Bréf frá Karli Sigurbjörnssyni biskupi Íslands til Landspítala - háskólasjúkrahúss, dagsett. 22. ágúst 2000:
Þjóðin öll hefur verið slegin og djúpt snortin yfir þeim tíðu og alvarlegu slysum sem riðið hafa yfir á undanförnum vikum. Hugur okkar og fyrirbæn hefur verið hjá þeim sem þar hafa misst ástvini, margra unga að árum, missir þeirra er mikill.
Við vitum líka um skyldur spítalans þegar slys ber að höndum. Með aðdáum og þökk höfum við fylgst með því góða starfi sem unnið er af hálfu Landspítalans, þar sem samstilltur hópur frábærs starfsfólks kemur að málum til líknar, lækningar og margvíslegrar aðhlynningar til líkama og sálar.
Í morgun átti ég fund með sjúkrahúsprestum og djáknum spítalans. Ræddum við þjónustu þeirra og samstarfsfólkins á spítalanum og ýmislegt það sem lýtur að sálgæslu og andlegri aðhlynningu, og það stuðningsnet eftirfylgdar sem er að finna hjá prestum og djáknum í sóknum landsins. Lýstu þau mikilli ánægju með allt samstarf og stuðning innan spítalans og hversu mikils virði það er þeim og að ég hygg einnig öðru starfsfólki spítalans að eiga þau að. Í öllum aðstæðum sorgar og harms er ómetanlegt að finna stuðning og samstöðu annarra.
Fyrir þetta allt vil ég þakka sérstaklega. Ég vil leitast við að styðja þessa dýrmætu starfsmenn kirkjunnar eftir megni og er reiðubúinn að stuðla að því að gott samstarf eflist og styrkist enn í þjónustu kirkju og sjúkrahúsanna.
Með bæn um blessun Guðs, styrk og leiðsögn.
Virðingarfyllst
Karl Sigurbjörnsson