Einnig vaktir
Meinafræðideild
Meinafræðideild greinir sjúkdóma á grundvelli vefjasýna.
Jón Gunnlaugur Jónasson
Hafðu samband
Hér erum við
Landspítalalóð Hringbraut - Hús 8 og 9 við Barónsstíg
Hagnýtar upplýsingar
Meinafræðideild annast sjúkdómsgreiningar á grundvelli vefjasýna.
Rannsóknastofan tekur við sýnum frá Landspítala og flestum öðrum sjúkrahúsum landsins auk sýna sem tekin eru af heilsugæslulæknum og mörgum sérfræðilæknum.
Sýnin. Á deildinni eru rannsökuð um það bil tólf þúsund vefjasýni á ári. Sýnin eru fjölbreytileg. Mikill hluti þeirra eru lítil sýni sem tekin eru til sjúkdómsgreiningar en sem dæmi um slík sýni eru þau sem tekin eru við speglanir á meltingarvegi og húðsýni.
Líffæri sem fjarlægð eru við skurðaðgerðir eru skoðuð á deildinni. Sjúklegar breytingar eru greindar og umfang þeirra.
Sem dæmi um slík sýni eru brjóst sem fjarlægð eru að hluta eða í heild vegna æxlis.
Slík sýni eru send fersk á rannsóknastofu deildarinnar, hluti af æxlinu fjarlægður og frystur til mögulegra sérrannsókna, annar hluti æxlisins tekinn til greiningar æxlis, en í því felst m.a. tegundagreining, mat á gráðu þess, mat á hormónaviðtökum í æxlisfrumum, mat á stærð æxlis og umfangi í sýni og hvort það er nálægt skurðbrúnum.
Við mat á útbreiðslu sjúkdómsins eru oft teknir eitlar úr holhönd (varðeitlar) og er hægt að greina hvort meinvörp eru í þeim meðan sjúklingurinn er í aðgerð og er það gert með frystiskurðartækni.
Flest sýni eru hert í formalíni, sem stöðvar efnaskipti í vefnum. Úr stærri sýnum og líffærum eru teknar sneiðar sem steyptar eru í parafínkubba.
Úr þessum kubbum eru síðan skornar þunnar sneiðar sem færðar eru á gler og litaðar. Minni sýni eru steypt í heild sinni í parafínkubba.
Glerin með lituðum sneiðum úr sýnunum eru skoðuð í smásjá af læknum með sérfræðimenntun í meinafræði. Ferlið frá því að sýni berst til stofunnar þar til greining liggur fyrir tekur oftast 1-4 daga. Sumar sérrannsóknir taka lengri tíma.
Krufningarnar. Annað meginverkefni meinafræðideildar Landspítala eru krufningar og eru þær af tvennum toga: réttarkrufningar og sjúkrahúskrufningar. Í sumum tilvikum eru þeir sem deyja innan sjúkrahúss krufðir.
Tilgangur sjúkrahúskrufninga er einkum að kanna nánar eðli og umfang sjúkdóms eða sjúkdóma, sérstaklega ef sjúkdómsgangurinn var á einhvern hátt óvenjulegur.
Réttarkrufningar eru framkvæmdar að beiðni lögreglu þegar um voveifleg mannslát eða skyndidauða er
að ræða (sjá nánar upplýsingar um réttarlæknisfræði).
- Virkir dagar frá kl. 8:00-16:00.
Utan afgreiðslutíma er sérfræðingur og lífeindafræðingur á vakt.
- Upplýsingar um vakthafandi eru hjá símaveri Landspítala í síma 543 1000
Nauðsynlegt er að hafa samband við lífeindafræðing eða lækni ef senda þarf fersk sýni utan venjulegs afgreiðslutíma.
Almenn afgreiðsla | 543 8066 |
Upplýsingar um niðurstöður rannsókna | 543 8359 |
Faðernismál | 543 8361 |
Sameindameinafræði | 543 8031 |
Sérfræðilæknir á vakt | 824 5246 |
Lífeindafræðingur á vakt - vefur I | 824 5231 |
Lífeindafræðingur á vakt - vefur II | 824 5232 |
Meginverksvið sameindameinafræðideildar eru grunnrannsóknir, einkum á illkynja sjúkdómum. Á deildinni hafa á undanförnum árum m.a. verið unnar miklar rannsóknir á brjóstakrabbameini.
Á öðrum rannsóknarstofum meinafræðideildar eru einnig stundaðar vísindarannsóknir og margir af starfsmönnum stofunnar sinna kennslu heilbrigðisstétta.
Yfirlæknir meinafræðideildar
- Jón Gunnlaugur Jónasson
Yfirnáttúrufræðingur, sameindameinafræði
- Rósa Björk Barkardóttir
Yfirlífeindafræðingar
- Sigrún Kristjánsdóttir
- Fjóla Haraldsdóttir
Skrifstofustjóri ritaramiðstöð / réttarlæknisfræði
- Guðný Sigurðardóttir
Lífsýnasafn
Stjórn skipuð 6. nóvember 2021 til þriggja ára:
Anna Margrét Jónsdóttir prófessor, formaður
Jakob Jóhannsson yfirlæknir
Jón Gunnlaugur Jónasson yfirlæknir
Sigfús Þór Nikulásson sérfræðilæknir
Svanheiður Lóa Rafnsdóttir sérfræðilæknir
Varastjórn
Karl Ólafsson sérfræðilæknirLárus Jónasson sérfræðilæknir
Margrét Sigurðardóttir sérfræðilæknir
Sverrir Harðarson sérfræðilæknir
Þórarinn Gíslason yfirlæknir
Skipulagsskrá og starfsreglur lífsýnasafns LML má finna í gæðahandbók.
