Réttindi og skyldur
Sjúklingum eru tryggð tiltekin réttindi í lögum um réttindi sjúklinga 1997 nr. 74 28. maí í samræmi við almenn mannréttindi og mannhelgi, til að styrkja réttarstöðu þeirra gagnvart heilbrigðisþjónustunni og til að styðja trúnaðarsamband sem ríkja ber milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna.
Í 1. grein laganna kemur jafnframt fram að óheimilt er að mismuna sjúklingum á grundvelli kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Lög um réttindi sjúklinga fjalla meðal annars um
- að allir sjúklingar eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita
- að sjúklingur eigi rétt á upplýsingum um
- heilsufar, þar á meðal læknisfræðilegar upplýsingar um ástand og batahorfur
- fyrirhugaða meðferð ásamt upplýsingum um framgang hennar, áhættu og gagnsemi
- önnur hugsanleg úrræði en fyrirhugaða meðferð og afleiðingar þess ef ekkert verður aðhafst
- möguleika á að leita álits annars læknis eða annarra heilbrigðisstarfsmanna eftir því sem við á um meðferð, ástand og batahorfur
- að virða skuli rétt skuli rétt sjúklings til að ákveða sjálfur hvort hann þiggur meðferð
- að starfsmaður í heilbrigðisþjónustu skuli gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem hann kemst að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Þagnarskyldan haldist þó að sjúklingur andist og þó að starfsmaður láti af störfum
- að heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem starfs síns vegna hafa samskipti við sjúkling komi fram við hann af virðingu
- að þurfi sjúklingur að bíða eftir meðferð skuli læknir, sem hann leitar til, gefa skýringar á biðinni ásamt upplýsingum um áætlaðan biðtíma
- að sjúklingur beri ábyrgð á heilsu sinni eftir því sem það er á hans færi og ástand hans leyfir. Honum beri eftir atvikum að vera virkur þátttakandi í meðferð sem hann hefur samþykkt
- að áður en að útskrift sjúklings kemur skuli aðstæður hans kannaðar og honum tryggð fullnægjandi heimaþjónusta eða önnur úrræði eftir því sem unnt er
- dauðvona sjúklingur eigi rétt á að deyja með reisn. Gefi dauðvona sjúklingur ótvírætt til kynna að hann óski ekki eftir meðferð sem lengi líf hans eða tilraunum til endurlífgunar skuli læknir virða þá ákvörðun
- að skylt sé að gera allt sem unnt er til að sjúkt barn fái að þroskast og njóta lífsgæða þrátt fyrir veikindi og meðferð eftir því sem ástand þess leyfir.
- að athugasemdum sjúklings vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun skuli beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar.
Fleira í lögum og reglum sem snertir sjúklinga
- Lög um forvarnir og smitsjúkdóma
- Lög um heilbrigðisþjónustu
- Lög um persónuvernd
- Verklagsreglur um tilkynningarskyldu heilbrigðisstarfsfólks til barnaverndarnefnda
- Barnaverndarlög
Síðast uppfært: 8. ágúst 2020