Afhjúpaður verður minnisvarði sunnudaginn 17. september á túni Landaskotskirkju til minningar um framlag St. Jósefsystra til sjúkrahúsmála á Íslandi. Þetta verður gert að lokinni hátíðarmessu í Kristskirkju sem hefst kl. 10.30. Minnisvarðinn er gerður að frumkvæði menningarmálanefndar Reykjavíkur með liðsstyrk kristnihátíðarnefndar, í þakklætisskyni fyrir fórnfúst starf systranna að hjúkrun sjúkra og uppfræðslu barna. Steinunn Þórarinsdóttir listakona var fengin til að gera höggmynd sem fengið hefur nafnið "Köllun". Yfirpríórinna St. Jósefssystra í Danmörku, systir Ansgaria Riemann, afhjúpar minnisvarðann. Við messuna verða biskupar kaþólsku kirkjunnar á Norðurlöndum en þeir halda nú haustfund sinn hér.
Árið 1996 voru 100 ár síðan fyrstu Jósefssystur komu til Íslands og hófu að hlynna að sjúkum og fátækum og kenna börnum. Fyrsta sjúkrahúsið í Reykjavík reistu þær 1902, skólabyggingu í Landakoti 1909, spítala í Hafnarfirði 1926 og skóla í kjölfarið. St. Jósefssystur stjórnuðu sjúkrahúsum í Reykjavík, Hafnarfirði og Landakotsskóla áratugum saman og einnig nutu Fáskrúðsfjörður og Garðabær hjálparstarfs þeirra meðal annarra.