Barnaspítali Hringsins
Á Barnaspítalanum er veitt sérhæfð, fjölskyldumiðuð heilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga að 18 ára aldri. Í allri þjónustu er áhersla lögð á að greina þarfir og auka vellíðan skjólstæðinga
Hafðu samband
Hér erum við
Aðalinngangur Barnaspítala Hringsins. Einnig gengið þar um í Hringsal.
Sýna staðsetningu á kortiUm Barnaspítalann
Á Barnaspítalanum er veitt sérhæfð, fjölskyldumiðuð heilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga að 18 ára aldri.
Í allri þjónustu er áhersla lögð á að greina þarfir og auka vellíðan skjólstæðinganna, með gildi Landspítala um umhyggju, fagmennsku, öryggi og framþróun að leiðarljósi.
Samskipti sem byggja á virðingu og stuðningi við börnin og fjölskyldur þeirra er mikilvægur þáttur í starfsemi Barnaspítalans.
Hlutverk
Barnaspítalinn hefur forystu í sérhæfðri heilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga á Íslandi. Á Barnaspítalanum er veitt fjölbreytt þjónusta sem krefst mikillar sérþekkingar og samvinnu fagfólks. Þjónustan beinist að líkamlegum, andlegum og félagslegum þörfum barnanna og velferð fjölskyldunnar.
Með fjölbreyttri rannsóknarstarfsemi og símenntun tryggir fagfólk að nýjasta þekking á sviði heilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga sé viðhöfð hverju sinni.
Fagfólk Barnaspítalans annast grunn- og framhaldsmenntun heilbrigðisstétta hvað varðar heilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga. Þá veitir fagfólk einnig ráðgjöf til annarra stofnana sem sinna málefnum barna og unglinga
Fjölskyldan í forgrunni
Á Barnaspítalanum er stöðugt unnið að því að bæta þjónustu við fjölskyldur.
Allur aðbúnaður, þjónusta, og samskipti miðast að því að mæta þörfum barna og fjölskyldna þeirra samkvæmt aldri og þroska barnanna.
Keppst er að því að veita þeim sem bestan aðbúnað meðan á sjúkrahúsdvöl stendur og gefa fjölskyldum barna með heilsuvanda kost á samfelldri þjónustu af göngudeild.
Barnaspítalinn á nokkrar íbúðir sem foreldrar búsettir á landsbyggðinni geta leigt meðan barnið þeirra dvelur á spítalanum.
Teymisvinna fagfólks
Starfsemin á Barnaspítalanum hefur á undanförnum árum þróast til sérgreinaskiptingar og teymisvinnu og þar með aukinni göngudeildarstarfsemi
Þverfagleg teymi fagfólks veita börnum með heilsuvanda (0-18 ára) og fjölskyldum þeirra sérhæfða þjónustu.
Með þessu móti gefst tækifæri til að samhæfa fræðslu, meðferð og þjónustu í samvinnu við skjólstæðingana.
Réttindi sjúklinga
Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er barn hver sá einstaklingur sem ekki hefur náð 18 ára aldri. Við skipulag á starfsemi Barnaspítalans er tekið mið af stöðlum fyrir börn á sjúkrahúsum. Þar kemur fram:
- Að barn eigi rétt á að hafa foreldra eða einhvern nákominn hjá sér meðan á sjúkrahúsdvöl stendur.
- Að barn eigi að liggja á deild með öðrum börnum en ekki á deild með fullorðnum.
- Að umgangast skuli barn með virðingu og skilningi og virða friðhelgi einkalífs þess.
Á Barnaspítalanum er lögð rík áhersla á að réttindi sjúklinga séu virt í hvívetna.
Allir landsmenn eiga rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma.
Öll mismunun vegna kynferðis, tungu, trúarbragða, skoðana, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu er óheimil. Mikilvægt er að sjúklingar og aðstandendur gæti þagmælsku um málefni annarra sjúklinga sem þeir kunna að fá vitneskju um, heyra eða sjá á Barnaspítalanum.
Þagnarskylda starfsfólks
Allt starfsfólk og nemendur heilbrigðisþjónustunnar er bundið þagnarskyldu og farið er með málefni sjúklinga af fyllsta trúnaði.
Starfsfólki Barnaspítalans ber að gæta fyllstu þagmælsku um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum.
