Stofnfundur læknaráðs Landspítala - háskólasjúkrahúss
Stofnfundur læknaráðs LSH var haldinn fimmtudaginn 19.október sl. að Hlíðarsmára 8 í Kópavogi.
Formaður fráfarandi starfsstjórnar læknaráðs LSH, Sverrir Bergmann, setti fund og bauð hina fjölmörgu lækna sem fundinn sóttu sem og gesti velkomna. Tryggvi Ásmundsson læknir, fyrrum formaður læknaráðs Landspítalans við Hringbraut stýrði síðan fundi og fundarritari var Halldór Kolbeinsson ritari fráfarandi starfsstjórnar LSH.
Formaður fráfarandi starfsstjórnar læknaráðs LSH flutti skýrslu stjórnar. Hann greindi frá verkefnum þeim, sem starfsstjórninni höfðu verið fengin í hendur og hvernig að þeim verkefnum hefði verið unnið.
Aðalfundir læknaráða Landspítalans við Hringbraut og Sjúkrahúss Reykjavíkur haldnir 26. maí 2000 höfðu samþykkt að starfsstjórnin skyldi í fyrsta lagi annast lögbundið hlutverk læknaráðs, í öðru lagi að semja reglugerð fyrir læknaráð LSH með samræmingu reglugerða Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítalans, í þriðja lagi að ákvarða með hverjum hætti kosningar skyldu fara fram til stjórnar læknaráðs LSH, í fjórða lagi að ákvarða nefndir LSH og hvernig til þeirra skyldi kjörið og loks að sameina sjóði á vegum læknaráðanna með því m.a. að samræma reglugerðir um starfsemi þeirra.
Hvað varðar hið lögbundna hlutverk læknaráðs vék formaður að helstu erindum sem til læknaráðs hafði verið beint af framkvæmdastjórn LSH. Formaður harmaði að ekki hefði verið tekið fullt tillit til ábendinga læknaráða Landspítalans og Sjúkrhúss Reykjavíkur um sviðaskiptingu LSH og ennfrekar að ekki hefði verið farið eftir ábendingum læknaráðs LSH um skipan sviðsstjóra á lækningasviði. Mun læknaráð væntanlega ákveða að biðja um skriflega skýringar á ákvörðunum í sambandi við val sviðsstjóra á lækningasviði.
Starfsstjórnin samdi reglugerð fyrir læknaráð Landspítala- háskólasjúkrahús. Reglugerð þessi hafði verið kynnt öllum læknum með tveggja vikna fyrirvara á heimasíðu læknaráðs en var lögð fram á stofnfundinum og samþykkt með óverulegum breytingum. Þessi reglugerð birtist í heild sinni, en hún hefur verið send stjórn LSH til samþykktar og er þess vænst að slík samþykkt fáist á reglugerðinni, en ekki liggur hún fyrir þegar þetta er ritað. Reglugerðin birtist hins vegar í heild sinni.
Hvað varðar hinn þriðja og fjórða lið er í reglugerðinni ákvæði um kosningar og þar eru einnig upptaldar nefndir á vegum læknaráðs LSH og hvernig til þeirra er kosið og er til þessa vísað í reglugerðinni.
Hvað hinum síðasta lið viðkemur var samþykkt að stofna sérstakan starfshóp til að ganga endanlega frá nýrri stofnskrá fyrir Vísindasjóð LSH og var samþykkt þar af leiðandi tillaga með greinargerð sem birtist hér jafnframt.
Í stjórn læknaráðs LSH voru kjörnir: Sverrir Bergmann formaður, Gestur Þorgeirsson varaformaður og Halldór Kolbeinsson ritari. Hlutu þeir einróma kjör allir.
Á næstu tveimur vikum munu þau svið og sjálfstæðar þjónustueiningar sem ekki eiga fulltrúa í stjórn læknaráðs tilnefna fulltrúa sinn í stjórnina og auk þess munu ungir læknar tilnefna fulltrúa sinn. Hin nýkjörna stjórn læknaráðs mun sjá til þess að kosningar þessar gangi eftir innan tveggja vikna.
Þegar allir ofangreindir aðilar hafa tilnefnt fulltrúa í stjórnina munu stjórnarmenn tilnefna tvo meðstjórnendur til viðbótar formanni, varaformanni og ritara og munu þessi(r) fimm mynda framkvæmdastjórn læknaráðs LSH.
Nefndir læknaráðs eru og í þær kjörið svo sem hér fer á eftir:
1. Bráðanefnd. Formaður Jón Baldursson með honum í nefndinni: Arnaldur Valgarðsson, Bogi Jónsson, Davíð Arnar og Þórður Sigmundsson, en auk þess munu verða í nefndinni læknar frá hverju sviði eða sjálfstæðri þjónustueiningu LSH, sem ekki eiga fyrir fulltrúa í nefndinni.
2. Fræðslunefnd. Formaður Gunnar Guðmundsson og með honum í nefndinni: Arnór Víkingsson, Björn Árdal, Helga Hansdóttir og Sigurður Bogi Stefánsson, en að auki mun tilnefndur læknir frá hverju sviði og sjálfstæðri þjónustueiningu sem ekki eiga þegar fulltrúa í nefndinni.
