Reglur um ráðningu
starfsmanna hertar
Í kjölfar samþykktar stjórnarnefndar Landspítala - háskólasjúkrahúss um aðgerðir í rekstri spítalans samþykkti framkvæmdastjórn 27. desember 2001 að eftirfarandi meginsjónarmið giltu um starfsmannahald á spítalanum árið 2002:
1. Við niðurlagningu starfa og uppsagnir starfsmanna verði leitast við að finna starfsfólki önnur störf innan spítalans eða utan. Í vissum tilvikum verði gerðir starfslokasamningar. Réttarstaða starfsmanna verði ávallt athuguð í tengslum við breytingu á starfshögum.
2. Sem gleggstar skýringar liggi fyrir þegar um uppsagnir, niðurlagningu starfs eða breytt ráðningarhlutfall er að ræða, sem kynntar verði hlutaðeigandi starfsmanni. Þar koma einkum til fjárhagsástæður, sameining sérgreina eða deilda og endurskipulagning á starfsemi spítalans.
3. Starfshópur undir stjórn sviðsstjóra skrifstofu starfsmannamála verður settur á laggirnar skv. erindisbréfi, til þess að aðstoða starfsfólk við að finna ný störf utan eða innan LSH, kanna réttarstöðu þess o.fl.
4. Nýráðningar verði stöðvaðar frá 1. janúar til 31. ágúst n.k. Þá verði tekin ný ákvörðun um ráðningartilhögun innan spítalans. Þurfi að koma til ráðningar verður það aðeins gert með aðild hlutaðeigandi framkvæmdastjóra sbr. einnig reglur um ráðningar sem samþykktar voru af stjórnarnefnd LSH 13. des sl. Í tilvitnuðum reglum kemur fram hvar ráðningarvald liggur, hvernig ákvörðun um kaup og kjör er tekin og eftirlit með starfsmannahaldi. Reglurnar eru birtar á upplýsingavef spítalans.
5. Auglýsingar um störf verði birtar þegar um ráðningu í störf er að ræða sem leiðir af sameiningu sérgreina og stöður hafa verið lagðar niður, eða yfirmenn sagt störfum sínum lausum.
6. Áætlun vegna sumarleyfa verði kynnt framkvæmdastjórn sérstaklega, eigi síðar en 1. apríl nk.