Ábyrgðarmaður rannsóknar sækir um afnot af lífsýnum úr lífsýnasafni LML með því að fylla út umsóknareyðublað og sendir á netfangið lml@landspitali.is
Réttarlæknisfræði
Réttarlæknisfræði (einnig kölluð réttarmeinafræði) er ein undirsérgreina læknisfræðinnar. Greinin er snertiflötur læknisfræði og réttarkerfis og má segja að þar sé læknisfræðin notuð til að leysa vandamál eða leita lausna á læknisfræðilegum atriðum er snúa að einstaklingum en í þágu réttarkerfisins.
Réttarlæknisfræði snýr fyrst og fremst að rannsóknum á dauðsföllum, en einnig áverkarannsóknum á lifandi fólki. Réttarlæknir annast réttarkrufningar að beiðni lögregluembættanna eða héraðssaksóknara og er tilgangur þeirra að komast að dánarorsök og dánaratvikum.
Dánaratvik eru það hvernig dauðann bar að garði; slys, sjálfsvíg, manndráp eða náttúrlegur dauðdagi. Dánaratvik geta einnig verið óviss.
Réttarkrufningar á Íslandi eru tæplega 300 á ári og eru einvörðungu framkvæmdar á meinafræðideild Landspítala.
Réttarkrufningum hefur farið fjölgandi með árunum. Rannsóknir sem þessar eru ávallt yfirgripsmiklar og stundum flóknar og tímafrekar, jafnvel þó um sé að ræða náttúrlegan dauðdaga.
Auk þess að ákvarða dánaratvik og dánarorsök getur réttarkrufning leitt í ljós sitthvað sem áður var óþekkt í ástandi hins látna, til dæmis sjúkdóma sem geta haft tilhneigingu til erfða og þannig gefið þýðingarmiklar upplýsingar fyrir nána aðstandendur.
Dánarvottorð er gefið út af réttarlækni strax að lokinni krufningu til að unnt sé að halda útför án frekari tafa. Dánarvottorðið berst rafrænt til sýslumanns https://island.is/danarvottord
Venjulega líða a.m.k. tveir til þrír sólarhringar frá andláti til réttarkrufningar, jafnvel lengur, sem hafa þarf í huga við tímasetningu kistulagningar og útfarar.
Upplýsingar um niðurstöður réttarkrufningar. Varðandi fyrirspurnir um rannsókn á dauðsfalli, þ.m.t. niðurstöður úr réttarkrufningum er vísað á viðkomandi lögregluembætti.
- Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu 444 1000
- Lögreglan á Suðurnesjum 444 2200
- Lögreglan í Vestmannaeyjum 444 2090
- Lögreglan á Suðurlandi 444 2000
- Lögreglan á Austurlandi 444 0600
- Lögreglan á Norðurlandi eystra 444 2800
- Lögreglan á Norðurlandi vestra 444 0700
- Lögreglan á Vestfjörðum 444 0400
- Lögreglan á Vesturlandi 444 0300
Blóðtökur vegna faðernismála fara fram á göngudeild Landspítala við Hringbraut tvo miðvikudaga í mánuði á milli kl. 16:00 og 16:45.
Tímapantanir og nánari upplýsingar: fadernismal@landspitali.is
Sími 543 8361
Réttarlæknisfræði er ævafornt fag en fyrstu kennslubækur í réttarlæknisfræði í Evrópu voru gefnar út á 17. öld og var þá kennd við þýska háskóla.
Í kringum 1750 hófst kennsla í réttarlæknisfræði við Háskólann í Kaupmannahöfn en stofnað var til fyrstu prófessorsstöðu í réttarlæknisfræði á Norðurlöndum (medicina legalis) árið 1841 við Karolinska Institutionen í Stokkhólmi.
Á Íslandi var réttarlæknisfræði kennd í Læknaskólanum í Reykjavík frá 1876. Jafnan þótti rétt að gera líkskurð á mönnum sem létust voveiflega og var Níels Dungal, prófessor í meinafræði, frumkvöðull í réttarlæknisfræðilegum störfum hérlendis og tók meðal annars upp rannsóknir í barnsfaðernismálum. Sérstakt embætti prófessors í réttarlæknisfræði við Háskóla Íslands var stofnað 1979 og samkvæmt hefð fylgdu þá rannsóknarstörf í réttarlæknisfræði innan vébanda Rannsóknastofu Háskólans.
Mörg störf réttarlæknisfræði eru fléttuð inn í almenn lækningastörf svo sem héraðslækna, slysavarðstofulækna, kvensjúkdómalækna og barnalækna.
Þau störf sem kalla má sértæk réttarlæknisfræðileg eru rannsókn dauðsfalla sem koma til kasta lögregluyfirvalda, barnsfaðernismál og glæpamál þar sem lífefni til kennslagreiningar koma við sögu.
Réttarlæknar þurfa oft á afar sértækum rannsóknum að halda t.d. kennslaburð líkamsleifa, DNA-rannsóknir í glæpamálum, skoðun bitfara og margt fleira.
Rannsóknir í réttarlæknisfræði eru í eðli sínu margslungnar sökum þess að hvert mál er sérstakt. Um er að ræða að mestum hluta réttarkrufningar og barnsfaðernismál.
Allar rannsóknir í réttarlæknisfræði eru unnar samkvæmt beiðni lögreglu eða dómsyfirvalda.