Til starfsmanna LSH
Frá framkvæmdastjórn
Sex mánaða rekstraruppgjör sýnir 247 m.kr. rekstrarkostnað umfram fjárheimildir sem eru tæp 2,5% frávik af veltu. Áætlun tímabilsins gerði ráð fyrir að rekstrarkostnaður væri 50 m.kr. umfram fjárheimildir tímabilsins og eru því frávik frá áætlun 2,0%. Kostnaður vegna S-merktra lyfja er auk þess tæpar 60 m.kr. umfram fjárheimildir en þessi kostnaðarliður fluttist frá Tryggingastofnun ríkisins til LSH um sl. áramót.
Ástæður þess að rekstrarkostnaður spítalans er 2,0% umfram rekstraráætlun tímabilsins eru nokkrar. Fyrst er að nefna óhagstæða verðlags- og gengisþróun. Talið er að útgjöld vegna rekstrarvara séu 150-200 m.kr. umfram forsendur fjárlaga á hálfu ári og líkur eru á að öll áhrif hækkana séu ekki komin.
Skortur er á sérhæfðu starfsfólki og þá sérstaklega hjúkrunarfræðingum. Samhliða þessu liggja veikari sjúklingar á deildum spítalans og umönnun krefst mikillar sérhæfingar og faglegrar þekkingar. Þessi skortur á starfsfólki hefur kallað á aukna yfirvinnu sem er mjög kostnaðarsöm fyrir spítalann.
Sameining sjúkrahúsanna kostar óhjákvæmilega nokkurt fé. Annars vegar er það vegna biðlaunagreiðslna og hins vegar vegna framkvæmda við húsnæði spítalans þegar legudeildir eru fluttar og aðlagaðar þörfum sameinaðra sérgreina.
Heildarfjárheimild spítalans á árinu 2001, borið saman við rekstrarútkomu síðasta árs, lækkaði um 2% að raungildi. Við ráðstöfun fjárveitinga til viðfangsefna spítalans í upphafi ársins naut bráða- og slysaþjónusta forgangs í fjárframlögum. Áhrif þessa eru nú að koma fram og setur óhjákvæmilega mark sitt á fjárhagshorfur einstakra sviða og deilda. Nokkur svið á spítalanum eiga í talsverðum fjárhagserfiðleikum og verða sérstakar aðgerðir að koma til framkvæmda á haustmánuðum svo mögulegt verði að lækka rekstrarútgjöld þeirra. Kostnaður hefur einnig verið umfram fjárheimildir á stjórnsýslusviðum spítalans og eru ýmsar ástæður fyrir því, m.a. sameining á tölvukerfum, viðhald á legudeildum og aukin krafa um skilvirkari upplýsingagjöf. Stjórnendur spítalans eru nú að skoða þær aðgerðir sem gripið verður til svo mögulegt verði að lækka rekstrarútgjöld hans.
Gerð var könnun á spítalanum 26. júlí s.l. á því hversu margir sjúklingar á legudeildum hafa lokið þeirri meðferð sem þeir þurfa á spítalanum og eru tilbúnir til að útskrifast í önnur meðferðarform en komast ekki vegna skorts á rými. Í ljós kom að 105 sjúklingar bíða eftir öðru úrræði eða yfir 20% af sjúklingum á bráðadeildum spítalans. Að teppa bráðarúm á spítalanum er bæði kostnaðarsamt fyrir samfélagið og minnkar framleiðni á spítalanum.