Landspítali er háskólasjúkrahús og nemendur í heilbrigðisfræðum og tengdum greinum stunda hluta af námi sínu á spítalanum. Nemendur fylgjast með og taka þátt í daglegri meðferð sjúklinga og eru ávallt á ábyrgð og undir handleiðslu leiðbeinenda sinna.
Vinsamlegast athugið að sjúkrahúsið getur ekki borið ábyrgð á peningum eða öðrum verðmætum svo sem símum, tölvum og öðru sem sjúklingar eða aðstandendur hafa meðferðis.
Helsti bakhjarl Barnaspítalans er Hringurinn, kvenfélag.
Hringurinn var stofnaður árið 1904 en félagið hefur að markmiði að vinna að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna.
Aðalverkefni félagsins um áratugaskeið hefur verið uppbygging Barnaspítala Hringsins.
Á vef Hringsins eru ýmsar leiðir til að styðja félagið.
En auk þessa nýtur Barnaspítalinn stuðnings fjölda félagasamtaka, fyrirtækja og einstaklinga á ári hverju.
Hægt er að styðja við starfsemi Barnaspítala Hringsins á margvíslegan hátt, svo sem í formi skemmtiatriða, leikfanga, peningagjafa eða tækja.
Hafa má samband við leikskólakennara Barnaspítalans í síma 543 5027 ef áhugi er á að bjóða upp á skemmtiatriði, gefa leikföng, spil, DVD-myndir eða PlayStation leiki til dæmis. Athugið að aðeins er tekið á móti nýjum eða ónotuðum hlutum.
Peningagjafir má leggja beint inn á reikning Barnaspítalans 513-26-22241 kt. 640394-4479, en til að senda minningarkort eða styrkja ákveðin verkefni er fylgt þessu ferli:
- Styðjum starfsemina og velja þar Styrktarsjóð Barnaspítala Hringsins
Öllum fyrirspurnum varðandi tækjagjafir og öðru er tengist styrkjum eða gjöfum til Barnaspíta Hringsins má beina til Hildar Bjarkar Hilmarsdóttur hildurbhi@landspitali.is eða hafa samband í síma 868 1190
Árið 1902
- Systur úr reglu St. Jóseps setja á stofn Landakotsspítala. Sérstakar barnastofur voru á spítalanum, ein fyrir drengi og önnur fyrir telpur
Árið 1957
- Barnadeild Landspítala opnuð 19. júní á þriðju hæð gamla spítalans. Hringurinn lagði fram mikla fjármuni í stofnkostnað við opnun deildarinnar
Árið 1961
- Barnadeild formlega opnuð á Landakoti
Árið 1965
- Barnadeild Landspítalans fær stærra húsnæði, 2. og 3. hæð E-álmu. Nafni breytt í Barnaspítali Hringsins í þakklætis- og virðingarskyni við Hringinn
Árið 1970
- Barnageðdeildin við Dalbraut var opnuð 1. ágúst sem göngudeild. Í upphafi var hún kölluð Geðdeild Barnaspítala Hringsins og var það fyrst og fremst í virðingar- og þakklætisskyni við Kvenfélagið Hringinn sem hafði lagt mikið af mörkum þegar deildin var sett á stofn
Árið 1971
- Legudeild BUGL var opnuð í mars. Þar voru upphaflega rúm fyrir 11 börn á aldrinum 5-13 ár. Seinna á árinu, í nóvember, var opnuð dagdeild. Hún var með rúm fyrir 7-9 börn á aldrinum 2-9 ára og var viðvera þeirra milli kl. 9-15 á virkum dögum
Árið 1976
- Vökudeild Landspítalans tekur til starfa í nýju húsnæði Kvennadeildarinnar. Hringurinn styður dyggilega við þennan áfanga Barnaspítalans
Árið 1980
- Viðvera foreldra er orðin frjáls á barnadeildum landsins. Áður höfðu foreldrar haft takmarkað leyfi til að vera hjá börnum sínum ef þau þurftu að leggjast á spítala
Árið 1987
- Legudeild fyrir unglinga á BUGL opnuð. Barnageðdeildin sinnti börnum til 16 ára aldurs en legudeildin einungis til 13 ára. Það var því brýn þörf að koma fram vistunarúrræði fyrir börn yfir þeim aldri
Árið 1988
