Starfsnefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra leggur til að Landspítala - háskólasjúkrahúsi verði fundinn framtíðarstaður við Hringbraut.
Ráðherrann taldi mikilvægt að kannað yrði hvernig haga mætti framtíðaruppbyggingu Landspítala - háskólasjúkrahúss til langs tíma og
skipaði í maí 2001 starfsnefnd til að gera tillögur þar um.
Í skipunarbréfi var nefndinni falið að fara yfir fyrirliggjandi gögn og hugmyndir um framtíðaruppbyggingu Landspítala - háskólasjúkrahúss á höfuðborgarsvæðinu, að gera grein fyrir þeim möguleikum sem helst teldust koma til greina. Einnig var starfsnefndin beðin að greina kosti þeirra og galla og að síðustu leggja fram tillögur um staðsetningu og hvernig standa beri að uppbyggingu spítalans.
Í nefndina voru skipuð Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, formaður, Magnús Pétursson forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss og Páll Skúlason rektor Háskóla Íslands. Ritarar starfsnefndarinnar voru skipuð þau Ragnheiður Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri tækni og eigna á Landspítala - háskólasjúkrahúsi og tóku þau bæði jafnframt fullan þátt í nefndarstarfinu, í samráði við ráðherra.
Starfsnefndin hélt alls 28 bókaða fundi á tímabilinu 1. ágúst 2001 til 28. janúar 2002. Auk þess hélt hún fjölmarga fræðslu,- kynningar og upplýsingafundi með ýmsum málsaðilum innan spítalans og utan.
Í Spítalapúlsinunum er birtar megin niðurstöður í skýrslu starfsnefndarinnar. Skýrslan er jafnframt birt hér í heild.