Skipulagsskrá
Vísindasjóðs
Landspítala - háskólasjúkrahúss
1. gr.
Sjóðurinn heitir Vísindasjóður Landspítala - háskólasjúkrahúss. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr.
Stofnfé sjóðsins er kr. 35.710.055. Það er fé sem var í Vísindasjóði Borgarsjúkrahúss Reykjavíkur þann 1. janúar 2001 kr. 33.710.055, en sá sjóður var stofnaður til minningar um Þórð Sveinsson, lækni og Þórð Úlfarsson, flugmann, með skipulagsskrá staðfestri 5. janúar 1964 og fé úr Vísindasjóði Landspítalans 10. maí 2001 kr. 2.000.000, en starfsreglur hans voru samþykktar af heilbrigðisráðherra þann 31. október 1994.
3. gr.
Tilgangur sjóðsins er að styrkja og efla vísindarannsóknir, athuganir og tilraunir í vísindalegum tilgangi á Landspítala - háskólasjúkrahúsi eða í náinni samvinnu við það. Aðild að sjóðnum eiga allir háskólamenntaðir starfsmenn LSH.
4. gr.
Stjórn sjóðsins skipa fimm menn. Einn skal tilnefndur af læknaráði LSH, einn af hjúkrunarráði LSH og einn af skrifstofu kennslu, vísinda og þróunar. Skulu tveir tilnefndir af stjórnarnefnd LSH og annar þeirra vera formaður og hinn úr hópi annarra háskólastétta en lækna og hjúkrunarfræðinga. Skipunartími stjórnar er fjögur ár. Stjórnin ákveður hversu miklu fé skuli úthluta hverju sinni. Úthlutun styrkja fer fram einu til tvisvar sinnum á ári að fengnum tillögum úthlutunarnefndar. Stjórnin skipar úthlutunarnefnd og setur henni starfsreglur.
5. gr.
Tekjur sjóðsins eru:
Árlegt framlag LSH samkvæmt ákvörðun stjórnarnefndar.
Framlög fyrirtækja vegna rannsóknasamninga við LSH og starfsmenn hans.
Framlög frá opinberum aðilum og einstaklingum.
Gjafir sem sjóðnum berast.
Vaxtatekjur.
Aðrar tekjur.
Stjórninni er skylt að ávaxta fé sjóðsins á sem hagkvæmastan hátt.
Ekki má skerða höfuðstól sjóðsins við úthlutun styrkja svo mikið að ekki standi ávallt eftir a.m.k. kr. 25.000.000 sem haldi verðgildi sínu á hverjum tíma.
6. gr.
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Skrifstofa fjárreiðna og upplýsinga LSH annast fjárreiður sjóðsins og bókhald f.h. sjóðsstjórnar. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun og þeir birtir með ársskýrslu LSH.
7. gr.
Samþykki meirihluta stjórnar sjóðsins þarf til að breyta skipulagsskrá þessari. Leita skal samþykkis stjórnarnefndar LSH fyrir breytingunum. Verði sjóðurinn lagður niður rennur fé hans til annarrar sambærilegrar starfsemi.
8. gr.
Leita skal staðfestingar dómsmálaráðherra á skipulagsskrá þessari. Jafnframt fellur úr gildi skipulagsskrá Vísindasjóðs Borgarsjúkrahúss Reykjavíkur sem staðfest var þ. 5. janúar 1964 svo og starfsreglur Vísindasjóðs Landspítalans staðfestar af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 31. október 1994.
Samþykkt á fundi stjórnarnefndar
Landspítala - háskólasjúkrahúss
8. maí 2001.