Leit
Loka

Vísindastarf

Landspítali er háskólasjúkrahús og gegnir veigamiklu hlutverki í að afla nýrrar þekkingar í heilbrigðisvísindum. Spítalinn er í virku samstarfi við innlend og erlend sjúkrahús, háskóla, aðrar stofnanir og fyrirtæki um rannsóknir. Leiðarljós vísindastarfsins er þekking í þágu sjúklinga.

Banner mynd fyrir  Vísindastarf

Hagnýtar upplýsingar

Þjónusta, vísindi og menntun eru þrjú meginhlutverk Landspítala og markmið spítalans er að vera háskólasjúkrahús í fremstu röð. Öflug vísindastarfsemi er ein af mikilvægustu grunnstoðum hvers háskólasjúkrahúss. Vísindi auka fagmennsku, gæði og öryggi meðferðar og eru forsenda framþróunar í heilbrigðisþjónustu og menntun heilbrigðisstétta. Það er stefna Landspítala að:

  • fjárframlög til vísindarannsókna séu sambærileg við norræn háskólasjúkrahús
  • vísindastarf innan Landspítala sé eflt og ástundun vísindalegra rannsókna sé samofin daglegri starfsemi
  • unnið sé að bættri aðstöðu til vísindastarfa og uppbyggingu öflugra rannsóknarhópa
  • áhersla sé lögð á fjölbreytni í rannsóknum, þverfaglega nálgun og samstarf
  • leggja grunn að því að Landspítali geti orðið í fremstu röð á alþjóðlegum vettvangi vísinda
Stefna Landspítala er að efla og styrkja vísindastarfið á ýmsan hátt eins og lesa má um í stefnu Landspítala um vísindastarf.

Um opinn aðgang

Greinar sem eru afrakstur verkefna sem Vísindasjóður Landspítala hefur styrkt skulu merktar Landspítala og lokaútgáfur þeirra sendar til Heilbrigðisvísindabókasafns Landspítala (bokasafn@landspitali.is) til varðveislu í LSH e-Repository varðveislusafni spítalans.

Æskilegt er að greinar séu í opnum aðgangi (Open Access).

Klínískt rannsóknarsetur (KRS - Clinical Research Center) var stofnað í janúar 2010 af Landspítala og Háskóla Íslands.

Markmið þess er að styðja og efla innviði stofnananna og auka samstarf þeirra í klínískum rannsóknum.

KRS er tengiliður fyrir alþjóðleg rannsóknarverkefni og vinnur að samhæfingu verkefna með rannsóknarsetrum í öðrum löndum.

KRS og vísindadeild Landspítala veita aðstoð og ráðgjöf um:

  • styrki
  • samninga
  • fjármál (umsýslu rannsóknarfjár og styrkja)
  • umsóknir til opinberra aðila
  • tölfræðivinnslu í vísindarannsóknum
  • rannsóknargögn svo sem upplýst samþykki
  • skrif rannsóknaráætlunar
  • skipulag og uppsetning rannsóknarsetra
  • undirbúning og framkvæmd rannsókna
  • undirbúning og úrvinnslu úttekta og eftirlits (audits, inspections)

Einnig sér KRS um þjálfun starfsfólks í góðum klínískum starfsháttum (Good Clinical Practice - GCP)


Tengiliður (contact): Halla Sigrún Arnardóttir verkefnastjóri, hallarn@landspitali.is

Hirsla er opin gagnageymsla (Open Access).

Meðal annars í Hirslu:

  • Fræðigreinar starfsmanna Landspítala
  • Ritrýndar fræðigreinar
  • Fræðslugreinar
  • Vísindasaga
  • Tímaritsgreinar
  • Sjúkratilfelli
  • Ritstjórnargreinar

 

Vísindi á vordögum er árleg uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala sem er fagnað í lok apríl eða byrjun maí. Þá er árangur af vísindastarfi á spítalanum kynntur.

Vísindadagarnir voru haldnir i fyrsta skipti árið 2001.

