslæknis, þekkingu hans/hennar, hæfni og getustig og um leið er nauðsynlegt að halda utan um almennan framgang sérnámsins og auðvelda umbætur. Sérnámslæknir metur hverja deild fyrir sig varðandi námið, starfsaðstöðu, stuðning o.fl. Kennslustjóri hittir síðan bæði sérnámslækna og handleiðara til að fara yfir stöðu mála og úrbætur gerðar þar sem þörf er á. Við árlegt mat handleiðara, kennslustjóra og sérnámslæknis er farið yfir hvort fagleg þekking, almenn hæfni, geta og áunnin reynsla sé fullnægjandi með hliðsjón af hverjum sjúkdóma- eða efnisflokki samkvæmt marklýsingu sérnámsins og framvinduskrá sérnámslæknisins.
Mat á framvindu og frammistöðu
Framvinduskrá gefur námslækni yfirsýn yfir þá fagþekkingu, færni og getu sem hann/hún þarf að tileinka sér og hvaða námsþættir það eru sem á eftir að ná tökum á. Sérnámslæknir fer yfir skrána ásamt sérnámshandleiðara sínum á reglubundnum fundum þeirra. Framvinduskráin er ásamt eftirfarandi þáttum lögð til grundvallar í mati á framgangi í árlegum matsviðtölum.
Klínískt próf
Árlega er haldið klínískt próf fyrir námslækna að vori, oftast í maí. Skiptist það í fjórar stöðvar. Á hverri stöð er lagt fyrir sjúkratilfelli og spurt fyrir fram skilgreindra spurninga í tengslum við greiningu vanda og endurhæfingu. Einkunnagjöf er einföld: Framúrskarandi, fullnægjandi eða ófullnægjandi.Mat handleiðara og endurgjöf frá samstarfsfólki
Á hverju ári fylla handleiðarar út staðlað matsblað, þar sem umsögn er gefin um ákveðna mikilvæga þætti í klínískri vinnu og framkomu námslæknis. Mat þetta byggir á samtölum handleiðara við samstarfsaðila og klíníska handleiðara námslæknis.Sjálfsmat námslæknis
Árlega þarf deildarlæknir að svara spurningum á formlegu matsblaði varðandi eigin styrkleika og veikleika, kosti og galla námsins og hvert viðkomandi stefnir.Árlegur matsfundur
Að vori, að loknum munnlegum prófum, fer fram formlegt mat á framgangi námsins. Er þá námslæknir boðaður til matsfundar ásamt kennslustjóra, kennara í endurhæfingarlækningum í læknadeild og handleiðara (ARCP nefnd). Farið er yfir stöðu og framvindu sérnámsins hjá viðkomandi námslækni. Til grundvallar eru lagðir þeir þættir sem taldir eru upp hér að ofan í kaflanum um mat á framgangi og frammistöðu. Styrkleikar námslæknis eru skoðaðir ásamt því sem betur má fara, væntingar ræddar og lögð skrifleg áætlun um næstu skref í námi og starfsþjálfun.Handleiðsla
- Ber ábyrgð á eigin námi og leggur sig fram við að afla sér víðtækrar þekkingar og hæfni á öllum sviðum endurhæfingar.
- Í náminu tekur hann mið af marklýsingu og heldur framvinduskrá, þ.m.t. vegna sértækra matsaðferða (CbD, mini-Cex, Dops, WBA etc.).
- Ætlast er til að námslæknir mæti á fyrirlestra, bæði í fræðsludagskrá sérnámslækna og skipulagða fræðslu á vegum endurhæfingarlækna/námsstaðarins.
- Sérnámslæknir heldur sjálfur a.m.k. þrjá fyrirlestra á hverju ári um óskyld efni sérgreinarinnar.
- Gert er ráð fyrir að sérnámslæknir skili annaðhvort verkefni eða haldi fyrirlestur um efni frá sérhverri deild sem hann vinnur á. Ef áhugaverð málþing eða fundir eru í boði skal vinnuveitandi (teymisstjóri þar sem sérnámslæknirinn er hverju sinni) með aðstoð kennslustjóra reyna eftir bestu getu að hliðra til á vinnustað þannig að sérnámslæknir geti tekið þátt.
- Ef sérnámslæknir óskar eftir að taka hluta af námi erlendis þarf hann með aðstoð kennslustjóra að finna út hvaða staðir henti og hvernig best sé að því staðið. Þetta þarf að liggja fyrir við upphaf sérnáms.
- Sérnámslæknir tekur þátt í fræðslu læknanema, lækna í starfsnámi (kandídata), deildarlækna eða annara sem eru í fagnámi á Grensásdeild og Reykjalundi.
- Æskilegt er að sérnámslæknir sé þátttakandi í formlegri vísindarannsókn, sé þess kostur.
- Æskilegt er að sérnámslæknir þreyti próf að námi loknu á vegum Evrópusamtaka endurhæfingarlækna sem eru aðilar að UEMS.
- Sérnámslæknir sér um sína sjúklinga með vaxandi ábyrgð undir leiðsögn ábyrgs sérfræðilæknis. Í því felst innlagnarskrá með viðeigandi upplýsingum, skoðun, vandamálaskrá og endurhæfingaráætlun. Hann situr teymis-, markmiðs- og fjölskyldufundi og fylgir málum eftir.
