Íslenskar lyfjarannsóknir
efldar með samstarfssamningi
Landspítali - háskólasjúkrahús (LSH) og GlaxoSmithKline ehf. (GSK) hafa gert með sér samstarfssamning á sviði klínískra lyfjarannsókna en með honum er settur fastur rammi um rannsóknarsamstarf sjúkrahússins og lyfjafyrirtækisins. Það auðveldar meðal annars að fylgja eftir ýmsum langtímamarkmiðum, t.a.m. við gerð sérstakra rannsóknarsamninga um einstök verkefni. Einnig skapast grundvöllur fyrir stuðningi hvors aðila við jákvæða uppbyggingu í starfsemi hins. Samningurinn nær til allra verkefna á sviði klínískra lyfjarannsókna sem unnin eru í samstarfi GSK og starfsmanna LSH.
Alþjóðlega lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline er leiðandi á sínu sviði og það eina sem starfrækir eigið dótturfyrirtæki á Íslandi. Megin viðfangsefni hérlendis lúta að markaðs- og kynningarstarfi, samskiptum við heilbrigðisyfirvöld og klínískum lyfjarannsóknum. Slíkar rannsóknir hafa verið stundaðar um árabil,
m.a. í samvinnu við lækna og vísindamenn á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Meðal rannsóknarefna hafa verið nýjungar í meðferð krabbameins, meltingarsjúkdóma, heilablóðfalls, sykursýki, öndunarfærasjúkdóma, smitsjúkdóma og kransæðasjúkdóma.
Hjörleifur Þórarinsson framkvæmdastjóri GlaxoSmithKline ehf. og Magnús Pétursson forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss undirrituðu samsstarfssamning lyfjafyrirtækisins og sjúkrahússins. Við undirritunina var greint frá því að GlaxoSmithKline ætlaði að veita styrk til starfsemi á sviði rannsókna- og þróunar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi.