Á vegum Alþjóða blóðgjafasambandsins hefur 23. maí ár hvert verið helgaður málefnum blóðgjafa- og blóðgjafaþjónustu. Dagurinn var haldinn hátíðlegur víða um lönd í fyrsta sinn árið 1995. Tilgangur með alþjóða blóðgjafadegi er að vekja athygli almennings og stjórnvalda á málefnum blóðgjafa og blóðbankaþjónustu. Á Íslandi var fyrst haldið upp á þennan dag árið 1998 með opnu húsi. Dagurinn tókst framar björtustu vonum og má geta þess að forseti Íslands var verndari hans. Blóðbankinn, í samvinnu við Blóðgjafafélagið og önnur félagasamtök, hefur síðan haldið haldið upp á þennan dag með opnu húsi og ýmsum öðrum viðburðum. Allt bendir því til þess að dagurinn sé kominn til að vera.
Árið 1998 gekk Blóðgjafafélagið í alþjóða blóðgjafasamtökin IFBDO (INTERNATIONAL FEDERATION OF BLOOD DONOR ORGANIZATIONS). Meðal markmiða IFBDO eru sjálfbæri (self - sufficiency) hvað varðar blóð frá sjálfboðaliðum sem þiggja ekki greiðslu fyrir (nonpaid voluntary donors) og að stuðla að auknu trausti almennings á blóðframboði þjóða með því að samstilla öryggisstaðla og eftirlit með blóðgjöfum.
Blóðbankinn hvetur starfsfólk í heilbrigðisþjónustu og aðra til að gefa blóð
Blóðbankinn kallar á starfsmenn í heilbrigðisþjónustu og hvetur þá til að koma og gefa blóð. Tilefnið er alþjóðadagur blóðgjafa 23. maí. Vikuna 21. maí til 25. maí vekja starfsmenn Blóðbankans sérstaka athygli á því að starfsmenn í heilbrigðisþjónustu geta ekki síður en aðrir gerst virkir blóðgjafar. Margir þeirra halda að þeir geti ekki gefið blóð, starfs síns vegna. Í fæstum tilfellum er það rétt. Starfsmenn í heilbrigðisþjónustu geta í flestum tilfellum gefið blóð eins og aðrir. Því hvetur Blóðbankinn þá og sem flesta aðra til þess að gerast virkir blóðgjafar. Tekin hafa verið saman nokkur einföld atriði sem starfsfólk í heilbrigðisþjónustu þarf að hafa í huga varðandi blóðgjöf.
Blómabændur gefa rós þeim blóðgjöfum sem koma í Blóðbankann mánudag, þriðjudag og miðvikudag í átaksvikunni og einnig fá þeir stuttermabol að gjöf. Það verður líka heitt á könnunni og boðið upp á vöfflur með rjóma. Blóðbankinn verður opinn sem hér segir:
Mánudagur 21. maí 8:00 til 19:00 Þriðjudagur 22. maí 08:00 til 15:00 Miðvikudagur 23. maí 08:00 til 15:00 Fimmtudagur 24. maí LOKAÐ (Uppstigningardagur) Föstudagur 25. maí 08:00 til 12:00