Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Landspítala - háskólasjúkrahúss um uppbyggingu háskólasjúkrahúss, kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindagreinum
Efnisyfirlit samnings:
1. Inngangur
2. Gildissvið samnings
3. Markmið og tilgangur samningsaðila
4. Ábyrgðarsvið HÍ og LSH
5. Skilgreining og skipulag fræðigreina
6. Stjórnun sviða
7. Önnur atriði
8. Framhald samningsgerðar og endurskoðun
Fylgiskjal
Bókun
1. Inngangur
Aðilar samnings þessa eru Háskóli Íslands (HÍ), kt. 600169-2039 og Landspítali-háskólasjúkrahús (LSH), kt. 500300-2130. Samningurinn er háður samþykki háskólaráðs og stjórnar-nefndar LSH og tekur gildi við staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins, sbr. bráðabirgðaákvæði laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands.
Samningurinn er gerður vegna þess að:
- bráðabirgðaákvæði háskólalaga frá 1. maí 1999 gerir ráð fyrir að samkomulag milli þessara stofnana skuli gert innan tveggja ára frá gildistöku laganna og að samkomulagið leysi þá af hólmi 38. grein eldri laga um Háskóla Íslands nr. 131/1993, sem þar með fellur úr gildi;
- aðilar samningsins hafa á liðnum árum þróað sín á milli formlegt og óformlegt samstarf um kennslu og rannsóknir sem þeir vilja skilgreina með skýrum hætti;
- samningsaðilar áforma að efla og bæta þjónustu sjúkrahússins við sjúklinga, kennslu, rannsóknar- og vísindastarf.
2. Gildissvið samnings
Samningur þessi gildir um samskipti og samvinnu LSH og HÍ og um kennslu, rannsóknir og þjálfun í heilbrigðisvísindagreinum sem kenndar eru við HÍ og stundaðar eru á LSH.
Samningurinn myndar ramma um samskipti samningsaðila. Á grundvelli hans verða gerðir skuldbindandi samningar um sameiginlega starfsmenn, starfsaðstöðu og fjármál auk þess sem verklagsreglur verða settar um einstaka þætti. Samningurinn byggir á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum, sbr. fylgiskjal. Verði breytingar á stjórnskipulagi samningsaðila skulu ákvæði samningsins eiga við um nýja eða breytta skipan, nema sérstaklega sé um annað samið.
3. Markmið og hlutverk samningsaðila
Megintilgangur háskólastarfsemi er skipuleg viðleitni til að afla, skapa og varðveita þekkingu og miðla henni til nemenda, fræðasamfélagsins og almennings.
Á háskólasjúkrahúsi fer þessi starfsemi fram í nánum tengslum við þá þjónustu sem veitt er sjúklingum.
Í þágu sameiginlegra markmiða samningsaðila er með samningi þessum leitast við að nýta sem best sérþekkingu, kunnáttu, efnivið og aðstöðu þá sem samningsaðilar búa yfir.
Samningurinn formfestir samstarf HÍ og LSH um;
- Stefnumörkun.
- Starfsmannamál.
- Skipulag háskólanáms á LSH.
- Grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir.
- Fræðslustarf fyrir starfsmenn beggja stofnana og almenning.
Markmið samningsins er að efla spítalann sem háskólasjúkrahús, þannig að fræðileg og verkleg menntun og kennsla heilbrigðisstétta á Íslandi verði sambærileg því sem best gerist á hliðstæðum stofnunum erlendis. Sömuleiðis munu aðilar samningsins sameiginlega stuðla að framgangi vísindarannsókna heilbrigðisstétta til framþróunar í læknisfræði, hjúkrunarfræði og öðrum heilbrigðisvísindagreinum, sem samningurinn tekur til. Jafnframt er samningnum ætlað að stuðla að sem bestri nýliðun heilbrigðisstétta á LSH til að tryggja viðhald og nýsköpun fræðilegrar þekkingar á sjúkrahúsinu. Þá er samningnum ætlað að bæta aðgengi vísindamanna að rannsóknaefnivið og tækjum LSH í samræmi við lög og reglur.
