Framkvæmdastjórn Landspítala - háskólasjúkrahúss samþykkti skipan slysa- og bráðaþjónustu á allra næstu árum á fundi sínum 12. júní 2001. Þar er mörkuð sú stefna að slysa- og bráðaþjónusta spítalans verði sameinuð á einum stað. Til þess þurfi hins vegar annað hvort nýbyggingu eða endurbyggingu sem varla verður lokið við á næstu þremur til fjórum árum. Ekki er tekin afstaða til þess hvort slysa- og bráðaþjónustan verði byggð upp í Fossvogi eða Hringbraut. Það ráðist af þeirri stefnu sem þurfi að marka í náinni framtíð um uppbyggingu spítalans í heild. Meðal annarra ákvarðana sem tengjast samþykkt um skipulag slysa- og bráðaþjónustunnar er að slysa- og bráðamóttaka verði sameinuð um næstu áramót í Fossvogi undir stjórn slysa- og bráðasviðs. Móttakan byggi á hugmyndafræði bráðalæknisfræðinnar. Tvískipting bráðavakta milli Hringbrautar og Fossvogs verði lögð niður frá sama tíma. Sjúklingum sem taldir eru vera með bráðakransæðastíflu verði beint á Hringbraut. Í Fossvogi er ekki gert ráð fyrir sjálfstæðri hjartadeild. Við Hringbraut verði hjartadeild ætlað meginrými í nábýli við hjartaskurðlækningar. Þá er í samþykkt framkvæmdastjórnar gert ráð fyrir því að innlagnastjóri stýri bráðainnlögn og álagi milli húsa.
Þann 6. mars s.l. skipaði framkvæmdastjórn fjögurra manna nefnd til þess að útfæra ýmsar hugmyndir að sameiningu og tilfærslu á starfsemi spítalans og jafnframt að meta sérstaklega áhrif slíkra tilfærslna á aðra þætti í starfseminni. Skýrsla nefndarinnar var grunnur að ákvörðun skipulag slysa- og bráðaþjónustunnar, ásamt fjölmörgum tillögum og ábendingum sem bárust framkvæmdastjórn frá öðrum. Í nefndinni voru Aðalsteinn Pálsson sviðsstjóri byggingasviðs, Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri á hag- og upplýsingasviði, Lilja Stefánsdóttir aðstoðarmaður hjúkrunarforstjóra og Niels Christian Nielsen aðstoðarmaður lækningaforstjóra.
Þann 6. mars s.l. skipaði framkvæmdastjórn fjögurra manna nefnd til þess að útfæra ýmsar hugmyndir að sameiningu og tilfærslu á starfsemi spítalans og jafnframt að meta sérstaklega áhrif slíkra tilfærslna á aðra þætti í starfseminni. Skýrsla nefndarinnar var grunnur að ákvörðun skipulag slysa- og bráðaþjónustunnar, ásamt fjölmörgum tillögum og ábendingum sem bárust framkvæmdastjórn frá öðrum. Í nefndinni voru Aðalsteinn Pálsson sviðsstjóri byggingasviðs, Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri á hag- og upplýsingasviði, Lilja Stefánsdóttir aðstoðarmaður hjúkrunarforstjóra og Niels Christian Nielsen aðstoðarmaður lækningaforstjóra.