Landspítali - háskólasjúkrahús, Reykjalundur - endurhæfingarmiðstöð SÍBS
og Heilsustofnun NLFÍ gera með sér svohljóðandi
SAMKOMULAG
um
SAMSTARFSRÁÐ UM ENDURHÆFINGU
1. Markmið samkomulagsins er að efla og samhæfa endurhæfingarstarfsemi nefndra stofnana.
2. Aðilar samkomulagsins stefna að verkaskiptingu og skipulagi á grundvelli tillögu Félags íslenskra endurhæfingalækna sbr. fskj. 1, að gefnu samþykki stjórna viðkomandi stofnana og heilbrigðisráðherra.
3. Aðilar samkomulagsins skipa Samstarfsráð um endurhæfingu til að vinna að þessum markmiðum. Ráðið skal þannig skipað:
*Landspítali - háskólasjúkrahús tilnefnir 2 fulltrúa og skal annar vera forstöðulæknir endurhæfingarsviðs.
*Reykjalundur tilnefnir 2 fulltrúa og skal annar vera lækningaforstjóri stofnunarinnar.
*Heilsustofnun NLFÍ tilnefnir 1 fulltrúa og skal það vera yfirlæknir stofnunarinnar.
4. Samstarfsráð velur sér formann til eins árs í senn, til skiptis milli aðila samkomulagsins.
Formaður boðar fundi ráðsins, undirbýr þá og stýrir. Reglulegir fundir verði haldnir a.m.k. ársfjórðungslega.
5. Helstu verkefni samstarfsráðs eru:
*að stuðla að hagkvæmustu nýtingu húsrýmis, tækjabúnaðar og mannafla.
*að miðla upplýsingum um þau endurhæfingarúrræði sem til eru á hverri stofnun hverju sinni.
*að leitast við að halda biðlistum í lágmarki og tryggja að sjúklingar séu á réttu þjónustustigi m.a. með starfsemi 5 daga deilda, dagdeilda og þverfaglegrar göngudeildarþjónustu.
*að stuðla að samstarfi við aðra þá sem að láta sig málefni endurhæfingar varða.
*að samhæfa form innlagnarbeiðna, meðferðarskráninga, árangursmats og annarra gagna er stuðla að bættri endurhæfingarþjónustu.
6. Samstarfsráð skal árlega skila skýrslu um framgang og árangur samstarfsins til stjórna viðkomandi stofnana og Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og komi samkomulag þetta til endurskoðunar í framhaldi af því.
Reykjavík 7. júní 2000