Hlutverk Háskóla Íslands er að:
1. Annast menntun í heilbrigðisvísindagreinum.
2. Bera faglega ábyrgð á kennslu, námsefni, efnistökum og prófum.
3. Standa fyrir klínískum rannsóknum og grunnrannsóknum í heilbrigðisvísindagreinum.
4. Sjá til þess að starfsfólk sem annast kennslu og rannsóknir á vegum HÍ uppfylli akademískar kröfur.
5. Taka þátt í þróun lækninga og hjúkrunar sjúkra á LSH.
Hlutverk LSH sem háskólasjúkrahúss er að:
1. Veita þá heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma samræmist skyldu
háskóla- og meginsjúkrahúss landsins.
2. Vera vettvangur klínískrar kennslu háskólanema í heilbrigðisvísindagreinum og
framhaldsnámi.
3. Vera vettvangur og þátttakandi í kennslu annarra háskólanema og nemenda í
heilbrigðisgreinum í öðrum skólum, eftir því sem við á.
4. Eiga aðild að og vera vettvangur klínískra rannsókna og grunnrannsókna á
heilbrigðissviði.
5. Veita nánar skilgreindum hópi háskólamanna hlutdeild í þróun
heilbrigðisþjónustunnar og aðstöðu til þess að sinna störfum samkvæmt þeim
reglum sem gilda um háskólakennslu og rannsóknir.
4. Stjórnun og skipulag
Samningsaðilar fara hvor um sig með málefni sinnar stofnunar skv. lagafyrirmælum, og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. Þannig fer HÍ með fjármál, stjórnsýslu og starfsmannahald sem lúta að rekstri kennslu og fræðastarfs HÍ og LSH fer með sambærilegum hætti með þjónustu við sjúklinga, fjármál, stjórnsýslu og starfsmannahald.
Aðilar eru sammála um að semja nánar um sameiginlega ráðningu starfsmanna, sameiginlegan rekstur kennsluhúsnæðis og aðra aðstöðu til kennslu og rannsókna, aðstöðu kennara og stúdenta, sameiginleg innkaup á tækjum og gögnum, sameiginleg rannsóknaverkefni eða hvaðeina sem stofnanirnar telja hagkvæmt að vera skuli hluti samnings þessa.
Yfirstjórn
Rektor HÍ hefur, í umboði háskólaráðs, yfirumsjón með framkvæmd samningsins af hálfu HÍ. Forstjóri LSH hefur, fyrir hönd stjórnarnefndar, yfirumsjón með framkvæmd samningsins af hálfu LSH.
Skrifstofa kennslu og fræða LSH og stjórnsýslusvið HÍ fara með daglega stjórnsýslu samningsins fyrir hönd samningsaðila.
Stefnunefnd
Aðilar skipa sameiginlega stefnunefnd sem hefur það hlutverk að:
· Móta stefnu í sameiginlegum málefnum HÍ og LSH,
· sjá um framkvæmd samningsins og undirsamninga er honum tengjast og gera áætlanir um framkvæmd þeirra,
· fjalla um sameiginleg málefni svo sem ný störf sem krefjast akademísks hæfis og breytingar á störfum á LSH sem tengjast báðum stofnunum. Aðilar skulu komast að sameiginlegri niðurstöðu um skilgreiningu starfs og starfsskyldur áður en starf er auglýst,
· eiga frumkvæði að endurskoðun samningsins ef ástæða þykir til.
Í stefnunefndinni sitja þrír fulltrúar frá hvorum aðila:
Frá HÍ: Háskólarektor, forseti læknadeildar og forseti hjúkrunarfræðideildar. Varamaður forseta læknadeildar er forseti tannlæknadeildar og forseta hjúkrunarfræðideildar forseti lyfjafræðideildar.
Frá LSH: Forstjóri LSH, framkvæmdastjóri kennslu og fræða og einn fulltrúi skipaður af stjórnarnefnd LSH, sem einnig skipar tvo varamenn.
Stefnunefnd skal funda a.m.k. fjórum sinnum á ári og oftar ef forstjóri og/eða rektor telja nauðsynlegt.
Verði ágreiningur í stefnunefnd skal fela háskólarektor og forstjóra LSH úrlausn hans.