3. Sjúkraskrárnefnd. Formaður Sigurður Örn Hektorsson og með honum í nefndinni Engilbert Sigurðsson og Páll H. Möller.
4. Skipulags-og þróunarnefnd. Formaður Bjarni Torfason og með honum í nefndinni Árni Þórsson, Runólfur Pálsson og Sigurður Ólafsson.
5. Starfs-og gæðanefnd. Formaður Haukur Hjaltason og með honum í nefndinni Jón Högnason og Þorsteinn Blöndal.
6. Stöðunefnd. Formaður Guðmundur Geirsson, og varaformaður er Páll H. Möller. Einstök svið og sjálfstæðar þjónustueiningar munu tilnefna fulltrúa og varafulltrúa í stöðunefnd. Í starfsreglum stöðunefndar mun kveðið svo á að um hverja umsókn fjalli formaður auk þriggja fulltrúa úr stöðunefnd og komi einn þeirra af því sviði eða frá þeirri sjálfstæðri þjónustueiningu, þar sem sótt er um stöðu á.
7. Sýkingavarnanefnd. Formaður Þórólfur Guðnason og með honum í nefndinni Guðjón Haraldsson, Hjördís Harðardóttir og Hugrún Ríkharðsdóttir.
Þá voru kjörnir fulltrúar læknaráðs LSH í nefndir sem skipaðar eru með eða af framkvæmdastjórn.
8. Í lyfjanefndvoru kjörnir Már Kristjánsson og Sigurður B. Þorsteinsson. Framkvæmdastjórn tilnefnir einnig í nefnd þessa og tilnefnir formann, sem nú er Sigurður B. Þorsteinsson.
9. Siðanefnd. Fulltrúar læknaráðs LSH voru kjörnir: Aðalsteinn Guðmundsson, Finnbogi Jakobsson, Ólöf Sigurðardóttir og Sigurjón Stefánsson. Framkvæmdastjórn skipar aðra í siðanefnd. Hún tilnefnir formann. Alls skulu 7 vera í nefndinni. Þessi siðanefnd fjallar um vísindarannsóknir. Hún verður skipuð samkvæmt 2. grein reglugerðar útgefinni af heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytinu, sem kveður á um að siðanefndir skuli vera við heilbrigðisstofnanir eins og LSH.
10. Í siðfræðinefnd voru kjörnir fulltrúar læknaráðs LSH þeir Ingvar Kristjánsson, Jón Eyjólfur Jónsson og Ólafur Þ. Jónsson. Framkvæmdastjórn tilnefnir í þessa nefnd sem er þverfagleg, alls skipuð 7 einstaklingum og framkvæmdastjórn tilnefnir formann.
11. Í tækjakaupanefnd voru kjörnir fulltrúar læknaráðs LSH: Eiríkur Benjamínsson, Elías Ólafsson, Karl Andersen, Ólafur Kjartansson og Stefán Matthíasson. Framkvæmdastjórn tilnefnir einnig í nefnd þessa og hún tilnefnir formann.
12. Í tölvunefnd voru kjörnir fulltrúar læknaráðs LSH, Eyþór Björnsson, Jóhann Heiðar Jóhannsson og Óskar Einarsson. Framkvæmdastjórn skipar einnig í tölvunefnd og tilnefnir formann.
Í hinum sameiginlegum nefndum með framkvæmdastjórn hefur Sigurður B. Þorsteinsson gengt formennsku í lyfjanefnd eins og fyrr er fram komið. Í tækjakaupanefnd hefur Ólafur Kjartansson gengt stöðu formanns og í tölvunefnd hefur Jóhann Heiðar Jóhannsson setið í formannssæti. Læknaráð mun leggja áherslu á að fulltrúi lækna verði tilnefndur formaður siðanefndar. Hefur Finnbogi Jakobsson tjáð sig fúsan til að taka það embætti.
Í allar nefndir var kjörið mótframboðslaust og með eindregnu samþykki allra fundarmanna.
Að lokinni dagskrá stofnfundarins flutti Ólafur Ólafsson fyrrum landlæknir erindi um stjórnunarstöðu lækna, Eiríkur Benjamínsson formaður Lífeyrissjóðs lækna skýrði stöðu lífeyrismála lækna eins og hún nú er og hvað er framundan, og Ingunn Vilhjálmsdóttir formaður samninganefndar sjúkrahúslækna skýrði grunnatriði í kröfugerð í væntanlegum kjarasamningum.
Í lok fundarins þakkaði nýkjörinn formaður það traust sem honum, varaformanni og ritara væri sýnt og vænti mikils af starfsemi læknaráðs og nefndum þess. Hann þakkaði fyrrum fulltrúum í starfsstjórn mikið starf og góða samvinnu. Hann þakkaði líflegar og gagnlegar umræður á fundinum, innlegg hinna sérnefndu ræðumanna og þakkaði loks Læknafélagi Íslands fyrir höfðingsskap, en fundurinn var haldinn í húsakynnum þess í boði félagsins og fram bornar góðar veitingar.
Læknaráð LSH væntir þess að innan þriggja vikna hefjist starfsemi þess að fullu, enda verði það þá alskipað og hefji vinnu með nefndum sínum, auk þess að gæta hins lögskipaða hlutverk síns. Nú þegar æ fleiri flytjast að því að virðist hinum megin við borðið góða, verður læknaráð sannari grasrótarsamtök, sem stjórnin fer með umboð fyrir. Án rótar mun ekkert vaxa sem lifað fær, en af góðum rótum rís fagur ávöxtur.