Teknar verði upp
viðbótargreiðslur fyrir unnin ferliverk
Nefnd sem forstjóri skipaði í haust hefur skilað skýrslu um ferliverk í starfsemi Landspítala - háskólasjúkrahúss. Í skýrslunni er lagt til að viðbótargreiðslur komi í stað núverandi greiðslna fyrir ferliverk.
Ferliverk í starfsemi spítalans.
Nokkrar mikilvægar niðurstöður skýrslunnar:
LSH stefni að frekari uppbyggingu ferliverkastarfsemi vegna fjölgreinameðferðar, það er þjónustu við sjúkling þar sem læknar fleiri en einnar sérgreinar eða fleiri en ein starfsstétt koma að meðferðinni með sjálfstæðum hætti. Einnig vegna mjög sérhæfðrar þjónustu, endurkomu, kennslu og vísindarannsókna. Að öðru leyti verði ferliverkaþjónusta byggð upp í samræmi við þarfir spítalans og eftir því sem fjármagn fæst til.
Ferliverkaeiningar sem unnar eru í tengslum við spítalann eru að lágmarki 11.3 milljónir sem jafngildir rúmlega 2.000 milljónum króna samkvæmt einingaverði Tryggingastofnunar ríkisins. Yfirfærsla TR til spítalans vegna ferliverka nemur um 200 milljónum króna. Tryggingastofnun greiðir hins vegar um það bil 12 milljónir eininga á ári vegna samninga við sérfræðilækna eða um 2 milljarða króna.
LSH sækist ekki eftir auknum ferliverkum sem hægt er að vinna utan spítalans nema full greiðsla fylgi þeim verkum.
Starfsmenn LSH sem skilgreindir eru sem frummeðferðaraðilar hafi jafnan rétt til ferliverkastarfsemi þar sem spítalinn stofnar til hennar og starfsfólk í svipaðri aðstöðu njóti sambærilegra starfsskilyrða.
Sérstök greiðsla fyrir ferliverk verði viðbótargreiðsla frá LSH sem geti eingöngu runnið til þess starfsmanns sem ber frumábyrgð á meðferð sjúklings.
Á árinu 2002 stefnir LSH að því að komum ferlisjúklinga á hans vegum fjölgi.
*
Í ferliverkanefndinni voru Jóhannes M. Gunnarsson framkvæmdastjóri lækninga, formaður, Anna Stefánsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar, Guðmundur I. Bergþórsson sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs á skrifstofu fjárreiðna og upplýsinga, Sverrir Bergmann formaður læknaráðs, Torfi Magnússon forstöðumaður rannsóknar- og þróunarstarfs (valinn ritari) og Þórður Harðarson prófessor og yfirlæknir.