Tengsl stefnunefndar við stjórnarnefnd LSH og háskólaráð:
Stjórnarnefnd LSH og háskólaráð funda hvort um sig tvisvar sinnum á ári með stefnunefnd þar sem rædd skulu sameiginleg mál HÍ og LSH.
Tengsl stefnunefndar við framkvæmdastjórn LSH:
Framkvæmdastjórn LSH fundar minnst fjórum sinnum á ári með stefnunefnd þar sem rædd skulu sameiginleg mál HÍ og LSH.
Önnur ákvæði:
Framkvæmdastjóri kennslu og fræða á LSH annast tengsl við HÍ, kemur sjónarmiðum HÍ á framfæri í framkvæmdastjórn LSH, situr sameiginlega fundi deildarforseta heilbrigðisvísindadeilda HÍ og deildarfundi og/eða deildarráðsfundi í þessum deildum. Nánar er kveðið á um hlutverk hans og skyldur gagnvart HÍ og LSH í erindisbréfi.
Einn fulltrúi læknadeildar og einn fulltrúi hjúkrunarfræðideildar sitja í þróunar- og skipulagsnefnd LSH sem fullgildir nefndarmenn.
5. Skilgreining og skipulag fræðigreina
Fræðasvið og fræðigrein eru skipulagslegar einingar í stjórnun kennslu og rannsókna á LSH og HÍ. Fræðasvið og fræðigreinar eru skilgreindar af HÍ og tengist sérhver þeirra einhverjum sviðum eða deildum spítalans.
Hver fræðigrein heilbrigðisvísinda lýtur stjórn kennara við HÍ og geta þeir eftir atvikum haft meginstarfsvettvang á LSH eða öðrum heilbrigðisstofnunum. HÍ ákvarðar hvernig stjórn kennslu og rannsókna innan greinarinnar er háttað.
Forstöðumenn fræðasviða eða fræðigreina skipuleggja kennslu í samráði við framkvæmdastjóra kennslu og fræða LSH og sviðsstjóra LSH og skulu sviðsstjórar sjá til þess að viðunandi aðstaða sé til kennslu og rannsókna innan sviðsins.
Skrifstofa kennslu og fræða á LSH hefur yfirumsjón með þjónustu LSH við kennslu og rannsóknir HÍ. Kennslustjórar heilbrigðisvísindadeilda annast hliðstæða þjónustu af hálfu HÍ.
6. Stjórnun sviða
Starfsemi LSH er skipt í stjórnunareiningar sem nefnast svið. Sviðsstjórar bera ábyrgð á rekstri einstakra sviða og hafa forystu um starfsemi þeirra og uppbyggingu í samráði við prófessora og dósenta sem veita fræðigreinum forstöðu.
Sviðsstjórar á LSH skulu uppfylla akademískar kröfur til að gegna starfi kennara við HÍ og hafa hlotið til þess formlegt hæfnismat.
Forstjóri LSH velur sviðsstjóra. Til að undirbúa valið skipar hann þriggja manna nefnd til að fjalla um mögulega sviðsstjóra og situr einn fulltrúi stefnunefndar í þeirri nefnd.
Forstöðumaður fræðigreinar tekur þátt í almennri stefnumótun spítalans og mótar stefnu síns fræðasviðs innan LSH um vísindarannsóknir og uppbyggingu klínískrar þjónustu. Forstöðumenn og sviðsstjórar skulu funda reglubundið um málefni sviðsins.
Sviðsstjórar og forstöðumenn fræðigreina geta vísað málum til umfjöllunar í stefnunefnd.
7. Önnur atriði
Aðilar eru sammála um eftirfarandi:
- Reglum háskólafundar HÍ verði breytt í þá veru að LSH eigi fulltrúa á háskólafundi.
- Kannað verði á samningstímanum hvort æskilegt sé að koma á fót sameiginlegri rannsóknastofnun HÍ og LSH.
- Stefnt skal að því að klínisk þjónusta tannlæknadeildar verði hluti af starfsemi LSH.
