Stórgjöf færir landsmönnum
nýjan tækjabúnað til hjartaþræðinga og annarra
æðarannsókna og innanæðaaðgerða
Landspítali - háskólasjúkrahús tók í notkun nýtt tæki til hjartaþræðinga og annarra æðarannsókna og innanæðaaðgerða föstudaginn 28. september 2001. Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur gerði kleift að ráðast í kaup á tækjabúnaðinum. Sjóðurinn leggur fram 40 milljónir króna vegna kaupanna en tækið kostar um 100 milljónir. Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur var stofnaður í júlí 2000. Stofnfé var 200 milljóna króna framlag hennar en meginhlutverk sjóðsins er að efla hjartalækningar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Nú þegar hefur sjóðsstjórnin tekið ákvörðun um framlag sem nemur í heild 77 milljónum króna. Jónína var viðstödd athöfn þegar tækið var formlega tekið í notkun.
Nýja tækið nefnist Integris Allura og er keypt fyrir milligöngu Eirbergs ehf. frá Philips Medical Systems í Hollandi. Tækið er það nýjasta og besta sem þessi framleiðandi hefur upp á að bjóða. Þetta er alhliða æðarannsóknatæki, hentar sérstaklega vel til kransæðarannsókna og kransæðavíkkana en er einnig mjög vel úr garði gert til að gera rannsóknir á öðrum æðum. Myndgæði eru frábær og stjórnbúnaður fullkominn þannig að fljótlegt er að taka myndir frá mörgum sjónarhornum. Einnig er góð aðstaða til raflífeðlisfræðilegra rannsókna, brennsluaðgerða við hjartsláttaróreglu og til gangráðsígræðslna.
Nýja tækið er á Landspítala Hringbraut. Með tilkomu þessa tækjabúnaðar er komin upp starfseining með tveimur mjög vel búnum rannsóknarstofum sem unnt verður að reka saman á hagkvæman hátt. Þessi starfseining verður miðstöð hjartarannsókna á Landspítala - háskólasjúkrahúsi, auk þess sem aðrar æðarannsóknir verða gerðar þar eftir þörfum. Miðstöð æðarannsókna og æðaaðgerða utan hjarta verður hins vegar á Landspítala Fossvogi. Þar hefur verið tekin í notkun æðarannsóknarstofa sem er sérstaklega búin til rannsókna á öðrum æðum en kransæðum.
Árið 2000 voru gerðar um 450 kransæðavíkkanir á LSH og stefnir í fleiri þetta árið. Samtals voru gerðar yfir 1100 kransæðaþræðingar á Landspítala Fossvogi og Landspítala Hringbraut en nú leggjast kransæðaþræðingar af í Fossvogi.
Um 120 sjúklingar bíða eftir kransæðaþræðingum en sárafáir eftir kransæðavíkkunum. Biðlisti eftir kransæðaskurðaðgerðum er líka stuttur. Um 50 sjúklingar bíða hins vegar eftir brennsluaðgerðum. Bundnar eru vonir við að þræðingalistinn og brennslulistinn styttist verulega með tilkomu nýju tækjanna.