- Stofnuð ný skóladeild við Dalbrautarskólann. Fram að þessum tíma hafði kennari varið ráðinn í hlutastarf til að sinna menntun inniliggjandi skjólstæðinga og heyrði það undir reglur menntamálaráðuneytis um sérkennslu
Árið 1995
- Barnadeildin á Landakoti flytur á Borgarspítalann (Sjúkrahús Reykjavíkur). Thorvaldsensfélagið styður dyggilega við þennan flutning deildarinnar í mun hentugra húsnæði
Árið 1997
- Hjartaaðgerðir á börnum hefjast með skipulögðum hætti hér á landi
Árið 2003
- 26. janúar er nýtt hús Barnaspítala Hringsins vígt við hátíðlega athöfn en þennan dag átti Hringurinn 99 ára afmæli. Bráðamótttaka barna, barnadeildir í Fossvogi og á Landspítalanum, vökudeildin, göngudeild, dagdeild og önnur starfsemi flytur starfsemi sína í nýtt hús Barnaspítalans
Árið 2004
- Rjóður, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og fötluð börn, hefur starfsemi sína. Velferðarsjóður barna kostaði endurbætur á húsnæðinu og kaup á tækjum og húsgögnum og hefur verið dyggur stuðningsaðili Rjóðurs frá upphafi
Hagnýtar upplýsingar
Umsjón biðlista á Barnaspítalanum hafa hjúkrunarfræðingar með höndum.
Innlögn er skipulögð þegar beiðni um aðgerð, meðferð eða rannsókn liggur fyrir.
Hringt er í foreldra þegar búið er að skipuleggja þá rannsókn eða aðgerð sem fyrirhuguð er.
Foreldrar geta hringt og fengið upplýsingar um biðtíma og undirbúning fyrir fyrirhugaða rannsókn og eða aðgerðir.
Markmið þjónustunnar er að kalla barn inn með góðum fyrirvara og koma í veg fyrir óþarfa biðtíma.
Hjúkrunarfræðingar hringja í foreldra þegar búið er að skipuleggja þá rannsókn eða aðgerð sem fyrirhugað er að barnið fari í.
Deild 21 E, Barnaspítala Hringsins
- Sigríður Hulda Njálsdóttir, s. 543 3031
- Auður Ragnarsdóttir, s. 543 3032
Staðsetning: 1. hæð Barnaspítalans.
Opin: Virka daga frá kl. 09:00 til 15:30 nema föstudaga, þá er hún opin frá kl. 09:00 til 12:00.
Símar: 543 5027
Umsjón: Hrönn Steinsdóttir og Sigurbjörg A. Guttormsdóttir, leikskólakennarar
Fyrir hverja?
Leikstofan er fyrir öll börn og unglinga sem dvelja á Barnaspítala Hringsins. Foreldrar þeirra og systkini eru einnig velkomin.
Á leikstofunni eru leikskólakennarar sem vinna með börnum í öruggu og barnvænu umhverfi.
Hvað gerum við?
Á leikstofunni eru leikskólakennarar sem vinna með börnum í öruggu og barnvænu umhverfi. Hvert barn er einstakt og því er lögð áhersla á að koma til móts við þarfir hvers barns í gegnum leik og skapandi starf. Á leikstofunni er efni og aðstaða til skapandi starfa, þar er vandað og fjölbreytt úrval leikfanga og spila . Margt af þessu er hægt að fá lánað inn á herbergi til inniliggjandi barna.
Öllum börnum er nauðsynlegt að fá tækifæri til að leika sér. Það hjálpar þeim við að aðlagast breyttum aðstæðum og veitir þeim gleði. Leikur er alþjóðlegt tungumál barna. Mikilvægt er að foreldrar og starfsfólk hvetji börn til að heimsækja leikstofuna og taka þátt í starfinu þar.
Oft koma góður gestir á leikstofuna, t.d. hvítabjörninn Hringur, Róbert og Hrafn frá Skákfélaginu Hróknum, Daníel blöðrumeistari og trúðurinn Dr. Oliver svo nokkrir séu nefndir.
Staðsetning: 1. hæð Barnaspítalans
Nemendurnir: Skólinn er fyrir öll börn á grunnskólaaldri sem dvelja á Barnaspítala Hringsins og geta ekki sótt heimaskóla sinn vegna langvarandi veikinda. Framhaldsskólanemendur sem dvelja á barnaspítalanum eru einnig velkomnir í skólann.
