Eydís K. Sveinbjarnardóttir sviðsstjóri geðsviðs LSH:
Ávarp 18. febrúar 2002 við opnun geðdeildar 32A á Hringbraut.
Ágæta samstarfsfólk og aðrir gestir!
Mig langar að þakka fyrir orð Magnúsar Péturssonar, forstjóra Landspítala - háskólasjúkrahúss og segja nokkur orð fyrir hönd sviðsstjórnar geðsviðs.
Það er ljóst að við erum að lifa mikla breytingatíma nú í geðheilbrigðisþjónustu landsmanna. Í kjölfar sameiningar sjúkrahúsanna í Reykjavík hefur innra skipulag á geðsviði Landspítala - háskólasjúkrahúss breyst umtalsvert. Breytingin felur í sér aukna sérhæfingu í þjónustu við geðsjúka. Skipta má þjónustunni í afmarkaða þætti m.t.t. sérhæfingar.
Í fyrsta lagi er um að ræða móttökuþátt með áherslu á bráðaþjónustu til fólks með geðrænan vanda, þar stendur fólki til boða afmörkuð og vel skilgreind meðferðartilboð á dag- og göngudeildum eða innlögn á legudeildum þar sem meðallegutíminn er rúmar tvær vikur.
Í öðru lagi er um að ræða endurhæfingar- og hæfingarþátt með megináherslu á þjónustu við langveika geðsjúklinga og fólk sem metið er að þurfi lengri tíma meðferð.
Í þriðja lagi er um að ræða þátt sem sinnir meðferð barna og unglinga með vandamál af geðrænum toga. Mismunandi form á sjúkrahúsþjónustu, þ.e. legu-, dag- og göngudeildir er að finna á hverjum þætti fyrir sig.
Starfsemi móttökuþáttar geðsviðs er fyrst og fremst til húsa hér í þessari byggingu sem við erum stödd núna, þ.e. geðdeildarbyggingunni við Hringbraut. Einnig fer starfsemi móttökuþáttar fram á Hvítabandi við Skólavörðustíg og á Teigi við Flókagötu. Bráðamóttaka geðsviðs á Hringbraut er í nánu samstarfi við slysa- og bráðamóttöku í Fossvogi og við Hringbraut um þjónustu við geðsjúka sem þangað leita. Geðsjúklingar munu njóta jafnræðis á við aðra sjúklingahópa um aðgengi og innlagnir á nýrri gæsludeild sem fyrirhuguð er í húsnæði geðdeildar A-2 á Landspítala Fossvogi sem losnaði við flutning geðdeildar úr Fossvogi.
Geðdeild A-2 í Fossvogi flutti hér inn á aðra hæð í geðdeildarbyggingu við Hringbraut þann 22. janúar sl. og "með tímanum" kallast hún deild 32-A. Deildin hóf fulla starfsemi á föstudaginn var þegar framkvæmdum lauk hér á B-gangi hennar. Aðbúnaður skjólstæðinga og hjúkrunarfólks hefur batnað til muna við flutninginn. Sem dæmi um það má taka að skjólstæðingar fá eins eða tveggja manna sjúkraherbergi hér á deildinni en þurftu áður að deila sjúkrastofu með allt upp í fimm manns. Aðgengi að baðherbergjum og sturtum fyrir skjólstæðinga batnar til muna frá því sem var í Fossvogi. Öryggi skjólstæðinga ætti einnig að vera betur tryggt á Hringbraut vegna samneytis við aðrar geðdeildir sem hér eru. Hjúkrunarvakt og lyfjatiltektarherbergi eru til fyrirmyndar eins og þið sjáið. Frá og með deginum í dag verða fjórar öflugar móttöku- og meðferðardeildir hér í geðdeildarbyggingunni við Hringbraut.
Sviðstjórn geðsviðs langar að þakka öllum þeim sem að hafa lagt hönd á plóginn við flutning deildarinnar úr Fossvogi. Það var stórt verkefni og flókið. Einnig öllum þeim sem komu að því að skipuleggja og framkvæma breytingarnar hérna á 32A. Við sjáum afraksturinn hér í dag. Sviðsstjórnin vill þakka sérstaklega Þórhöllu Víðisdóttur, deildarstjóra sem hefur unnið frábært starf að halda utan um starfsfólk og skjólstæðinga í þessum breytingum sem eru mörgum mjög erfiðar. Mér er enn minnisstæður fyrirlestur Miles Shore, prófessors, sem heimsótti Landspítala - háskólasjúkrahús í fyrra. Hann sagði að við tengdumst vinnuumhverfi okkar tilfinningaböndum og þó svo að við værum að flytja í betur útbúið vinnuumhverfi væri alltaf um breytingu að ræða sem krefðist ákveðinnar sorgarúrvinnslu. Sviðsstjórn geðsviðs gerir sér grein fyrir þessari úrvinnslu, sem er nauðsynleg. Með hækkandi sól verðum við kannski farin að velta því fyrir okkur af hverju vorum við ekki löngu búin að sameina móttöku geðsviðs á einn stað?
Takk fyrir.