Greinargerð stjórnarnefndar Landspítala - háskólasjúkrahúss
til starfsmanna sjúkrahússins
21. desember 2001
Stjórnarnefnd Landspítala - háskólasjúkrahúss fjallaði um fjárskort sjúkrahússins á fundi sínum 20. desember 2001. Stjórnvöld og stjórnendur spítalans glíma sameiginlega við erfiðan vanda í þeim efnum. Ljóst er að fjárhagsleg staða sjúkrahússins og framlög til rekstursins á fjárlögum ársins 2002 verða til þess að ekki er unnt að veita óbreytta þjónustu á næsta ári.
Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík, sem stjórnvöld tóku ákvörðun um snemma árs 2000, er þegar farin að skila hagræðingu og bættri þjónustu við sjúklinga. Á næsta ári verður þess vart í enn ríkara mæli ef takmörkuð fjárframlög koma ekki í veg fyrir framhald þeirrar sameiningar sérgreina sem ákveðin var eftir stofnun Landspítala - háskólasjúkrahúss. Stjórnarnefnd leggur áherslu á þær aðhaldsgerðir sem þarf að grípa til nú stöðvi ekki þá hagræðingu og bættu þjónustu sem sameining sjúkrahúsanna er farin að leiða af sér
Starfsemi spítalans 2001
Á LSH er verið að þróa aðferðir, samkvæmt alþjóðlegum kerfum, sem gera samanburð á kostnaði við einstök verkefni möguleg. Sá samanburður er íslenska háskólasjúkrahúsinu mjög hagstæður.
Á tímum umfangsmikilla breytinga í rekstri er ávallt hætta á að nauðsynleg starfsemi raskist. Starfsfólki spítalans hefur tekist afar vel að halda uppi öflugri starfsemi og vinna að því að marka stefnu spítalans í þeim efnum. Þannig hefur sjúklingum fjölgað um 2% á einu ári, komum á göngu- og dagdeildir fjölgað um 1-2 % og meðallegutími sjúklinga á sjúkrahúsinu styst um úr 9,2 dögum í 8,4 daga. Allt er þetta mikill og lofsverður árangur. Þá hefur á árinu verið unnið að margþættum umbótum á aðstöðu. Má þar nefna endurbætur á skurðstofum í Fossvogi, innréttingu nýrrar deildar á Landakoti og innréttingu legudeilda í Fossvogi og við Hringbraut. Þetta er forsenda sameiningar sérgreina og er ótvírætt sjúklingum og starfsfólki til hagsbóta.
Staðan í rekstri nú og horfur 2002
Kostnaður við rekstur Landspítala - háskólasjúkrahúss var nánast sá sami árið 2001 og árið 2000, á föstu verðlagi. Sá árangur hefur náðst í rekstri þrátt fyrir stöðugar kostnaðarhækkanir og verulegan kostnað við sameiningu sérgreina. Sú sameining hefur þegar skapað bæði hagræðingu og betri þjónustu til framtíðar.
Uppsafnaður halli spítalans er áætlaður um 770 m.kr í árslok 2001, þ.e. 370 m.kr. frá árinu 2000 og eldra og 400 m.kr. frá 2001. Samkvæmt nýsamþykktum fjárlögum 2002 gera stjórnvöld kröfu um að draga starfsemina saman um 4% frá því sem var á árinu 2001. Verulegt átak þarf til að mæta þessari kröfu.
Fjölþættar aðhaldsaðgerðir
Til að þjónusta Landspítala - háskólasjúkrahúss samræmist framlögum til hans í fjárlögum þarf að taka margt til athugunar, þar á meðal eftirfarandi:
- Hlutverk spítalans verði skilgreint betur til að greina milli starfsemi hans, heilsugæslunnar og þjónustu á einkamarkaði.
- Kaup og sölukerfi verði tekið upp í starfsemi spítalans og í samskiptum hans og stjórnvalda.
- Gengið verði frá framhaldssamningum um samskipti Landspítala - háskólasjúkrahúss og Háskóla Íslands sem m.a. varpi ljósi á kostnað við menntun og rannsóknir.
- Laun eru um 70 prósent kostnaðar við rekstur spítalans. Ýmsar leiðir verði kannaðar til að minnka launakostnað, þar á meðal að draga úr yfirvinnu, fækka ársverkum með því að lækka starfshlutfall, fækka starfsmönnum þar sem dregið er úr þjónustu eða henni hætt og að ákveða hámarksfjölda starfsmanna innan starfseininga miðað við fjárlög hverju sinni. Einnig að skýrari reglur um ráðningar verði innleiddar.
- Gjaldskrár verði hækkaðar í samræmi við hækkun verðlags.
- Lyfjakostnaður verði lækkaður með því að takmarka notkun nýrra lyfja eins og kostur er.
- Sala eða leiga á eignum verði gaumgæfð og ráðuneytum heilbrigðis- og fjármála sent fyrir miðjan janúar yfirlit um möguleika í því sambandi. Stefnt verði að sölu eigna fyrir 200 milljónir króna að minnsta kosti.
- Viðhald eigna verði takmarkað við breytingar vegna sameiningar sérgreina og öryggisatriða.