Örugg blóðgjöf
Skjólstæðingar Neistans, stuðningsfélags hjartveikra barna, eiga batavonir mikið undir blóðgjöfum og blóðgjafaþjónustunni í landinu. Á Íslandi erum við svo lánsöm að eiga frábæra blóðgjafa sem af ósérhlífni gefa blóð sitt sjúkum, einstaklingum sem eiga um sárt að binda. Án blóðgjafa væri ekki hægt að stunda nútíma heilbrigðisþjónustu. Án núverandi skipulags blóðgjafaþjónustunnar byggjum við ekki við það öryggi sem við gerum í dag.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin WHO helgaði árið 2000 málefni öruggrar blóðgjafar.
Stofnunin bað yfirstjórnir þjóðanna að skoða í eigin ranni hvernig blóðgjafaþjónustunni væri best fyrir komið svo öryggi blóðgjafarinnar væri tryggt. Það er óumdeilt að skipan mála eins og hún gerist á Íslandi, sem og í mörgum þjóðlöndum heimsins, að blóðgjafarnir gefi blóð sitt af fúsum og frjálsum vilja án þess að þiggja greiðslu fyrir, sé sú öruggasta hvað gæði blóðsins snertir. Hitt er annað mál að alltaf má gera betur í aðbúnaði við blóðgjafana. Blóðgjafarnir, sem af hugsjón koma til að gefa blóð sitt, eru einstaklingar sem ekki eru háværir um kröfur sínar um bættan aðbúnað. Núverandi húsnæði Blóðbankans er sprungið og er svo komið að ekki verður lengur gengið á það rými sem blóðgjöfunum er ætlað.
En hvert er viðhorf almennings til blóðgjafaþjónustunnar í landinu? Í nýlegri skoðanakönnun sem gerð var um það efni kom fram að í þjóðfélaginu ríkir mikill velvilji í garð Blóðbankans og blóðgjafastarfseminnar.
Mikill meirihluti aðspurðra höfðu orðið varir við auglýsingar og kynningu frá Blóðbankanum í fjölmiðlum.
Einnig taldi mikill meirihluti þátttakenda að Blóðbankinn hafa staðið sig mjög eða frekar vel í kynningarmálum.
Yfir 90% aðspurðra voru ýmist ánægðir eða mjög ánægðir með þjónustu Blóðbankans. Þetta er árangur sem hvaða aðili sem er í þjóðfélaginu gæti verið stoltur af.
Meðal athyglisverðra niðurstaða má nefna að þegar aldursdreifing blóðgjafa er skoðuð, kemur í ljós að konur í hópi blóðgjafa eru hlutfallslega mun yngri en karlarnir.
Það kemur einnig heim og saman við ástæður þess að fólk hættir að gefa blóð. Skýr kynslóðamunur kom fram þegar spurt var hvernig minna ætti á blóðgjöf. Möguleikarnir sem nefnir voru, voru að láta hringja í sig, senda tölvupóst og senda SMS skilaboð. Við spurningunni um hvers vegna hélstu áfram að gefa, svöruðu flestir að félagsleg ábyrgðaskylda lægi að baki.
Hér hafa verið nefnd nokkur atriði sem fram komu í áðurnefndri könnun, en þau voru fjölmörg sem nýta má til stuðnings uppbyggingar blóðgjafaþjónustunnar.
Yfirvöld heilbrigðismála geta lesið út úr könnunum sem þessum að núverandi skipan blóðgjafaþjónustunnar á sér hljómgrunn meðal almennings og geta stutt við viðhald og áframhaldandi uppbyggingu hennar. Öll góð málefni eiga sér rætur í mikilli vinnu þeirra sem að þeim standa. Við þurfum að halda vöku okkar og hvergi slaka á kröfum okkar til þjónustunnar, því það er okkar hagur að öryggi blóðgjafarinnar sé í öndvegi haft. Okkur þykir sjálfsagt að hjartveik börn sem og aðrir sjúkir einstaklingar eigi kröfu aðeins á því besta og víst er að blóðgjafar þessa lands leggja sitt af mörkum til að svo megi verða.
Blóðgjafafélag Íslands er félagskapur blóðgjafa sem hefur að markmiði að vera í forsvari fyrir blóðgjafa þessa lands, vera umsagnaraðili um málefni blóðgjafa og vera hagsmunaaðili þeirra. Blóðgjafafélag Íslands er aðili að alþjóðasamtökum blóðgjafélaga, en þau eiga öll það sameiginlega markmið að blóðgjafar gefi blóð sitt af fúsum og frjálsum vilja, án endurgjalds. Að þjóðir heimsins séu sjálfar sér nægar um blóð og afurðir þess og að ekki verði verslað með blóð á almennum markaði.
Á Íslandi standa um níu þúsund einstaklingar undir þeirri eftirspurn sem þjóðfélagið gerir til blóðgjafa en árið 2000 voru virkir blóðgjafar rúmlega 14 þúsund og þar af voru nýskráðir blóðgjafar 2298.
Athyglisverð aukning hefur átt sér stað meðal kvenna sem gefa blóð á síðustu misserum, en leiða má rök að því að í þeirra hópi sé einmitt mestu líkur á nýliðun í blóðgjafahópnum.
Blóðgjafafélagið og Blóðbankinn vilja þakka blóðgjöfum og almenningi þessa lands fyrir frábærar viðtökur og þann hljómgrunn sem fram hefur komið í garð blóðgjafaþjónustunnar.
Fyrir hönd Blóðgjafafélags Íslands.
Björn Harðarson, formaður BGFÍ.