Kennarar: Guðrún Þórðardóttir og Helga Þórðardóttir.
Þjónustutími: Mánudaga - fimmtudaga frá kl. 09:00 til 15:00 og föstudaga kl. 09:00- 12:00
Sími: 543 5051
Hvað gerum við?
Í sjúkrahúskennslunni er notast við samskiptatækni eins og kostur er. Auk þess er hægt að fá ýmiss konar afþreyingarefni svo sem sögubækur, spil, forrit o.fl.
Ef sýnt þykir að barn þurfi að dvelja um einhvern tíma á Barnaspítalanum er æskilegt að foreldrar/forráðamenn láti bekkjarkennara barnsins vita. Kennarinn getur þá tekið til námsgögn og námsáætlun sem nemandinn hefur með sér á spítalann. Foreldrar ættu að hvetja börn sín til að nýta sér þá kennslu sem veitt er í skólanum eftir því sem heilsan leyfir. Ef nauðsyn þykir getur kennsla farið fram á sjúkrastofu. Foreldrar eru ávallt velkomnir á skólastofuna.
Staðsetning: Jarðhæð Barnaspítalans.
Þjónustutími: Alla virka daga frá kl. 08:00 til 15:00
Sími: 543 3131
Umsjón: Ragna Eysteinsdóttir
Veitingastofa Hringsins er með léttar veitingar af ýmsu tagi:
- Heit súpa
- Salat
- Samlokur
- Margt fleira
Veitingastofa Hringsins selur einnig gjafavörur sem eru tilvaldar í skírnar- og sængurgjafir.
Handverkið er unnið af Hringskonum
Veitingastofan rekur líka gos-, og sælgætissjálfsala á jarðhæð Barnaspítala Hringsins.
Þeir foreldrar sem dvelja hjá börnum sínum fimm daga eða lengur og foreldrar langveikra barna eiga rétt á afsláttarkorti.
- Ritarar á deildum afhenda afsláttarkortið fyrir hverja máltíð
- Afsláttarkortið gildir ekki fyrir allan mat
Hjá veitingastofunni er hægt að panta veitingar fyrir ráðstefnur og fundi.
- Móttaka pantana er í síma 543 3131
Kynningarmyndband Veitingastofu Hringsins
HRINGURINN STYRKIR VEIK BÖRN Á ÍSLANDI!
Staðsetning: Deild 22A á Barnaspítalanum
Þjónustutími: Alla virka daga frá kl. 08:00 til 16:00
Sími: 543 1000
Prestur: Díana Ósk Óskarsdóttir
Prestur sinnir viðtalsþjónustu við einstaklinga óháð lífsskoðunum. Boðið er upp á fjölskyldufundi og eftirfylgd.
Prestar og djákni við Landspítala hafa framhaldsmenntun í sorgar- og áfallastarfi og er markmiðið að koma til móts við einstaklinga þar sem þeir eru staddir hverju sinni.
Þegar ekki eru athafnir eða viðtöl í kapellunni geta aðstandendur átt þar kyrrðarstund.
Félagsráðgjafar á Barnaspítala Hringsins styðja sjúklinga og fjölskyldur þeirra við að takast á við þær fjölþættu sálfélagslegu aðstæður sem upp geta komið í tengslum við það að eiga við veikindi að stríða og álag sem einnig getur fylgt veikindum og aðstæðum tengdum heilsufari. Þeir eru sem brú á milli spítalans og heimaumhverfis; fjölskyldulífs, heimilis og samfélags.
Foreldrar geta óskað eftir tilvísun til félagsráðgjafa hjá sínum lækni eða hjúkrunarfræðingi.
Staðsetning: Deild 22E á Barnaspítalanum
Starfsmenn: Berglind Brynjólfsdóttir sálfræðingur, Drífa Björk Guðmundsdóttir sálfræðingur, Kolbrún Björk Jensínudóttir, sálfræðingur, Ólöf Unnar Traustadóttir, sálfræðingur, María Guðnadóttir, sálfræðingur og Sigrún Þorsteinsdóttir sálfræðingur.