- Sérnámslæknir situr í fagteymi hverrar deildar.
- Sérnámslæknir tekur þátt í þróunarvinnu starfseminnar á síðari stigum náms.
a) Almenn handleiðsla
Handleiðsla skal vera einu sinni í mánuði, 45-60 mínútur í senn, hjá handleiðara sem fylgir námslækni gegnum námsprógrammið. Handleiðslan snýst um færni og getu í starfi, þekkingaröflun, samskipti við sjúklinga og starfsfólk, og handleiðslu tengda greiningu og endurhæfingu sjúklinga sem sérnámslæknirinn sinnir. Einnig er handleiðslan vettvangur til að ræða starfsþróun, möguleika á sérhæfingu og rannsóknum, gæðaverkefnum, þróun þjónustu og sérnáms og fara yfir þau vandamál sem upp kunna að koma í starfi. Sérnámshandleiðari ræðir eða fer að minnsta kosti mánaðarlega yfir skráningu í framvinduskrá námslæknis.
b) Klínísk handleiðsla
Handleiðsla og ráðgjöf hjá sérfræðingi/yfirlækni á þeirri deild sem námslæknir vinnur á hverju sinni. Þessi handleiðsla snýst einkum um daglega klíníska vinnu. Handleiðslan fer fram jafnóðum í starfi með ýmsum hætti; beinum samtölum við handleiðara, með því að sest er niður og tiltekin mál rædd, með því að handleiðari fylgist með afmörkuðum störfum námslæknis eða lesi yfir og ræði skráð sjúkragögn námslæknis við hlutaðeigandi (CbD).
Sérnámshandleiðari (e. educational supervisor)
- Hver sérnámslæknir hefur einn megin handleiðara, sem kallast sérnámshandleiðari.
- Sérnámshandleiðari þarf að vera með sérfræðiviðurkenningu í endurhæfingarlækningum og verður að hafa farið á viðeigandi námskeið um kennslu (e. train the trainers).
- Handleiðari á að tryggja að sérnámslæknir hafi í hverjum námsáfanga náð tilsettri þekkingu og færni svo sem fram kemur í marklýsingu sérgreinarinnar.
- Hann metur frammistöðu sérnámslæknis í samræmi við framvinduskrá, sjá kafla um mat á framgangi náms í marklýsingu.
- Hlutverk hans er að vera stoð og stytta sérnámslæknis. Hann leiðbeinir lækninum í gegnum námið og hvetur til sjálfstæðra vinnubragða, gæða- og vísindavinnu.
- Handleiðari hittir sérnámslækni reglulega (á 1-2ja mánaða fresti) og fer yfir námsframgang, matsblöð, þekkingaröflun, samskipti við samstarfsaðila, hugmyndir varðandi gæða- og/eða rannsóknarvinnu o.fl.
- Námslæknir á að geta leitað til sérnámshandleiðara síns varðandi allt sem upp getur komið meðan á námi stendur.
- Sérnámshandleiðara ber að fara yfir bæði styrkleika og veikleika sérnámslæknis í þeim tilgangi að styrkja hann í starfi, þroska hann sem fagmann og sjá til þess að fagleg þekking, hæfni og geta verði sem best miðað við hvern áfanga í sérnáminu.
- Ef samstarfsörðugleikar koma upp á milli námslæknis og handleiðara skal leitað til kennslustjóra. Hann metur stöðuna og úthlutar námslækni öðrum sérnámshandleiðara ef þörf er á.
Leiðbeinandi/klínískur handleiðari (e. clinical supervisor)
- Leiðbeinandi er hver sá sérfræðilæknir sem vinnur með námslækninum á hverri starfstöð fyrir sig.
- Leiðbeinandinn þarf að hafa þekkingu á marklýsingunni, og á færni- og námsmarkmiðunum miðað við stig í sérnáminu og geta lagt mat á færni og þekkingu.
- Leiðbeinandinn kemur endurgjöf um sérnámslækninn til sérnámshandleiðarans.
Marklýsing sérnámsl í endurhæfingarlækningum
Tvær íslenskar endurhæfingarstofnanir hafa uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til að standa undir menntun endurhæfingarlækna; endurhæfingardeild Landspítala á Grensási og Reykjalundur endurhæfingarmiðstöð SÍBS.
Stefnt er að því að 1-2 stöður námslækna í endurhæfingarlækningum verði að jafnaði á hvorum stað. Að fengnu almennu lækningaleyfi í kjölfar starfsnámsárs verður læknum gefinn kostur á að sækja um þessar námsstöður. Í umsókninni komi fram náms- og starfsferill. Er umsókn hefur borist verður umsækjandi boðaður í viðtal hjá inntökunefnd. Nefndina skipa: Kennslustjóri sérnáms í endurhæfingarlækningum og yfirlæknar endurhæfingarlækninga á Landspítala og Reykjalundi. Í viðtalinu verði metin hæfni umsækjanda til þess að tileinka sér nýja þekkingu og hæfni hans í mannlegum samskiptum. Einnig er vísað til skjals frá Embætti landlæknis: Almennar leiðbeiningar og viðmið vegna sérnáms lækna á Íslandi („Gullbókin“).
Kennslustjóri er Anna Lilja Gísladóttir með netfangið annalg@landspitali.is