- Starfsfólk LSH, sem notar starfsvettvang sinn á LSH til kennslu og rannsókna, skal eiga rétt til að sækja um mat á hæfi til að gegna akademísku starfi við HÍ. Við mat á umsóknum skal HÍ leggja til grundvallar viðmiðanir HÍ á hæfi umsækjenda um störf við háskólann. Standist starfsmaður þær kröfur sem háskólinn gerir til ákveðins starfs skal starfsmaður hljóta akademíska nafnbót í samræmi við það. Um skyldur og réttindi fer að reglum HÍ og hefur HÍ fullt ákvörðunarvald og forræði að því er akademíska þáttinn varðar. Staða viðkomandi starfsmanna við LSH breytist ekki þó viðkomandi fái akademíska nafnbót við HÍ og viðkomandi starfsmaður heldur óbreyttu starfi við LSH, nema um annað sé samið. Felist sérstök skuldbinding gagnvart HÍ í veitingu akademískrar nafnbótar er áframhaldandi starf á vettvangi spítalans háð samþykki LSH.
8. Framhald samningsgerðar og endurskoðun
Aðilar munu vinna áfram að lúkningu samningsgerðar;
- um einstakar fræðigreinar á LSH, s.s. fræðigreinar í læknisfræði, hjúkrunarfræði, ljósmóðurfræði, sjúkraþjálfun, tannlæknisfræði, lyfjafræði, sálfræði, félagsfræði og guðfræði, svo og stöðu forstöðumanna þeirra og aðild kennara HÍ að stjórnun sviða og deilda og nefndum LSH,
- um skipan starfsmannamála s.s. húsbóndavald, starfsskyldur, ráðningu, tengd störf, sameiginlega starfsmenn, akademíska nafnbót og starfsheiti,
- um stöðu nemenda í heilbrigðisvísindagreinum og skipan grunnmenntunar, viðbótar- og framhaldsmenntunar þeirra,
- um rekstur og fjárhagsábyrgð rekstrarþátta s.s. launa starfsmanna, húsnæðis, tækjabúnaðar, reksturs upplýsingabanka s.s. bókasafna, kennslugagna og vinnslu þeirra,
- um vísindastörf og rannsóknaverkefni,
og fleiri þætti sem nauðsynlegt kann að verða að semja um. Skal þeirri vinnu lokið eigi síðar en 1. desember 2001 og samningurinn staðfestur í heild sinni.
Samningur þessi er til fimm ára og tekur þegar gildi og skal endurskoðaður í heild sinni innan þriggja ára frá gildistöku.
Komi upp ágreiningur um túlkun einstakra þátta samnings þessa skal honum skotið til stefnunefndar til umfjöllunar og úrskurðar.
Gert í Reykjavík, 10. maí 2001
F.h. Háskóla Íslands F.h. Landspítala - háskólasjúkrahúss
Páll Skúlason, rektor Magnús Pétursson, forstjóri
Björn Bjarnason Jón Kristjánsson
menntamálaráðherra heilbrigðisráðherra
Fylgiskjal
Samningurinn tekur mið af ákvæðum eftirtalinna laga og stjórnvaldsfyrirmæla:
· Hjúkrunarlög nr. 8/1974
· Lög nr. 35/1978 um lyfjafræðinga
· Lög nr. 24/1985 um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta
· Lög nr. 38/1985 um tannlækningar
· Læknalög nr. 53/1988, einkum I. kafli og 7. gr.
· Lög nr. 67/1990 um Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
· Lög nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, einkum IV. kafli og 36. gr.
· Lyfjalög, nr. 93/1994, IX. kafli
· Lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins
· Lög nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga, einkum 10 og 11. gr.
· Lög nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins
· Lög nr. 136/1997 um háskóla
· Lög nr. 41/1999 um Háskóla Íslands
· Lög nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu
· Reglugerð nr. 552/1999 um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði
· Reglugerð nr. 127/2000 um sameiningu heilbrigðisstofnana
· Reglugerð nr. 458/2000 fyrir Háskóla Íslands
· Reglugerð nr. 763/2000 um vátryggingu þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu
Bókun
Leitað verði eftir því að breyta lögum um LSH í þá veru að HÍ eigi aðild að stjórnarnefnd LSH.
Magnús Pétursson Páll Skúlason