Konur geta líka gefið blóð.
Þannig hljómar eitt af slagorðum Blóðbankans. Og af hverju ?
Flest okkar sem gefum blóð, gerum það af tillitsemi við samborgarann og af því við viljum láta gott af okkur leiða.
Meðal þeirra sem ekki gefa blóð, eru algengar ástæður að fólk annaðhvort heldur að það geti ekki gefið blóð eða að það hefur bara ekki hugsað út í það.
Meðal kvenna er mjög algengt að heyra að þær geti ekki gefið blóð af því þær hafi ekki nægilega mikið af því í líkamanum. Víst er að konur hafa minna blóð en karlar frá náttúrunnar hendi, svona að öllu jöfnu. Þess vegna er það rétt að það er algengara meðal kvenna, en karla, að geta ekki gefið blóð. Hitt er annað mál að þessi ástæða er örugglega töluvert orðum aukin og mun fleiri konur geta gefið blóð en gera það í dag.
Sú ánægjulega þróun hefur átt sér stað á síðustu misserum að hlutur kvenna meðal blóðgjafa hefur farið vaxandi. Þess má geta að nú hefur fyrsta konan náð að gefa 50 sinnum blóð í Blóðbankanum. Þessum tímamótum verður sérstaklega fagnað nú á aðalfundi Blóðgjafafélags Íslands í enda febrúar.
Fram til þessa hefur íslenski blóðgjafahópurinn verið borinn uppi af körlum og til langs tíma hefur hlutafall kvenna verið u.þ.b. 10%.
Hlutur kvenna meðal blóðgjafa hjá nágrannaþjóðum okkar er mun stærri og í sumum tilfellum eru konur í meirihluta blóðgjafa. Ástæður fyrir rýrum hlut kvenna meðal blóðgjafa á Íslandi eru án efa nokkrar.
Söguleg skýring gæti verið að blóðgjafaþjónustan á íslandi er ung að árum. Á stríðstímum voru konur hvattar til að gefa blóð á meðan karlarnir börðust á vígstöðvunum. Einnig má benda á að á meðal nágrannaþjóða okkar eru konur minntar reglulega á að gerast blóðgjafar ef til ófriðar komi. Þannig má segja að í vitund þessara þjóða sé gert ráð fyrir að konur geti borið uppi stóran hluta blóðgjafaþjónustunnar. Þessi skýring hefur, sem betur fer, ekki átt við á Íslandi svo af þeim ástæðum hefur ekki verið lögð áhersla á hana.
Meðal ástæða sem vissulega eiga við á íslandi er að við þurfum á kvenkynsblóðgjöfum að halda til auka fjölbreytni í íslenska blóðgjafahópnum.
Á síðasta ári gáfu fleiri konur blóð en nokkru sinni áður. Það er mikið öryggi fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi að geta sótt í breiðan og tryggan hóp einstaklinga að gefa blóð. Dæmin erlendis frá sanna að stórir hópar einstaklinga geta útilokast frá blóðgjöf með skömmum fyrirvara.
Konur geta líka gefið blóð.