Rauði kross Íslands og Blóðbankinn skrifuðu í dag undir samkomulag um afhendingu á fullkomnum blóðsöfnunarbíl, eins konar blóðbanka á hjólum, sem er væntanlegur til landsins næsta sumar. Með tilkomu þessa færanlega blóðsöfnunartækis er öryggi í blóðbankaþjónustu stóraukið, ekki síst ef bregðast þarf skyndilega við stórslysum eða annarri vá einhvers staðar á landinu.
Að meðaltali gefa um 70 manns á dag blóð í Blóðbankanum við Barónsstíg, sem útvegar sjúkrahúsum landsins 14 þúsund einingar af rauðkornaþykknum á ári. Sjálfboðastarf blóðgjafa á Íslandi er forsenda þessa að ætíð sé nóg af blóði til aðgerða á sjúkrastofnunum.
Rauða kross starf snýst í hnotskurn um að bjarga mannslífum, segir Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. Með þessu tæki viljum við koma í veg fyrir að sú staða komi nokkurn tíma upp hér á landi að ekki sé hægt að bjarga manneskju á skurðarborðinu af því að það vantar blóð.
Nýja tækið er 13,5 metra langur vagn búinn fullkomnustu tækjum til blóðgjafar sem getur annað 50 - 100 blóðgjöfum á venjulegum vinnudegi og mun fleirum í neyðartilvikum. Gert er ráð fyrir að þriðjungur þess blóðs sem safnast á landinu í framtíðinni komi í gegnum þennan færanlega blóðbanka.
Þetta verður bylting í þjónustu við blóðgjafa og þjóðfélagið í heild sinni, segir Sveinn Guðmundsson yfirlæknir og forstöðumaður Blóðbankans. Í framtíðinni getum við farið í blóðsöfnunarferðir í skóla, fyrirtæki, stofnanir, verslanasamstæður og fleiri fjölsótta staði.
Nýja tækið er að grunni til Scania langferðabifreið sem er sérsmíðuð og útbúin tækjum af finnska fyrirtækinu Kiitokuori og fengið hingað til lands í gegnum Heklu hf í kjölfar útboðs.
Heildarkostnaður við kaupin er um 31 milljón króna. Rauði krossinn leggur til 26 milljónir króna, sem félagið hefur verið að safna síðan 1996, og stjórnvöld leggja fram fimm milljónir króna, sem samþykktar voru með fjáraukalögum í vetur.
Rekstur þessa blóðbanka á hjólum er alfarið í höndum Blóðbankans, en gert er ráð fyrir að deildir Rauða kross Íslands aðstoði við blóðsafnanir líkt og hingað til.
Víða um heim rekur Rauði krossinn blóðbanka og talið er að um þriðjungur blóðs sem safnað er á heimsvísu komi beint frá Rauða krossinum og annar þriðjungur frá blóðbönkum sem Rauði krossinn styður á einhvern hátt.