Sími: 543 1000
Öllum skjólstæðingum Barnaspítalans sem hafa þörf á sálfræðiþjónustu stendur hún til boða gegn innanhússtilvísun. Börnum og aðstandendum þeirra er veitt áfallahjálp, sérhæfð viðtalsmeðferð, stuðningur og ráðgjöf eftir þörfum hvers og eins.
Sálfræðingar eru virkir þátttakendur í þverfaglegu starfi hinna ýmsu teyma Barnaspítalans. Þeir sérhæfa sig í því að þjóna börnum og unglingum með ákveðna sjúkdóma og vinna í nánu samstarfi við aðrar fagstéttir.
Kynnið ykkur einnig sjúklingafræðsluna.
- Fræðslusetur foreldra - Hlekkir á fræðslusíður og hlekkir á myndbönd
- Upplýsingar fyrir systkini krabbameinsveikra barna
Sjúklingar og aðstandendur á Barnaspítala geta fengið aðgang að „gestaneti“ spítalans.
Þannig er hægt að komast í tölvupóstsamskipti og nota samfélagsmiðla og vafra á Netinu.
Smellt er á LSH-Gestanet og beðið um lykilorð sem fæst síðan sent.
- Vinsamlega virðið einkalíf annarra sjúklinga og ræðið ekki það sem þið kunnið að verða áskynja um heilsufar þeirra og hagi
- Dreifið ekki myndum af starfsfólki og sjúklingum án leyfis á samskiptamiðla
Tilmæli varðandi notkun á Netinu
Veraldarvefurinn er eins og þekkt er frábært verkfæri til að miðla þekkingu, til tengslamyndunar og til dægrastyttingar. Það er þess vegna ekki að undra að foreldrar sem dvelja með börn sín á Barnaspítalanum noti Netið til að halda tengslum við vini og ættingja, gefa upplýsingar um barnið, sjúkdóma og sína eigin líðan. Þetta er gert með bloggi, heimasíðum, dagbókum, Facebook og öðrum þess háttar miðlum.
Starfsfólk Barnaspítalans bendir á nokkrar einfaldar leiðbeiningar varðandi skrif á Netið um þá skjólstæðinga sem tengjast spítalanum. Er þetta gert með hag skjólstæðinganna að leiðarljósi.
Við biðjum um að hafa eftirfarandi í huga:
- Talið ekki um aðra sjúklinga, aðstandendur eða starfsfólk nema með leyfi viðkomandi
- Setjið ekki inn myndir af öðrum börnum, aðstandendum eða starfsfólki nema með leyfi viðkomandi
- Setjið ekki upplýsingar úr sjúkraskrá á Netið
- Setjið ekki upplýsingar eða myndir af ykkar eigin barni á Netið án þess að íhuga vandlega hvort það þjóni hagsmunum barnsins
- Virðið friðhelgi einkalífsins
Stjórnendur Barnaspítalans hafa óskað eftir því við starfsfólk sem notar Facebook í frístundum sínum að það afþakki beiðni skjólstæðinga, foreldra og aðstandenda um að gerast vinir á Facebook. Það er gert til að vernda einkalíf starfsmanna og eru skjólstæðingar og aðstandendur beðnir um að virða það.
Hins vegar viljum við gjarnan ræða beint við foreldra og aðra aðstandendur þegar þörf er á inni á sjúkrahúsinu.
Starfsmenn eru bundnir þagnarskyldu og ræða ekki um sjúklinga eða aðstandendur þeirra á Netinu.
Við viljum að Barnaspítalinn sé öruggur og góður staður að dvelja á fyrir skjólstæðinga og starfsfólk. Þess vegna er mikilvægt að virða trúnað og þagnarskyldu.
Íbúðir fyrir aðstandendur
Foreldra/aðstandendur búsettir á landsbyggðinni geta leigt íbúð á meðan barnið þeirra dvelur á spítalanum.
Íbúðirnar eru í eigu Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna og Barnaspítala Hringsins.
Hægt er að sækja um íbúð með því að senda tölvupóst. Eftirfarandi þarf að koma fram í tölvupóstinum:
Nafn:
Kennitala:
Heimilisfang:
Póstnúmer:
Staður:
Símanúmer:
Netfang:
Nafn barns:
Kennitala barns:
Fjöldi fullorðna:
Fjöldi barna:
Fjöldi barna 0-2ára:
Tímabil:
Lyftuhúsnæði:
Aðrar athugasemdir:
Netfang: mottakabh@landspitali.is