Barnaspítala Hringsins og barnadeild Landspítala Fossvogi bárust margar gjafir og stuðningur einstaklinga, félaga og fyrirtækja á árinu 2000. Aðal styrktaraðili Barnaspítala Hringsins frá stofnun hans er Kvenfélagið Hringurinn. Sem fyrr hafa konurnar í því unnið ötullega að málefnum Barnaspítalans en þær styrkja á öflugan hátt byggingu nýja Barnaspítalans. Thorvaldsensfélagið hefur verið styrkasti bakhjarl barnadeildar í Fossvogi. Sem fyrr styrktu þær hana af myndarskap á árinu 2000. Margir aðrir veittu barnasviði styrk á árinu, meðal þeirra eru verslanir Bónus, Lionsklúbburinn Fjörgyn og fyrirtækið Hekla, sem öll hafa verið barnasviði öflugur bakhjarl. Ýmsir einstaklingar lögðu einnig sitt af mörkum. Meðal þeirra var Erna Arnardóttir, sem gaf vökudeild Barnaspítala Hringsins fullkominn hitakassa í tilefni af afmæli sínu. Stofnað var góðgerðarfélagið Barnið okkar sem gaf út hljómdisk árið 2000. Ágóði af sölu disksins var notaður til kaupa á fullkomnu lungnarannsóknartæki fyrir barnasvið. Þá hefur Bókaútgáfan Stoð og Styrkur stutt Barnaspítalann með ágóða af sölu bókar.
Gjafir og stuðningur við barnasvið
Gjafir og stuðningur við barnasvið