Öryggismál
Markmið öryggis á Landspítala er að tryggja öryggi sjúklinga, starfsmanna og annara sem leið eiga um starfsstöðvar og lóðir spítalans ásamt að veita áreiðanlega þjónustu þar sem lipurð og góð framkoma er aðalsmerki.
Öryggisverðir sjá um vöktun öryggis- og hússtjórnarkerfa Landspítala, hafa eftirlit með tækjum og búnaði spítalans.
Þeir annast gæslu húsnæðis Landspítala, bifreiðastæða, lóða og tryggja að aðkoma viðbragðsaðila sé greið að spítalanum.
Öryggisverðir taka stjórn og gera viðeigandi ráðstafanir í neyðarástandi þar til náðst hefur í hærra setta stjórnendur.
Öryggisverðir kunna skil á viðbragðsáætlun Landspítala, og þekkja hlutverk sín á mismunandi viðbragðsstigum spítalans.
Símanúmer öryggisvarða
Hringbraut allan sólarhringinn
Fossvogi allan sólarhringinn
Landakoti allan sólarhringinn
Grensási kl. 07:30-17:00
Eftirlitsmyndavélakerfi
Á Landspítala er eftirlitsmyndavélakerfi, rafræn vöktun, sem uppfyllir kröfur Persónuverndar.
Reglur um rafræna vöktun í húsnæði og á lóðum Landspítala (LSH)
Ábyrgðaraðili – Tilgangur – Staðsetning
Vegna öryggis- og eignavörslu starfrækir Landspítali rafræna vöktun með myndavélum og upptökubúnaði í almenningsrýmum og á lóðum spítalans.
Staðsetning myndavéla skal vera þannig að ekki sjáist inn í vistunar- eða meðferðarrými sjúklinga eða einkarými starfsmanna.
Óheimilt er að nota upplýsingar sem safnað er með rafrænni vöktun í verkstjórnarskyni, til að fylgjast með mætingum eða vinnuskilum starfsfólks.
Vöktun með leynd í húsnæði eða á lóðum Landspítala er með öllu óheimil.
Tækjabúnaður - Vinnsla – Afhending - Eyðing upplýsinga
Stafrænn búnaður er notaður við rafræna vöktun á Landspítala. Myndavélar tengjast um tölvunet spítalans.
Upptökur fara eingöngu fram þegar hreyfing er á hinu vaktaða svæði.
Heilbrigðis- og upplýsingatæknideild (HUT) og öryggisstjóri Landspítala hafa umsjón með vinnslu og eyðingu upplýsinga sem aflað er með rafrænni vöktun.
HUT, í samráði við öryggisstjóra, stýrir aðgangi að eftirlitsmyndavélum með sama hætti og að tölvukerfum Landspítala.
Deildarstjóri HUT og/eða öryggisstjóri fela tilteknum starfsmönnum takmarkaðan og tímabundinn aðgang til vinnslu upplýsinga sem aflað er með rafrænni vöktun.
Upplýsingar sem verða til með rafrænni vöktun skal ekki varðveita lengur en málefnaleg ástæða er til og aldrei lengur en í 30 daga.
Öryggisstjóri tekur ákvörðun um afhendingu gagna sem aflað er með rafrænni vöktun samkvæmt skriflegri beiðni lögreglu um slys eða meintan refsiverðan verknað. Að öðru leyti er efni sem verður til við rafræna vöktun ekki unnið frekar eða afhent öðrum nema samkvæmt dómsúrskurði.
Halda skal skrá um afhent efni úr eftirlitskerfinu.
Gætum öryggis!
- Verðmæti á ekki að skilja við sig. Varhugavert er að geyma verðmæti sýnileg í bílum á bílastæðum.
- Ef grunur vaknar um eitthvað óeðlilegt hjá eða á spítalanum, grunsamlegar mannaferðir eða annað slíkt, á að láta öryggisverði eða lögreglu strax vita.
- Þjófnaði eða önnur atvik sem kunna að koma upp á Landspítala skal tilkynna öryggisvörðum strax eða lögreglu .
- Bregðast skal við boðum frá brunaviðvörunarkerfum strax.
- Meginreglan er sú að bannað er að vera með kveikt á kertum á spítalanum.