ÍslandsbankiFBA færði í dag fæðingardeild Landspítala – háskólasjúkrahúss að gjöf eina milljón króna til kaupa á tæki til ómskoðana. Slíkt tæki hefur ekki verið til á deildinni en auðvelt er að flytja það milli herbergja. Í húsi kvennadeildar eru 3 stór ómtæki sem notuð eru við fósturgreiningu. Þau henta hins vegar ekki til þess að færa úr stað. Nýja tækið er því ákaflega kærkomin viðbót við tækjakost fæðingardeildar.Hekla hf.
Valur Valsson bankastjóri ÍslandsbankaFBA afhenti Magnúsi Péturssyni forstjóra einnar milljónar króna ávísun við athöfn í dag í Hreiðrinu á kvennadeild, að viðstöddum fleiri fulltrúum bankans, seljanda ómtækisins og starfsfólki spítalans, þar á meðal Guðrúnu G. Eggertsdóttur yfirljósmóður fæðingardeildar. Ómtækið má nota við ýmsar aðstæður:
1. Við tvíburafæðingar. Oft er erfitt að meta klínískt hvernig fóstur ber að eftir að fyrri tvíburi er fæddur. Því er nauðsynlegt að hafa ómtæki til taks við tvíburafæðingar, til að kanna legu tvíbura B.
2. Að meta legu fósturs. Þegar kona kemur inn í fæðingu er stundum erfitt að meta hvort fóstur er í höfuðstöðu eða sitjandi stöðu. Einföld sónarskoðun leysir úr þeim vanda.
3. Að meta legvatnsmagn. Þegar konur eru komnar meira en viku fram yfir áætlaðan fæðingardag koma þær til eftirlits á fæðingargang. Þá er ástand móður og fósturs metið en legvatn minnkar oft á þessum tíma. Legvatn er hinsvegar nauðsynlegt fyrir fóstrið og of lítið legvatn getur verið vísbending um vanlíðan fósturs og að nú sé kominn tími til að framkalla fæðingu. Legvatnsmagn er auðvelt að meta með ómskoðun.
4. Að meta stærð fósturs. Þótt flestar konur fæði eftir fulla meðgöngu þá skapast stundum vandamál þegar fæðing fer að stað löngu fyrir áætlaðan fæðingardag. Þá er gjarnan reynt að stöðva sóttina með lyfjum en mikilvægt er að hafa hugmynd um stærð(þyngd) fósturs og hvort það sé eðlilega vaxið miðað við tíma, en slíkt gefur barnalæknum betri hugmynd um hvað þeir eiga í vændum ef af fæðingu verður. Út frá sónarmælingum á búk, kolli og lærlegg má meta þyngd fósturs.
5. Að meta fylgjustaðsetningu. Eins og er fara allar konur í ómskoðun við 19 vikur m.a. til að kanna fylgjustaðsetningu. Stundum er fylgja lágsæt og þarf að endurskoða síðar, en ef kona kemur inn í fæðingu áður en endurmat á fylgju er gert eða með blæðingu, er æskilegt að hafa sónartæki á staðnum til að meta fylgjustaðsetningu.6. Að meta legháls. Við fæðingar fyrir áætlaðan fæðingardag er stundum æskilegt að meta legháls með ómun.