Framkvæmdastjórn Landspítala - háskólasjúkrahúss samþykkti á fundi sínum 20. mars 2001 eftirfarandi um sameiningu sérgreina:
Að undanförnu hafa hjúkrunarforstjóri og lækningaforstjóri ásamt sviðsstjórum hlutaðeigandi sviða undirbúið sameiningu nokkurra sérgreina og hvernig henni verður best hagað. Þjónustu þarf í vissum tilvikum að tryggja í báðum húsum.
Lagt er til að nú verði ákveðin sameining eftirfarandi sérgreina:
Taugadeildir verði sameinaðar frá mánaðamótum mars/apríl nk. Deildin verði staðsett í Fossvogi. Húsnæði deildarinnar verði á A-2 eða B-2 þegar húsnæðið hefur verið rýmt og það gert upp.
Aðalsetur endurhæfingarþjónustu verði á Grensási. Legudeildir verði þar og starfsemin raðast í húsið eftir því sem greiðist úr skrifstofuaðstöðu starfsfólks og taugadeild flytur.
Smitsjúkdómadeildir verði sameinaðar frá mánaðamótum mars/apríl nk. Deildin verði staðsett á A-7 í Fossvogi. Störf yfirmanna verði auglýst laus til umsóknar um næstu mánaðamót en sett í stöðurnar tímabundið.
Lungnalækningar verði formlega sameinaðar og störf yfirmanna auglýst eigi síðar en 1. maí. Yfirmenn verði settir tímabundið. Lungnadeild spítalans verði staðsett á A-6 í Fossvogi og legudeild flutt þangað eigi síðar en 1. september nk. Unnið er að því að finna göngudeild lungnalækninga húsnæði í eða við spítalann.
Krabbameins- og blóðfræðideildir verði formlega sameinaðar frá mánaðamótum mars/apríl og starfsemin verði staðsett við Hringbraut strax og húsnæðisaðstæður leyfa. Störf yfirmanna verði auglýst eigi síðar en 1. maí nk. og frá þeim tíma sett í stöðu yfirmanns.
Þá er lagt til að eftirfarandi tvö mál verði ákveðin eigi síðar en í 17. viku, þ.e. 23.-27. apríl nk.:
Undir stjórn lækningaforstjóra er nú til athugunar hvernig geðlækningum í Fossvogi verði háttað. Í því efni kemur til álita að starfsemi geðdeildar á A-2 verði verulega breytt. Niðurstöður hér um munu liggja fyrir strax eftir páska. Ákvörðun um nýtingu 32A við Hringbraut verði tekin samhliða niðurstöðu þessarar skoðunar.
Staðsetning og skipulag slysa- og bráðaþjónustu spítalans hefur verið til skoðunar, m.a. staðsetning og meðferð hjartalækninga í næstu framtíð. Danskir ráðgjafar munu skila áliti 3. apríl nk. um húsnæðisþörf fyrir starfsemi spítalans. Rétt þykir að álitsgerð Dananna liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin. Þá hafa hjartalæknar skilað greinargerð um þetta efni og lækningaforstjóri og hjúkrunarforstjóri hafa haft málið til sérstakrar skoðunar.