Líknardeild opnuð á öldrunarsviði
Líknardeild var formlega tekin í notkun á öldrunarsviði LSH í dag, föstudaginn 26. október 2001. Meðal viðstaddra var Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra. Deildin verður á fimmtu hæð í austurálmu Landakots, þar sem á árum áður var gjörgæsludeild Landakotsspítala. Deildin hefur yfir níu einbýlisherbergjum að ráða. Hún er ætluð öldruðum einstaklingum sem ekki geta dvalist í heimahúsi, eru með ólæknandi sjúkdóm á lokastigi og ævilíkur skemmri en þrír til sex mánuðir. Umönnunin er sérhæfð einkennameðferð og tekur mið af andlegum, líkamlegum og félagslegum þörfum einstaklingsins. Markmiðið er að stuðla að sem mestum lífsgæðum hjá sjúklingi og fjölskyldu hans.
Framkvæmdasjóður aldraðra studdi þær húsnæðisbreytingar sem gera þurfti og Kvennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands hefur gefið búnað á allar stofur, þar með talið rúm af bestu gerð á allar stofur. Styrktarsjóður Landakotsspítala gaf mest af búnaði í setustofu, borðstofu og á ganga.
Með opnun líknardeildarinnar er að ljúka útfærslu á stefnumótun öldrunarsviðs LSH, sem miðar að því að skilgreina og sérhæfa ýmsar einingar öldrunarþjónustunnar, þannig að þær geti sem best mætt þörfum hinna öldruðu er leita til sjúkrahússins.
Bryndís Gestsdóttir er deildarstjóri líknardeildar L-5. Við deildina starfa einnig Guðlaug Þórsdóttir sérfræðingur og Kjartan Örn Sigurbjörnsson sjúkrahúsprestur. Auk þess koma að starfseminni hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, ritarar, vaktlæknar, starfsfólk í eldhúsi, iðjuþjálfi, sjúkraþjálfi, sálfræðingur, næringarráðgjafi og fleiri.