ATH! Vegna Covid-19 var Vísindum á vordögum 2020 slegið á frest. „Vísindi að hausti 2020“ var haldin 7. október í Hringsal

Vísindi á vordögum - safnsíða

Framkvæmdastjórn veitir árlega tvær viðurkenningar fyrir vísindastörf.

Þessar viðurkenningar nefnast „Heiðursvísindamaður ársins” og „Ungur vísindamaður ársins”.

Umsóknir vegna vísindastarfs

Vísindarannsóknanefnd heilbrigðisrannsókna (á vegum framkvæmdastjóra lækninga)

Samkvæmt reglum um vísindarannsóknir á Landspítala þarf framkvæmdastjóri lækninga, sem umsjónaraðili sjúkraskrá á spítalanum, að veita samþykki sitt þegar um er að ræða klínískar rannsóknir.

Í reglunum segir m.a.:

„Áður en gögn Landspítala eru notuð til vísindarannsókna skal liggja fyrir samþykki vísindasiðanefndar eða siðanefndar Landspítala og auk þess skal eftir atvikum aflað leyfis eða vinnslan tilkynnt Persónuvernd. Jafnframt skal liggja fyrir leyfi framkvæmdastjóra lækninga á LSH, eða þess er hann hefur framselt umboð sitt, þegar um er að ræða upplýsingar í sjúkraskrá sbr. Reglur um notkun heilsufarsupplýsinga. “

Ef um er að ræða vísindarannsóknir þar sem sjúklingar eða sjúklingaupplýsingar / klínískar upplýsingar eru ekki hluti af rannsókn þarf ekki leyfi framkvæmdastjóra lækninga. Getur það t.d. átt við þegar um stjórnsýslurannsóknir er að ræða eða þegar tæknilegar aðferðir eða tæki eru viðfang rannsóknar og engar sjúklingaupplýsingar því tengdar.

Við Landspítala starfar vísindarannsóknanefnd heilbrigðisrannsókna á vegum framkvæmdastjóra lækninga. 

Vísindarannsóknanefnd heilbrigðisrannsókna er ætlað að aðstoða vísindamenn og leiðbeina um atriði sem lúta að umsóknum um leyfi til að framkvæma vísindarannsóknir á Landspítala og annast útgáfu leyfa. Nefndin annast skráningu vísindarannsókna sem framkvæmdar eru á spítalanum og á að tryggja að framkvæmd þeirra og meðferð upplýsinga sé í samræmi við lög og þær reglur sem spítalinn setur varðandi vísindarannsóknir. 

Vísindarannsóknanefnd hefur umsjón með samningum við aðila sem fjármagna rannsóknir sem framkvæmdar eru á spítalanum. 

Leyfi vísindarannsóknanefndar heilbrigðisrannsókna (á vegum framkvæmdastjóra lækninga)

 

Siðanefnd heilbrigðisrannsókna á Landspítala

Siðanefnd heilbrigðisrannsókna á Landspítala fjallar um vísindarannsóknir sem unnar eru innan spítalans í samstarfi við tengdar menntastofnanir.
Hún s
tarfar skv. reglugerð um siðanefndir heilbrigðisrannsókna.   

 

Siðanefnd stjórnsýslurannsókna á Landspítala

Við Landspítala starfar siðanefnd stjórnsýslurannsókna sem fjallar um allar rannsóknarbeiðnir og rannsóknaráætlanir sem ekki falla undir siðanefnd LSH.

Nefndin starfar samkvæmt ákvörðun og á ábyrgð forstjóra og hefur náin tengsl við siðanefnd heilbrigðisrannsókna á Landspítala.Tilgangur nefndarinnar er að leiðbeina, meta og veita samþykki fyrir rannsóknum sem fram eiga að fara innan spítalans, frá siðfræðilegu og vísindalegu sjónarmiði og gæta þannig hagsmuna þátttakenda og um leið stofnunarinnar.

Niðurstöðum nefndarinnar má áfrýja til forstjóra Landspítala.

Afgreiðsla erinda sem nefndinni berast skal kynnt siðanefnd heilbrigðisrannsókna og fundargerðir nefndarinnar lagðar þar fram.

