Ákveðið hefur verið að taka tilboði lægstbjóðanda, Ólafs og Gunnars ehf. í þriðja verkáfanga byggingar nýs Barnaspítala Hringsins. Tilboð fyrirtækisins nam 83,1 prósenti af kostnaðaráætlun eða um 595 milljónum króna. Sama fyrirtæki hefur séð um uppsteypu á Barnaspítalanum, sem er að ljúka.
Byggingarnefnd Barnaspítalans hélt fund miðvikudaginn 12. september. Til umfjöllunar var bréf frá Framkvæmdasýslu ríkisins (FSR) þar sem kom fram að FSR hefði farið yfir gögn Ólafs og Gunnars ehf. og að fyrirtækið uppfyllti kröfu útboðsgagna. Jafnframt taldi FSR að verktaki hefði sýnt að hann eigi að geta skilað verkinu á umsömdum tíma þrátt fyrir það að miklar tafir hafi orðið á vinnu fyrirtækisins við byggingu Barnaspítalans til þessa.
Fulltrúar FSR, Ólafs og Gunnars ehf. og LSH héldu einnig fund 12. september þar sem verktakinn lýsti því yfir að hann setti Barnaspítalann í forgang. Jafnframt var lögð fram verkáætlun, dagsett 12. september, fyrir innréttinguna, undirrituð af Ólafi og Gunnari ehf. og fjórum stærstu undirverktökunum.
Í ljósi þessa samþykkti byggingarnefndin að fara að tillögu FSR en lagði áherslu á eftirfarandi þrjú atriði sem voru færð til bókar:
1. Byggingarnefnd metur það að lagður hafi verið fram skuldbindandi verkáætlanir af Ólafi og Gunnari ehf. og telur það mikilvægt framlag til að endurreisa álit á fyrirtækinu.
2. Byggingarverktakanum hefur verið kynnt mikilvægi þess að verkáætlun standist vegna áætlana LSH um sameiningu sjúkradeilda og sérgreina, sem eru háðar því að byggingunni sé skilað á réttum tíma og það mikla tjón sem LSH verður fyrir ef skil dragast.
3. Byggingarnefndin óskar eftir því að henni sé gerð reglubundin grein fyrir gangi framkvæmda og að FSR haldi uppi öflugu eftirliti.