Geðdeild A-2 í Fossvogi var flutt á aðra hæð í geðdeildarbyggingu við Hringbraut 22. janúar í rými þar sem kallast 32-A. Deildin verður ekki með fulla starfsemi á Hringbrautinni fyrr en um miðjan febrúar þegar framkvæmdum lýkur á B-gangi hennar. Aðbúnaður skjólstæðinga og hjúkrunarfólks batnar til muna við flutninginn. Sem dæmi má taka að skjólstæðingar fá eins eða tveggja manna sjúkraherbergi á nýrri deild en þeir þurftu áður að deila sjúkrastofu með allt að fimm manns. Einnig batnar aðgengi að baðherbergjum og sturtum fyrir skjólstæðinga til muna frá því sem var í Fossvogi. Öryggi skjólstæðinga ætti einnig að vera betur tryggt á Hringbraut vegna samneytis við aðrar geðdeildir sem þar eru. Hjúkrunarvakt og "lyfjatiltektarherbergi" eru til fyrirmyndar á deildinni eftir nýjar endurbætur. Deildarstjóri er Þórhalla Víðisdóttir hjúkrunarfræðingur. Símanúmer deildarinnar er 560 1658.
Frá og með miðjum febrúar verða fjórar öflugar móttöku- og meðferðardeildir í geðdeildarbyggingunni á Landspítala Hringbraut. Sviðsstjórn hjúkrunar á geðsviði þakkar Þórhöllu og öllu starfsfólki deildar A-2 fyrir vaska framgöngu í flutningnum, svo og Agli T. Jóhannssyni og mönnum hans fyrir samstarfið við endurbætur í tengslum við flutninginn.