 

Persónuvernd

Persónuvernd snýst um réttinn til friðhelgi einkalífs og réttinn til að ráða yfir eigin persónuupplýsingum.  Siðanefndir annast samskipti við Persónuvernd fyrir umsækjendur um rannsóknarleyfi.

Vefur Persónuverndar

 

Vísindasiðanefnd 

 

Vísindasiðanefnd metur samstarfsverkefni, fjölþjóðlegar rannsóknir, klínískar lyfjarannsóknir og aðrar áætlanir um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði sem falla ekki undir verksvið siðanefnda heilbrigðisrannsókna.

Vefur vísindasiðanefndar

Styrkir

Vísindasjóður Landspítala er öflugur rannsóknarsjóður sem veitir árlega rúmlega 100 milljónir króna í rannsóknarstyrki til starfsmanna spítalans.

Markmið sjóðsins er að efla heilbrigðisrannsóknir á Landspítala og hann er opinn öllum háskólamenntuðum starfsmönnum hans.

Auglýst er eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum að hausti og í janúar. Stjórn sjóðsins úthlutar styrkjum með hliðsjón af umsögnum frá vísindaráði Landspítala. Styrkir eru afhentir í desember og á vordögum.

Hvatningarstyrkir Vísindasjóðs Landspítala voru veittir frá 2011 til  2016.

2016
2015
2014
2013
2012
2011

Stjórn Vísindasjóðs Landspítala hefur ákveðið að ekki yrði boðið upp á styrki til nýsköpunar á árinu 2024.

Nýsköpunarstyrkir Vísindasjóðs Landspítala eru eingöngu ætlaðir fyrir minni nýsköpunarverkefni sem starfsmenn Landspítala stýra og eru í forsvari fyrir. Vísindasjóður auglýsir að öllu jöfnu eftir umsóknum um nýsköpunarstyrki samhliða auglýsingu eftir umsóknum um styrki til vísindarannsókna. Úthlutun fer fram að vori á Vísindum á vordögum, árlegri uppskeruhátíð vísinda á Landspítala.

Gagnagrunnar / söfn til vísindastarfa

Erfðafræðinefnd Háskóla Íslands er rannsókna- og þjónustustofnun sem starfrækt er af heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands og Landspítala.

Hlutverk hennar er

  • að efla erfðafræðilegar rannsóknir sem unnið er að við Háskóla Íslands, Land­spítalann og víðar
  • að varðveita og reka gagnabanka nefndarinnar um ættfræði
  • að sinna þjónustuverkefnum á sviði ætt- og erfðafræði, þar með talið erfðaráðgjöf 
  • að stuðla að sterkum tengslum innan og utan háskólans við atvinnu- og þjóðlíf

Nánar um erfðafræðinefnd

Lífsýni (biological specimen/sample) eru sýni sem eru tekin úr mönnum og dýrum og varðveitt á viðeigandi hátt í lífsýnabönkum í vísindalegum tilgangi.

  • Algengasta tegund lífsýna úr mönnum eru blóðsýni
  • Söfnun og geymsla lífsýna er órjúfanlegur hluti af þjónustu rannsóknardeilda innan heilbrigðisstofnana
  • Öll geymsla og nýting slíkra lífsýna er háð ströngum skilyrðum opinberra aðila
  • Þrjú lífsýnasöfn innan rannsóknarsviðs Landspítala hafa rekstrarleyfi frá heilbrigðisráðherra

Nánar um lífsýnasöfnin

Vöruhús gagna er yfirgripsmikil gagnageymsla þar sem fram fer:

  • söfnun
  • hreinsun
  • flokkun og
  • tenging gagna

í sérstökum gagnagrunni sem uppfærður er í næturvinnslum.

Vöruhús auðvelda alla úrvinnslu gagna og skýrslugerð án þess að þyngja þau grunnkerfi sem eru í notkun á hverjum stað. 

Yfirgripsmikil gagnageymsla

Vöruhús gagna er yfirgripsmikil gagnageymsla þar sem fram fer söfnun, hreinsun, flokkun og tenging gagna í sérstökum gagnagrunni sem uppfærður er í næturvinnslum. Vöruhús auðvelda alla úrvinnslu gagna og skýrslugerð án þess að þyngja þau grunnkerfi sem eru í notkun á hverjum stað. 


Vöruhús gagna á Landspítala geymir bæði ýmis gögn sem verða til í þjónustu við sjúklinga (e. clinical data warehouse) og gögn úr fjárhags- mannauðskerfinu Orra. Vöruhúsið er hannað til þess að auðvelda tölfræðilega vinnslu sem er reglubundinn þáttur í starfi spítalans til dæmis vegna gæðaeftirlits, skipulags þjónustu og upplýsingagjafar til stjórnvalda. Hún er einnig mikilvægur þáttur í þróun þjónustunnar og sem grunnur stjórnunarlegrar ákvarðanatöku og fjárfestinga (kostnaðarvirknigreiningar, aðrar hagfræðilegar athuganir). Síðast en ekki síst styður vöruhúsið mjög við hlutverk Landspítala sem háskólasjúkrahúss s.s við vísindarannsóknir. Vöruhúsið var í upphafi hannað með þessi þríþættu not í huga. Því er sérstaklega hugað að gæðum gagna, rekjanleika notkunar og fjölþættum vinnslumöguleikum:

Reglubundin staðtöluvinnsla

  • Stuðningur við rekstrarlegar ákvarðanir
  • Rannsóknir á heilbrigðissviði

Gagnamarkaðir

Vöruhúsinu er skipt í nokkra gagnamarkaði (data marts). Hver gagnamarkaður er hannaður til að auðvelda sértæka vinnslu gagna. Sjá meðfylgjandi töflu yfir helstu gagnamarkaði, tímaspönn og uppruna gagna - smella hér.

Gagnagátt
Sérhæfður fyrirspurnar- og skýrslugerðar hugbúnaður, BusinessObjects (BO), sem til einföldunar er nefndur Gagnagátt á Landspítala, er tengdur vöruhúsinu og notaður til úrvinnslu gagna, til skýrslugerðar og til smíði rannsóknargagnasafna. Slík rannsóknargagnasöfn er svo hægt að vinna með frekar með annars konar tölfræðihugbúnaði, svo sem SPSS, R eða STATA.

Aðgangur og ábyrgð
Allir stjórnendur Landspítala eiga að hafa skilgreindan aðgang að vöruhúsinu til að nálgast nauðsynlegar upplýsingar um sína einingu er varða starfsemi, rekstur og mönnun, gegnum skýrslugerartólið Business Objects (BO)/Gagnagátt.

Framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítala ber ábyrgð á rekstri og notkun vöruhússins og annast hagdeild þróun vöruhússins og alla tölulega úrvinnslu gagna. Heilbrigðis- og upplýsingatæknideild (HUT) stýrir rekstri vöruhússins. Aðgangur að sjúkraskrárgögnum úr vöruhúsi er í flestum tilvikum á forræði framkvæmdastjóra lækninga.

Fyrir rannsóknir

Rannsakendur og fleiri innan Landspítala geta fengið aðgang að skilgreindum gögnum úr vöruhúsinu, t.d. vegna vísindarannsókna, að fengnu leyfi vísindasiðanefnda, framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala og Persónuverndar eftir því sem við á. Þá er ekki um beinan aðgang að vöruhúsinu að ræða heldur eru útbúin sérsniðin rannsóknargagnasöfn sem henta þeirri rannsókn sem unnið er að hverju sinni, allt eftir þörfum. Starfsmenn hagdeildar annast gerð þessara gagnasafna og afhenda til frekari úrvinnslu eftir aðstæðum.

Nánari upplýsingar sem og beiðnir um gögn, ásamt afritum af viðeigandi rannsóknarleyfum má senda til deildarstjóra hagdeildar, Helgu Hrefnu Bjarnadóttur.

Markmið Heilbrigðisvísindabókasafns LSH og HÍ er að veita starfsmönnum Landspítala, nemendum og kennurum við Heilbrigðisvísindasvið HÍ aðgang að þeim vísindalegu og klínísku upplýsingum og þekkingu sem þeir þurfa í námi og starfi.

Heilbrigðisvísindabókasafn

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?